135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[15:26]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þetta mál hefur verið rætt síðan í morgun og umræðan hefur verið góð. Menn hafa skipst á skoðunum en ég get ekki heyrt betur en menn styðji almennt þetta góða mál. Enda tel ég frumvarpið, þegar það verður orðið að lögum, vera stórt skref í jafnréttisátt. Við höfum ekki náð viðunandi árangri í jafnréttismálum með núverandi löggjöf og það var orðið tímabært að lögunum yrði breytt.

Frumvarpið er unnið af þverfaglegri nefnd og er að mestu leyti samhljóða tillögum hennar. Að okkar áliti gengur hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, heldur lengra í nokkrum atriðum og er það vel. Menn hafa talað um, eins og rétt er, að ekki sé viðunandi að við búum enn við mikinn kynbundinn launamun, ein 18%. Menn hafa talað um mannréttindabrot hvað þetta varðar og auðvitað þarf að taka á slíku. Ég tel að það sé hægt þegar frumvarpið verður orðið að lögum.

Það hefur líka komið fram í umræðunni, og kom greinilega fram í máli hæstv. ráðherra í morgun, þegar hún mælti fyrir frumvarpinu, að í því eru mörg nýmæli á ferð. Ekki er ástæða til að rekja þau öll. Það er verið að veita Jafnréttisstofu virka heimild til eftirlits með því að lögin séu haldin að viðlögðum dagsektum. Eftirlitshlutverk Jafnréttisstofu er styrkt á ýmsan hátt. Gert er ráð fyrir að hún hafi eftirlit með því að fyrirtæki og stofnanir með fleiri en 25 starfsmenn geri jafnréttisáætlanir, samþætti jafnréttissjónarmið inn í starfsmannastefnu sína og leggi mat á að efni þeirra sé viðunandi. Það er allt til mikilla bóta. Einnig er lagt til að Jafnréttisstofa geti leitað sátta í ágreiningsmálum sem stofnuninni berast. Jafnréttisstofu er ætlað að vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi í samstarfi við önnur stjórnvöld og samtök sem sinna slíkum forvörnum sérstaklega. Í dag var einmitt rætt um mikilvægi þess að svo yrði og þannig mætti lengi telja. Verið er að breyta eðli kærunefndarinnar með því að úrskurðir hennar verði bindandi o.s.frv.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Ég fagna því að hér skuli samkvæmt frumvarpinu haldið jafnréttisþing, að félagsmálaráðherra boði til sérstaks jafnréttisþings innan árs frá alþingiskosningum og aftur að tveimur árum liðnum þar sem lögð verði fram skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála og menn ræði þau mál. Ég tel að það sé mjög jákvætt og síðast en ekki síst vil ég nefna mikilvægi þess að byrjað sé á því að taka á ráðuneytunum. Hæstv. félagsmálaráðherra nefndi í morgun að skipaðir verði jafnréttisfulltrúar í ráðuneytunum. Að síðustu vil ég sérstaklega leggja áherslu á mikilvægi þess að tekið sé tillit til málefna kynjanna eða kynjasamþættingar þegar fjárlög eru sett.

Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir nefndi í ræðu sinni í morgun að hún hefði setið fund hjá NATO um hversu mikilvægt væri að ræða málefni kvenna og barna þar sem stríðsátök hafa verið. Ég átti þess kost í október, þegar NATO-þingið var haldið hér, að taka þátt í þeirri umræðu. Það er geysilega mikilvægt í allri pólitískri umræðu að huga að kynjamálum. Það er rétt sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir nefndi að varðandi ófrið hefur mikið verið hugað að málefnum karla en konur og börn hafa orðið útundan. Það er einmitt sá hópur sem líður jafnan hvað mest þegar slíkt ástand ríkir og ákveðið var á fundinum, sem haldinn var í Reykjavík, að NATO héldi áfram að huga að velferð barna og kvenna þegar ófriðarástand ríkir.

Það væri hægt að halda áfram og nefna fleiri þætti og fleiri nýmæli í frumvarpinu en ég ætla ekki að lengja mál mitt. Ég á sæti í hv. félags- og tryggingamálanefnd þar sem málið mun fá ítarlega umfjöllun og mun geyma frekari umræðu þar til málið kemur til umfjöllunar þar. En skoðanaskiptin í dag hafa verið gagnleg og við munum ræða málin áfram í nefndinni.

Virðulegi forseti. Ég fagna því að málið skuli vera komið fram og að allir þeir þingmenn sem tekið hafa til máls séu því fylgjandi. Annað gat ég að minnsta kosti ekki heyrt. Ég ætla því ekki að eyða frekari tíma í umræður en vonandi verður það sem fyrst að lögum þannig að við getum bætt ástandið í jafnréttismálunum hér á landi.