135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[15:33]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þær umræður sem hér hafa farið fram. Þær hafa verið góðar og gagnlegar. Þó að sjónarmið séu eilítið skipt varðandi einstök ákvæði frumvarpsins er ekki hægt að segja annað en allir sem hér hafa talað, og örugglega allir þingmenn, vilja jafnrétti milli kynjanna. Það er misjafnt hvaða leiðir hv. þingmenn vilja fara að því markmiði, það hefur komið nokkuð glöggt fram.

Eftir að hafa hlýtt á umræðurnar finnst mér óhætt að segja að þverpólitísk sátt sé um frumvarpið í megindráttum en vil þó árétta að fram kom hjá ýmsum þingmönnum að þeir hefðu viljað sjá að ýmist væri gengið lengra eða skemur og hafa boðað breytingartillögur.

Ýmsar spurningar hafa verið bornar fram til mín. Ég held ég byrji á því sem kallað var eftir, m.a. af hv. þm. Atla Gíslasyni 7. þm. Suðurk., að ég gerði gleggri grein fyrir mismuninum á frumvarpinu eins og það kom frá nefndinni sem fyrst undirbjó þetta mál fyrir meira en ári og svo frumvarpinu eins og það nú lítur út. Ég tel að sú yfirferð gæti svarað ýmsum spurningum sem komið hafa fram. Mér fannst koma fram hjá sumum þingmönnum að verið væri að gefa afslátt af frumvarpinu eins og það kom fram frá nefndinni, að frumvarpið eins og það er nú einkenndist af einhverri málamiðlun milli stjórnarflokkanna. Ef allrar sanngirni er gætt tel ég að ekki sé dregið úr í ákvæðum frumvarpsins. Þvert á móti er verið að gera ýmis ákvæði skýrari og skerpa á þeim.

Í fyrsta lagi er eftirlitshlutverk Jafnréttisstofu skýrt nánar ásamt dagsektunum. Í tillögu nefndarinnar, og þá er ég að tala um nefndina sem lagði frumvarpið fram fyrir ári, er lagt til að Jafnréttisstofu verði veitt heimild til að krefja einstök fyrirtæki, opinberar stofnanir, félagssamtök og aðra þá sem upplýst geta um mál um allar upplýsingar og öll gögn sem nauðsynleg þykja vegna sérstakra verkefna stofnunarinnar og athugunar hennar á einstökum stöðum. Þetta er óbreytt í frumvarpinu nú en í frumvarpi nefndarinnar kom fram að yrðu umbeðin gögn ekki afhent innan hæfilegs frests yrði stofnuninni heimilt að leggja dagsektir á viðkomandi aðila þar til úr hefði verið bætt.

Það er að mínu mati nauðsynlegt að efla eftirlitshlutverk Jafnréttisstofu og veita stofnuninni skýra heimild til að sinna því hlutverki sínu en ég tel þó að þegar Jafnréttisstofu verður veitt heimild til að beita dagsektum verði ákvæðin að vera skýrt afmörkuð í lögunum sjálfum. Í frumvarpinu er lagt til að hafi Jafnréttisstofa rökstuddan grun um brot á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla verði henni heimilt að óska eftir upplýsingum frá fyrirtækjum og stofnunum í því skyni að upplýsa um málsatvik og fái Jafnréttisstofa grun sinn um brot staðfestan kærir hún málið til kærunefndar jafnréttismála. Ef fyrirtæki eða stofnanir láta hjá líða að afhenda tiltekin gögn sem Jafnréttisstofa telur að geti upplýst um málsatvik og hefur rökstuddan grun um brot er lagt til að Jafnréttisstofa geti lagt á dagsektir þar til gögn hafa verið afhent. Ég tel mjög mikilvægt að skýrt sé kveðið á um þetta í frumvarpinu.

Ef fyrirtæki eða stofnun með 25 starfsmenn eða fleiri hefur ekki gert sér jafnréttisáætlun eða samþætt kynjasjónarmið inn í starfsmannastefnu sína ásamt framkvæmdaáætlun, ef forsvarsmenn neita að afhenda afrit af áætlunum sínum eða neita að gefa skýrslu um framkvæmd mála þegar óskað er eftir er Jafnréttisstofu heimilt að beita dagsektum uns úr hefur verið bætt.

