135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[15:59]
Hlusta

Frsm. minni hluta viðskn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Við búum við þrískipt ríkisvald, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Hér er til umræðu mál þar sem framkvæmdarvaldið hefur tekið sér löggjafarvald með bráðabirgðalögum um notkun raflagna o.fl. á fyrrum varnarsvæði á Keflavíkurflugvelli. Þar kemur fram að forseti Íslands hafi tjáð hæstv. viðskiptaráðherra að það hafi þurft að skipta um raflagnir og breyta raflögnum á svæðinu. Þær uppfylla ekki kröfur samkvæmt íslenskum lögum. Síðan segir orðrétt, með leyfi frú forseta:

„Það sé viðamikið verkefni að skipta um allar raflagnir innan svæðisins og muni hafa mikinn kostnað í för með sér fyrir Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. sem hafi ekki yfir slíkum fjármunum að ráða að svo stöddu.“

Síðar segir, með leyfi frú forseta:

„Nær ómögulegt sé að koma raflögnum í rétt ástand fyrir þann tíma vegna þess hve knappur tíminn sé auk þess sem erfitt sé að fá iðnaðarmenn til starfsins.“

Ég lít reyndar svo á í þessu máli að forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, hefði átt að synja um útgáfu þessara bráðabirgðalaga sem öryggisventill á stjórnarskrána. Að bera það á borð fyrir hv. Alþingi að Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar eigi ekki nóga peninga til að ráðast í framkvæmdir eða það vanti iðnaðarmenn réttlæti það að víkja til hliðar ákvæðum stjórnarskrárinnar um löggjafarvald. Ég er þeirrar skoðunar að skilyrði stjórnarskrárinnar um brýna nauðsyn hafi alls ekki verið fyrir hendi. Ég vil benda á í þessu sambandi að það lá í loftinu árin 2003, 2004 og 2005 að herinn mundi fara, það var tilkynnt í mars 2006 og herinn fór af landi brott í september sama ár.

Neytendastofa vakti líka athygli á þessum vanbúnaði raflagna á Keflavíkurflugvelli í desember eða nóvember 2006 þannig að fyrirvarinn var ærinn. Ég tel að framkvæmdarvaldið hefði átt að bregðast fyrr við með því að leggja fram frumvarp um þetta mál, annaðhvort á vorþingi eða í síðasta lagi á sumarþingi í júní. Það var hæstv. viðskiptaráðherra í lófa lagið svo ekki sé meira sagt, eða þá að kalla þing saman, enda situr Alþingi allt árið. Ég tel að þröng heimild 28. gr. stjórnarskrárinnar til setningar bráðabirgðalaga verði ekki nýtt í þessu afmarkaða máli til að berja í þá bresti sem hlutust af sleifarlagi framkvæmdarvaldsins og ég segi sleifarlagi framkvæmdarvaldsins. Framkvæmdarvaldið getur ekki sótt skjól í framangreint ákvæði stjórnarskrárinnar, 28. gr., til að réttlæta mistök í stjórnarframkvæmdinni og alls ekki þegar slíkir hagsmunir eru í húfi sem eru skortur á iðnaðarmönnum eða fjárskortur einstaks fyrirtækis. Það er bara ekki í kortunum.

Ég verð líka að minna á að sérhverjum þingmanni er skylt að vinna drengskaparheit að stjórnarskránni samkvæmt 47. gr. hennar. Það hef ég gert og ég stend hér vegna þess að það er skylda mín að vekja athygli á þessu og andmæla því sem ég kalla stjórnarskrárbrot. Ég segi það hér, sem er grundvallarlögskýringarregla að íslenskum rétti, að stjórnarskráin á að njóta vafans en ekki framkvæmdarvaldið. Ef vafi er um stjórnarskrárbrot, sem ég tel ekki vera hér, þá á stjórnarskráin að njóta vafans.

Fyrir liggur umsögn Rafiðnaðarsambands Íslands í þessu máli. Það fagfélag sem hefur sérþekkingu á þessum málefnum, raflögnum og öðru slíku. Þar segir orðrétt, með leyfi frú forseta — herra forseta, svona laumast forsetarnir bak við okkur hv. þingmenn:

„Það að ráðherrar setji bráðabirgðalög og kippi úr sambandi löggiltum reglugerðum til að þjóna einum tilteknum aðila er háalvarlegt mál og brot á jafnræðisreglu. Með þessu er verið að setja fordæmi sem ekki sér fyrir endann á. Getur byggingaraðili vænst sömu meðferðar? Getur stór aðili eins og t.d. Landsvirkjun vænst sömu meðferðar ef reistar verða stórar vinnubúðir? Þessar reglugerðir eru reyndar ekki allar á valdi íslenskra stjórnvalda. Þær eru samkvæmt EES-stöðlum sem íslensk stjórnvöld geta ekki breytt og á þeim grundvelli stenst þessi aðgerð alls ekki vegna jafnvægisreglna.“

Síðan lýsir formaður Rafiðnaðarsambandsins, Guðmundur Gunnarsson, þeim hættum sem eru samfara því að nota þetta ameríska kerfi, bæði fyrir íbúa þessara staða og þá iðnaðarmenn sem eru að vinna við verkið. Meginatriðið í því, ef ég skil það rétt, er að spennusvið á vellinum var haft lægra af varnarástæðum svo síður slægi út og því er lýst nákvæmlega hvað felst í þeirri hættu.

