135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[13:46]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér erum við með til umfjöllunar mikilvægt frumvarp um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir að koma með þetta frumvarp inn í þingið og vænti þess að það fái góða og málefnalega umfjöllun.

Það er búið að koma hér inn á aðdraganda málsins sem er nokkur. Það er sem sagt í tíð Árna Magnússonar sem félagsmálaráðherra sem nefndin var upphaflega skipuð sem vinnur tillögur og frumvarp sem hefur verið til umfjöllunar og mjög opinnar umræðu á netinu. Þó að það frumvarp sem hér er lagt fram sé ekki nákvæmlega það sama og nefndin skilaði af sér reikna ég með að hér sé búið að taka tillit til umsagna sem komið hafa fram í þessu opna ferli og eins þá tekið tillit til samstarfsflokks, þ.e. að ríkisstjórnarflokkarnir hafi þurft að ná þarna þessari lendingu.

Þetta er mál sem er rætt á þingi nokkuð oft en kannski ekki nægilega oft. Enginn hefur nákvæmlega úrlausnina á því hvernig við eigum að ná fullu jafnrétti en allar tillögur og allar hugmyndir sem koma upp eru þess virði að þær séu skoðaðar og vonandi er þetta á réttri leið hjá okkur. Ég heyrði að hæstv. félagsmálaráðherra taldi að svo væri, en vissulega er enn þá nokkuð langt í land. Það sem er kannski hvað mest sláandi er launamunurinn og þessi ótrúlega staða kvenna í stjórnum og stjórnunarstöðum fyrirtækja. Það er bara eins og að þar þokist ekkert nema frekar aftur á bak miðað við þær nýjustu tölur sem við höfum.

Eins og ég segi tel ég að þetta frumvarp sé líklegt til þess að bæta stöðuna en miðað við hin stóru orð sem hafa fallið hjá sumum þingmönnum Samfylkingarinnar um að hér sé einhver gríðarleg bylting á ferðinni get ég ekki tekið undir það. Það þarf ekki annað en að fara í greinargerðina og skoða hana lið fyrir lið og grein fyrir grein til að sjá að náttúrlega eru mjög margar greinar óbreyttar eða lítið breyttar frá þeim lögum sem gilda í dag.

Ef við tökum frumvarpið bara lið fyrir lið er 1. gr. að mestu leyti samhljóða, 2. gr. er bara skilgreiningargrein, 3. gr. varðar það að félagsmálaráðherra fari með yfirstjórnina áfram og að Jafnréttisstofa annist áfram stjórnsýsluna. Í 4. gr. eru 1. og 2. mgr. efnislega samhljóða en það er líka komið inn á að úrskurðir kærunefndarinnar verði bindandi fyrir málsaðila, ég geri ekki lítið úr því, og það er gert ráð fyrir að Jafnréttisstofa fylgi eftir úrskurðum að beiðni kærenda. Eins er þar komið inn á að það sé kveðið nánar á um álagningu dagsekta, um þagnarskyldu starfsmanna Jafnréttisstofu o.fl. Í 5. gr. er fjallað um kærunefnd jafnréttismála og að með því að kærunefndin kveði upp bindandi úrskurði fái niðurstöður hennar meira vægi. Það er einnig nýmæli að það er lagt til að nefndinni sé heimilt að kalla sér til aðstoðar ráðgjafa og sérfróða menn og málsaðilum sé heimilt að bera úrskurð kærunefndar jafnréttismála undir dómstóla. Og þar er fjallað um gjafsókn. Í 6. gr. er fjallað um kærufresti og málsmeðferð fyrir kærunefnd jafnréttismála, 7. gr. er efnislega samhljóða. Í 8. gr. er fjallað um breytt hlutverk og skipan jafnréttisráðs, í 9. gr. er það hlutverk ráðsins og skv. 10. gr. skal boðað til sérstaks jafnréttisþings innan árs frá alþingiskosningum. Þar er kveðið á um að félagsmálaráðherra skuli leggja fram skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála við upphaf jafnréttisþings og í 11. gr. er fjallað um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára. 12. gr. er efnislega samhljóða 10. gr. gildandi laga, svipað er að segja um 13. gr. og svona mætti áfram telja þannig að ég vil vara við, hæstv. forseti, að hér sé um einhverjar byltingarkenndar breytingar að ræða. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra er hér um meira fjármagn að ræða en oft hefur verið samhliða breytingum sem þessum, það er sem sagt talað um 33–37 millj. kr. í aukaútgjöldum til þessa málaflokks við samþykkt þessa frumvarps.

Allt horfir þetta nú til betri vegar, því vil ég alls ekki mótmæla.

Þá vil ég aðeins fara yfir ýmislegt sem hefur þó verið á döfinni og tengist þessari mikilvægu baráttu og vitna þá dálítið til þeirrar aðkomu sem ég upplifði sem ráðherra. Það varðaði ekki síst þau málefni sem heyrðu undir viðskiptaráðuneytið en í minni tíð var skipuð svokölluð tækifærisnefnd, nefnd sem hafði það hlutverk að koma með tillögur um það hvernig mætti auka þátt kvenna í yfirstjórn fyrirtækja. Það var þáverandi framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs sem var formaður þeirrar nefndar, Þór Sigfússon, og ég taldi hana skila ágætisvinnu. Því miður hefur samt sú vinna ekki skilað miklu inn í þetta samfélag. Niðurstaða þeirrar nefndar var að fara ekki þá leið sem t.d. Norðmenn hafa farið, að fara út í lagasetningu til að ná þessu fram, heldur beita mýkri aðferðum. Ég skrifaði sjálf öllum stærstu fyrirtækjum bréf sem viðskiptaráðherra og vakti athygli á málstaðnum og tækifærunum sem fælust í því að konur fengju meiri áhrif. Mér finnst rétt að nálgast það út frá því enda kom fram hér í máli hæstv. ráðherra að sænskar rannsóknir hafa sýnt að þar sem konur eru í forustu fyrirtækja skili fyrirtækin jafnvel 10% meiri arði. Þetta eru því tækifæri, ekki að það eigi að miskunna sig eitthvað yfir konur.