Í tillögu nefndarinnar var lagt til að kærunefnd yrði veitt heimild til að leggja á dagsektir en hér er lagt til að fallið verði frá því og talið vænlegra að Jafnréttisstofa fái slíka heimild. Ég tel ekki eðlilegt að nefnd, kærunefndin í þessu tilviki, sem tekur ákvarðanir sem eru bindandi fyrir aðila safni jafnframt gögnum að viðlögðum dagsektum. Ég held að málsforræðisregla málsaðila gildi en aðili sem býr yfir gögnum en neitar að leggja þau fram til að varpa ljósi á málið á ætíð á hættu að bera sjálfur skaðann af því þegar nefndin tekur ákvörðun í málinu. Ég tel því eðlilegra að eftirlitsaðili eins og Jafnréttisstofa hafi slíkar heimildir til að beita dagsektum til að kanna hugsanlegt brot fyrirtækja eða stofnana. Þessu er því í raun snúið við, Jafnréttisstofa hefur heimild til að beita dagsektum en ekki kærunefndin.

Ég vil líka nefna að tenging milli Jafnréttisstofu og kærunefndar vegna gagnaöflunar kærunefndar er felld brott frá því sem var í tillögum nefndarinnar. Ég tel ekki rétt að Jafnréttisstofa blandist með neinum hætti inn í gagnaöflun kærunefndar jafnréttismála, ekki síst í ljósi þess að frumvarpið gerir ráð fyrir að kærunefndin kveði upp bindandi úrskurð.

Hlutverk jafnréttisþings er miklu skýrara nú en var í frumvarpi nefndarinnar. Hér er kveðið nákvæmlega á um að í upphafi þings leggi félagsmálaráðherra fram skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála þar sem m.a. komi fram mat á stöðu og árangri verkefna á gildandi þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Skipan jafnréttisráðs er einnig breytt, sem ég tel til bóta. Í frumvarpi nefndarinnar var jafnréttisráð afar fjölmennt, í því áttu að sitja 18 menn, nú eru 9 manns í jafnréttisráði en lagt er til að þeir verði 8. Í ljósi reynslunnar tel ég ekki rétt að fjölga fulltrúum jafnmikið og gert var ráð fyrir í nefndinni, það vill brenna við þegar nefndir eru fjölmennar að þær séu ekki eins skilvirkar í störfum sínum. Ég tel mikilvægt að fulltrúar í ráðinu endurspegli þekkingu á mörgum sviðum jafnréttismála án þess að þeim sé fjölgað, það er meginskýringin á þessum breytingum. Inn í ráðið eru komnir fulltrúar Samtaka um kvennaathvarf, Stígamóta, Kvenfélagasambandsins, Kvenréttindafélagsins og Feministafélagsins svo dæmi sé tekið.

Hlutverki jafnréttisráðs er breytt. Nefndin lagði til að hlutverk jafnréttisráðs yrði að fjalla um stöðu kynjanna á vinnumarkaði og annast önnur verkefni sem ákveðin yrðu í þingsályktunum um áætlun í jafnréttismálum sem og að taka þátt í undirbúningi jafnréttisþings. Ég tel réttara að ábyrgðin á framkvæmd þeirra verkefna sem koma fram í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum verði færð frá ráðuneytunum sjálfum yfir til jafnréttisráðs. Mér finnst hins vegar rétt að það komi skýrt fram í lögunum hvert hlutverk jafnréttisráðs er og í frumvarpinu er lagt til að ráðið starfi í nánari tengslum við Jafnréttisstofu en verið hefur í tíð gildandi laga. Mér hefur fundist það brotalöm í framkvæmdinni eins og lögin eru núna. Í frumvarpinu er ráðinu m.a. ætlað að vera félagsmálaráðherra og framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málefnum sem tengjast jafnrétti kynjanna og jafnframt er lagt til að sérstök áhersla verði lögð á jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Lagt er til að það falli í hlut jafnréttisráðs að undirbúa jafnréttisþing í samráði við félagsmálaráðherra auk þess að leggja fyrir þingið skýrslu um störf sín. Ég held að það sé betur skerpt á hlutverki jafnréttisráðs og tengslum þess við Jafnréttisstofu í frumvarpinu eins og það er nú.

Orðalagi um launaleynd hefur einnig verið breytt eins og farið hefur verið yfir hér í dag og ætla ég ekki að ræða það frekar. Ég tel að orðalagið sé nú mun skýrara og hvergi dregið úr ákvæðum frá því sem var í frumvarpinu. Í frumvarpi sínu lagði nefndin til að með stjórnarfrumvörpum ráðherra á Alþingi skyldi fylgja umsögn þar sem efni frumvarpsins væri metið með tilliti til jafnréttissjónarmiða. Þó að þetta sé tekið úr frumvarpinu eins og það er nú er áfram gert ráð fyrir því að lagt verði mat á stjórnarfrumvörpin út frá jafnréttissjónarmiði. Samkvæmt reglum sem ríkisstjórnin er með í undirbúningi, og er þegar farið að framfylgja í meðferð stjórnarfrumvarpa, á að fylgja stjórnarfrumvörpum almennt mat á áhrifum þeirra, m.a. á umhverfismál og eftir því sem tilefni er til áhrifum þeirra á tiltekna mikilvæga almenna hagsmuni. Það er tekið skýrt fram í þessum reglum, sem við getum kallað gátlista um stjórnarfrumvörp, að leggja á mat á hvaða áhrif viðkomandi frumvarp hefur á jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Það er sérákvæði sem er nýtt, það var ekki í frumvarpi nefndarinnar.

