135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[14:14]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að blanda mér í þessa umræðu um frumvarp til laga um jafna stöðu kvenna og karla. Umræðan í dag hefur að mörgu leyti verið ágæt, mörg sjónarmið hafa komið fram og hefur hv. félagsmálanefnd án efa gott efni í sína mikilvægu vinnu fram undan.

Hér er verið að fjalla um mjög umfangsmikið mál sem nauðsynlegt er að fái mjög góða og málefnalega umræðu í þinginu. Ég styð þetta frumvarp og það mikilvæga markmið sem þar kemur fram, að stuðla að jöfnum tækifærum kvenna og karla í landinu. Jafnréttismál hafa verið mikið í umræðunni í þjóðfélaginu í áratugi. Mismunandi sjónarmið hafa verið uppi um það hvernig ná eigi því markmiði að auka jafnrétti í landinu og það er ekkert óeðlilegt við það að menn hafi mismunandi skoðanir á því hvernig best sé að nálgast þetta mál.

Þegar sú nefnd var að störfum sem þetta frumvarp byggist á var sá háttur hafður á í störfum hennar að gefa almenningi kost á að senda inn athugasemdir við frumvarpsdrögin. Ég held að sú aðferð að hleypa borgurum að svona stefnumótandi máli sé mjög jákvæð og verði til þess að umræða fari fyrr af stað í þjóðfélaginu sem er gott veganesti fyrir þingheim nú á þessu hausti. Mér finnst góður bragur á slíkum vinnubrögðum og hvet til þess að þau séu viðhöfð í þeim tilvikum þar sem það er mögulegt. Með því að kalla almenning fyrr að málinu er hægt að tryggja að hann geti komið athugasemdum sínum á framfæri og það eru meiri líkur á að málið þroskist vel.

Núgildandi jafnréttislög eru sjö ára gömul og það er mál margra að þau hafi ekki náð markmiðum sínum nægilega vel. Ýmis nýmæli eru í nýja frumvarpinu og á mörgum stöðum er verið að skerpa á gildandi ákvæðum. Kynbundin launamun hefur oft borið á góma í þessari umræðu og mér hefur sýnst að hv. þingmenn haldi að Samfylkingin hafi dregið Sjálfstæðisflokkinn nauðugan í þetta mál. Ég vil að það komi skýrt fram að stefna Sjálfstæðisflokksins í þessu efni er alveg skýr, að óútskýrðum kynbundnum launamun verði útrýmt. Stefna og vilji flokksins í þessu efni er alveg skýr hvað þetta varðar.

Þar kemur raunar einnig fram að launþegar ættu að ráða því hvort þeir veiti þriðja aðila upplýsingar um launakjör sín eða ekki. Það liggur alveg fyrir og sú stefna flokksins er líka alveg skýr. Í mínum huga er það ákvæði 3. mgr. 19. gr. frumvarpsins, að starfsmönnum sé ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo, mjög mikilvægt skref í þessa átt. Mér finnst skipta máli að þarna hafi starfsmenn heimild til að haga þessu svona og ég hef fulla trú á því að þetta ákvæði verði til þess að koma þessu mikilvæga máli lengra fram. Við skulum ekki gleyma því að það á bæði við um konur og karla að sumir kæra sig ekkert um að gefa upp launakjör sín. Það eru bara ekki allir launþegar sem vilja það. Ég held að það sé bragur að því að hafa þetta með þessum hætti.

Ég vil líka taka fram að þegar kemur að því að leggja skyldur á stofnanir og fyrirtæki finnst mér að ríkið sjálft eigi að ganga fram með afgerandi hætti og gæta þess að leggja ekki almenna markaðnum skyldur á herðar nema ríkið sé þegar farið að ganga á undan með góðu fordæmi.

Hvað almenna markaðinn varðar að öðru leyti er það alveg rétt að ákvæði laganna eru nokkuð ströng, ekki síst hvað varðar stærðarmörk fyrirtækja, og ég hvet félagsmálanefnd til að skoða þau ákvæði sem snúa að þeim þætti sérstaklega og jafnvel reyna að átta sig á hvort í raun og veru verði um mikinn kostnað fyrir fyrirtækin að ræða í því efni. Það er samt ágætt að hafa í huga að í gildandi lögum er nú þegar ákvæði í 13. gr. um að fyrirtæki og stofnanir með fleiri en 25 starfsmenn skuli setja sér jafnréttisáætlun, þótt þetta frumvarp gangi reyndar lengra í eftirfylgni í þessu. Ég treysti því að stjórnvöld og Jafnréttisstofa sérstaklega verði sú mikilvæga aðstoð í þessu máli sem boðað er í frumvarpinu.

Við sem höfum starfað á almennum markaði vitum að það er markmið allra metnaðarfullra fyrirtækja að gæta vel að jafnréttismálum og þá á ég við það hugtak í víðtækasta skilningi. Við hljótum auðvitað að sjá að það eru hagsmunir allra fyrirtækja að hafa færustu starfsmenn innan sinna vébanda og þau sjái að þau hafi hag af því að sinna þessum málum af myndarskap.