Síðan var farið út í ansi áhugaverða vinnu sem nú er í gangi í samstarfi við Háskólann á Bifröst sem varðar jafnréttisvísitöluna. Það er starf sem var sett á til tveggja ára, og vorið 2006 undirritaði ég sem viðskiptaráðherra samkomulag um þetta. Það var sem sagt Háskólinn á Bifröst, Samtök atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnurekstri, jafnréttisráð og Jafnréttisstofa sem tóku þátt og þetta er í gangi. Það sem kom út úr þeirri stöðuskýrslu sem skilað var í apríl/maí á þessu ári er svo sannarlega ekki til þess að auka á bjartsýni því að þar kemur fram að aðeins 8% konur eru í stjórnum fyrirtækja — þarna er verið að tala um 100 stærstu fyrirtækin — í staðinn fyrir að þær voru þó 12% árið 2005. Það eru 14% meðal æðstu stjórnenda en voru 10% 2005 þannig að þar hefur aðeins þokast í rétta átt. Einn þriðji þessara fyrirtækja er með skriflega jafnréttisáætlun og 71% fyrirtækjanna hefur enga konu í stjórn. Þetta er staðan eins og hún var núna í vor. Þessi nefnd hefur ekki lokið störfum og við skulum sjá hvað kemur út þegar lokaskýrslu verður skilað eftir ár. Það er svo sem ekki ástæða til að vera neitt sérstaklega bjartsýnn á að þetta færist mikið til betri vegar, það er ekkert hægt að neita því.

Það sem þessi nefnd eða starfshópur hefur sem hlutverk er að afla sér bestu grunnupplýsinga árlega um fjölda kvenkyns stjórnenda og stjórnarformanna í 100 stærstu fyrirtækjunum hérlendis og birta upplýsingar um fjölda æðstu stjórnenda innan fyrirtækjanna. Það er talað um að móta fleiri mælikvarða á árangur fyrirtækja í jafnréttismálum og birta þær upplýsingar. Þarna er náttúrlega verið að reyna að búa til hvata fyrir fyrirtækin til að standa sig og að þau fái þá einhverja umbun fyrir, a.m.k. gott umtal sem er náttúrlega ekki lítils virði fyrir fyrirtæki á markaði.

Síðan höfum við verið í alls konar samstarfsverkefnum innan Evrópusambandsins sem við höfum fengið aðild að sem EES-land. Til dæmis var eitt verkefnið um konur í atvinnurekstri, mjög áhugavert verkefni og náði til þó nokkuð margra landa um þessa stöðu og um hvað geti helst verið til úrbóta. Þá fékk Byggðastofnun að minni beiðni það hlutverk að gera úttekt á því hvaða árangur hefði orðið af verkefnum sem hafa haft það að meginverkefni að örva frumkvæði kvenna í atvinnurekstri. Þessar upplýsingar liggja allar fyrir og það er ekki óhugsandi að félagsmálanefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar geti notað það eitthvað til hliðsjónar. Þetta er dæmigert mál sem þarf að vinna vel í nefnd og síðan býst ég við að það verði allgóð samstaða um að samþykkja þessi lög, ég hef enga trú á öðru þó að alltaf sé betra að hafa fyrirvara um einhverjar breytingar.

Hæstv. forseti. Ég ætlaði aðallega að koma inn á þessi efni og þakka hæstv. ráðherra fyrir að flytja málið og óska okkur öllum alls hins besta í þessari vinnu. Hér hefur verið fjallað nokkuð um það hvort lagasetning sé fyrst og fremst til hjálpar í þessu þegar við erum kannski meira að tala um hugarfarsbreytingu sem þarf að eiga sér stað. Eitt af því sem kemur alltaf upp í umræðunni og upp í hugann er jafnrétti á heimilum, það að báðir foreldrar taki þátt í uppeldi barnanna og taki þátt í heimilisrekstrinum sem slíkum. Það er að mínu mati eitt af grundvallaratriðum þess að konur gefi sig út í það að taka á sig ábyrgð sem er náttúrlega líka lykilatriði til að árangur náist. Þetta er mál sem er erfitt að setja um lög, þetta eru samkomulagsmál milli hjóna og sambýlisfólks og gríðarlega mikilvæg. Ég held að það megi fullyrða að yngri kynslóðirnar standi sig betur í þessu en þær eldri og að það sé meiri jafnréttishugsun hjá yngri karlmönnum eða að þeir hafi meiri jafnréttishugsun til að bera en eldri kynslóðin. Kannski verður þetta líka til að hjálpa okkur í baráttunni. Hún þarf líka að eiga sér stað á sviði löggjafar og þetta frumvarp sem hér er fram lagt er vissulega spor í rétta átt.