Einnig er lagt til það nýmæli að óheimilt sé að birta auglýsingu í fjölmiðlum eða á öðrum opinberum vettvangi sem er öðru kyninu til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríðir gegn jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt. Ég hef tekið eftir því í umræðunum í dag að ýmsir þingmenn hafa fagnað þessu nýja ákvæði. Í frumvarpinu er sérákvæði um kynjasamþættingu. Það hefur komið fram í þingsályktun um áætlanir í jafnréttismálum að markmið stjórnvalda sé að samþætta jafnréttis- og kynjasjónarmið inn í daglegt starf allra ráðuneyta. Með hliðsjón af því markmiði stjórnvalda er lagt til að nánar verði kveðið á um þá skyldu stjórnvalda að samþætta jafnréttis- og kynjasjónarmið inn í alla stefnumótun og áætlunargerð. Það er talið eitt af lykilatriðum til að tryggja megi jafnrétti kynjanna í samfélaginu og er ákvæðið í samræmi við eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins.

Á þeim stutta tíma sem ég hef hér til umráða hef ég rakið helstu breytingar frá frumvarpinu eins og það var. Ég vona að hv. þingmenn hafi séð að hvergi er verið að draga úr ákvæðum, hvergi er verið að draga úr þeim ákvæðum sem nefndin fjallaði um og um náðist þverpólitísk samstaða.

Ég vil aðeins fara út í örfá atriði sem hér voru nefnd til viðbótar. Við erum að tala um að úrskurðir kærunefndar verði bindandi. Ég vil undirstrika að það er mikilvægt að þeir séu bindandi. Gengið hafa úrskurðir í 65 málum frá árinu 2002–2006 og í 14 tilvikum hefur verið talið að um brot á jafnréttislögum væri að ræða. Í 39 tilvikum var talið að ekki væri um brot að ræða, í 11 tilvikum var málinu vísað frá. Í þessum 65 málum var um 14 brot á jafnréttislögum að ræða og hefðu úrskurðirnir orðið bindandi ef þetta ákvæði hefði verið til á þeim tíma.

Það var gagnrýnt hér að verið væri að taka út málshöfðunarheimild jafnréttisráðs. Í því sambandi vil ég nefna að mjög fá mál hafa farið fyrir dómstóla, einungis tvö mál hafa farið fyrir dómstóla frá árinu 2000. Ákvæðið eins og það var frá nefndinni var mjög veikt, þar stóð: Jafnréttisstofa getur höfðað mál til viðurkenningar á rétti kærenda „þegar ætla má að úrskurður dómstóla geti haft víðtæk áhrif í átt til jafnréttis eða ef hagsmunir kærenda eru metnir þess eðlis að mikilvægt þyki að fá úrlausn dómstóla.“ Ég hygg að ekki sé mikil eftirsjá að þessu og í staðinn er komið að úrskurðirnir séu bindandi og alltaf er hægt að fara með mál fyrir dómstóla.

Það hefur einnig verið gagnrýnt að gera eigi jafnréttisáætlanir og hafa sumir viljað breyta því ákvæði. Ég held að það sé ekki til bóta að miða við 50 starfsmenn. Í jafnréttislögum hefur verið miðað við að fyrirtæki sem hafa 25 starfsmenn eða fleiri eigi að gera jafnréttisáætlanir. Því hefur ekki verið fylgt eftir. Ég teldi það miður ef fara ætti í það horf að miða við 50 starfsmenn. Ég vil nefna að 900 fyrirtæki eru með 25 starfsmenn eða fleiri, þeim mundi fækka um 450 ef miðað yrði við 50 starfsmenn eða fleiri.

Tíma mínum er að ljúka. Ég vil aftur þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Málið fer nú til meðferðar í félags- og tryggingamálanefnd. Ég vona að það fái góða umfjöllun þar og að góð sátt verði um að gera það að lögum þegar það kemur aftur til meðferðar í þinginu. Ég vona að það geti orðið fyrir jólin.