En jafnrétti verður ekki til og verður ekki náð með lagasetningu. Það þarf hugarfarsbreytingu í þjóðfélaginu og það tekur langan tíma og hefur tekið langan tíma. Eins og fram kemur í ágætri greinargerð með frumvarpinu var það árið 1919 sem gert var ráð fyrir að barnakennarar fengju jafnan rétt til launa án tillits til þess hvort þeir væru karlar eða konur. Því er langt síðan menn fóru að ræða launakjör kynjanna í því skyni að jafna þau en samt erum við enn að berjast í þessari umræðu svo mörgum árum seinna. Það er því ljóst að okkur hefur ekki miðað nógu vel.

Þetta er ekki eingöngu bundið við íslenskt samfélag, þetta á við um öll samfélög í heiminum og þrátt fyrir það sem við eigum eftir að gera betur höfum við Íslendingar að mörgu leyti staðið okkur þokkalega vel. Atvinnuþátttaka kvenna er afar há hér á landi og ég efa að hún sé víða hærri. Það er kannski ástæða til að benda á það sem stendur í athugasemdum við frumvarpið, með leyfi forseta:

„Umræða um þátttöku karla í jafnréttismálum hefur orðið meira áberandi. Nauðsynlegt er talið að karlar komi meira að uppeldismálum og ábyrgð á heimili en verið hefur þar sem jafnréttismál séu ekki einkamál kvenna“

Þarna er imprað á stóru máli og kannski því máli sem þetta allt snýst um í hugum margra kvenna. Um leið og við hvetjum konur og viljum sjá konur eins framarlega og hægt er á öllum sviðum þjóðfélagsins, vitum við líka að það þýðir mikla skipulagningu sem ekki er hægt að útskýra fyrir fólki, fólk verður að reyna það á sjálfu sér hvernig það sinnir þeirri skipulagningu þegar báðir makar takast á við flókin verkefni. Lagaumgjörðin verður náttúrlega ýta undir þessa þætti en þetta veltur allt á samkomulagi og hvernig sýn fólkið sjálft hefur á þjóðfélagið og hvert þjóðfélagið stefnir. Þetta er ekki hægt að gera nema karlmenn taki þátt, konur ná ekki eins langt og og þær hafa kannski tækifæri til ef þær hafa ekki stuðning karlmanna. Ég held að það komi skýrt í ljós í þessari umræðu að karlmenn vilja fá pláss í þeirri umræðu, þeir gera sér grein fyrir að þetta er hagsmunamál beggja kynja, þetta er ekki einkamál kvenna. Því er mjög mikilvægt að karlmenn taki ríkan þátt í þessari umræðu og það séu ekki bara konurnar sem tali um þetta vegna þess að það er mjög mikilvægt fyrir karlmenn að ræða þessi mál. Barnauppeldi og heimilisrekstur ásamt því að gegna ábyrgðarstörfum er kannski flóknara en virðist við fyrstu sýn og kannski fara mestu og flóknustu samningaviðræðurnar fram innan veggja heimilisins þegar kemur að því hvernig eigi að forgangsraða og skipuleggja. Tala ég þar af ágætri reynslu eins og þegar talað er hér um mæður, systur, feður og slíkt. Við konur erum sennilega alltaf bæði að ala upp börnin og sumar telja sig vera að ala upp makann, og hvort sem það er með réttu eða röngu og hvernig sem það gengur hefur það kannski verið svolítið þannig undanfarin ár.

Íslenskar konur mennta sig sífellt betur og ég er á þeirri skoðun og trúi því að það verði til þess að þær skili sér betur í stjórnunar- og sérfræðistörf, störf prófessora o.fl. Við skulum muna að hvatning til frekara náms karla og kvenna skilar sér í samkeppnishæfara þjóðfélagi. Konur eru að sækja fram í raunvísindum í háskólum og raunar í tæknimenntun líka þótt mér finnist reyndar að almennt þurfi enn fleiri að sækja þar fram. Við skulum heldur ekki gleyma iðnnáminu en þar horfi ég líka til hagsmuna fyrirtækjanna sjálfra. Þegar svo mikill skortur er á iðnmenntuðu fólki í landinu er mikilvægt að fyrirtækin laði til sín konur í hefðbundnari karlastörf. Það getur enginn gert nema fyrirtækin sjálf. Þau verða sjálf að sjá að þau þurfa á öllu fólki að halda til að hægt sé að reka fyrirtækin sem best. Það eru beinlínis hagsmunir þeirra og við sjáum að þau gera sér grein fyrir því.

Ég tek undir með hv. þm. Guðbjarti Hannessyni almennt um frumvarpið, að nauðsynlegt sé að meta árangur þessarar lagasetningar með reglubundnum hætti. Menn segja að það sé tilraunarinnar virði að gera þetta, ég vil ganga lengra, ég tel að það sé nauðsynlegt að þetta frumvarp fái framgang og jafnvel þótt ströng ákvæði séu um einstaka þætti í því er nauðsynlegt á þessu stigi að við tökum þetta skref.

Ég vil að endingu ítreka að ég styð frumvarpið og vona að það fái góða umræðu í félagsmálanefnd og á þinginu.