135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[14:39]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér hefur oft og tíðum þótt athyglisvert að hlýða á hv. þm. Pétur Blöndal vegna þess að hann hefur gjarnan komið inn í umræðuna með mjög áhugaverð sjónarmið. En ég er búinn að hlýða á hv. þingmann í tvígang í dag fara yfir þessi mál og viðra sín sjónarmið og ég verð að segja að ég er afar hugsi yfir því sem hann hefur sett fram.

Í morgun kom hv. þingmaður fram með þá skoðun sína að algerlega sé ástæðulaust að setja lög til að ná fram jafnrétti. Þar eigi að leita annarra leiða því að boð og bönn séu ekki til þess fallin að ná árangri í þessum efnum. Það er mat nánast allra að ekki sé jafnrétti meðal karla og kvenna. Þá spyrja menn: Hvaða leiðir eru mögulegar til þess að reyna að jafna þetta ástand? Leiðin sem valin er í þessu tilviki er að setja lög og reyna að skapa tæki sem styrkja jafnrétti kynjanna alveg eins og er gert mjög víða, t.d. í trúarbrögðunum og boðorðunum. Þar eru reglur um hvernig menn eigi að haga sér, alveg eins og er kveðið á um í siða- og lagareglum. Allt er þetta gert til þess að skapa betra samfélag.

Ég spyr hv. þingmann, vegna þess að ég verð að játa að í þetta skipti finnast mér sjónarmið hans afar sérstök: Hvaða leið sér hv. þingmaður færa til að koma á jafnrétti karla og kvenna ef ekki þá sem hér er lögð til, þ.e. að setja lög og styrkja þau tæki sem almannavaldið hefur til þess að tryggja jafnrétti?