Formaður Rafiðnaðarsambandsins bendir enn fremur réttilega á að Þróunarfélagið hafi í nóvember 2006 virt að vettugi tilmæli Neytendastofu um að ekki yrði flutt í íbúðirnar fyrr en að viðgerðum loknum. Í nóvember 2006, það er ár liðið. Svo segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Þróunarfélagið virti að vettugi fyrirmæli æðsta valds rafmagnseftirlits hér á landi sem sett voru fram í nóvember 2006 og skapaði sjálft þessa stöðu. Það að stjórnvöld rjúki til og setji bráðabirgðalög um að taka úr sambandi grundvallaröryggisreglugerðir er mjög alvarlegt mál og ámælisvert sé litið til aðdraganda málsins. Ef Þróunarfélagið hefði farið strax að fyrirmælum Neytendastofu hefði unnist tími til að gera magninnkaup á rafbúnaði og eins tilboðum í verkið með útboðum og nægur tími til að lagfæra það sem lagfæra þurfti til þess að rafbúnaður stæðist lágmarkskröfur. Það breytir svo ekki því að eftir er að gera ákaflega kostnaðarsamar breytingar á dreifibúnaði, svo spenna og rið sé í samræmi við evrópska staðla.

Rafbúnaðurinn á Keflavíkurflugvelli er í dag slysagildra, sérstaklega fyrir rafiðnaðarmenn sem starfa við hann þar sem nú eru tvö kerfi í gangi og eiga að vera um nokkurt skeið. Rafiðnaðarsambandið ítrekar áður fram settar kröfur, að allur rafbúnaðurinn á varnarsvæðinu fullnægi íslenskum reglugerðum.

Rafiðnaðarsambandið er algerlega á móti því að þessi lög verði staðfest.“

Svo mörg voru þau orð og ég geri þau að mínum. Þetta sýnir það sem ég hef sagt á undan að það var alls ekki brýn nauðsyn á þessu í skilningi stjórnarskrárinnar heldur var miklu frekar brýn nauðsyn að heimila ekki innflutning í íbúðirnar fyrr en búið væri að breyta þessu. Það má orða það þannig að frumvarpið sé sett að nauðsynjalausu, andstætt íslenskum öryggisreglum um rafmagn. Það er grafalvarlegt mál í mínum augum.

Reyndar er það svo að í áliti meiri hluta nefndarinnar er tekið undir þau sjónarmið sem ég hef fram flutt. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Um er að ræða viðamikið og kostnaðarsamt verkefni og var ekki talið unnt að koma raflögnum í rétt ástand áður en skólastarf hæfist á svæðinu, þ.e. fyrir haustið 2007.“

Þetta er rangt. Tilmæli Neytendastofu um að breyta þessu voru gefin í nóvember 2006. Það var hægur vandi að laga þetta þannig að það er beinlínis rangt sem segir í þessu áliti. Það segir líka orðrétt í áliti meiri hlutans, með leyfi hæstv. forseta:

„Meiri hlutinn telur gagnrýnisvert að mál þetta hafi ekki komið fyrr inn til viðskiptaráðuneytisins. Eðlilegra hefði verið ef málið hefði verið lagt fram á síðastliðnu sumarþingi og hlotið þar hefðbundna þinglega meðferð.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt upplýsingum frá Neytendastofu er nú þegar búið að breyta raflögnum í 318 íbúðum af þeim 340 sem taka á í notkun í fyrsta áfanga eða um 94% af íbúðarhúsnæðinu.“

Er ekki í þessu ljósi óþarft að staðfesta bráðabirgðalögin? Það er búið að ljúka verkinu 94% við þennan áfanga. Er ekki í góðu lagi að leyfa bráðabirgðalögunum að renna út á sínum gildistíma sem eru 6 vikur frá þingsetningu? Er eitthvað að því? Koma síðan hér inn með frumvarp varðandi þá áfanga sem eru eftir sem gæti þá fengið þinglega meðferð í stað þess að stilla okkur upp við það að afgreiða þetta í hasti. Ég tala ekki um að gefa síðan tíma til 1. október 2010 þegar verkið er búið samkvæmt frumvarpinu. Hvað er í gangi þar? Álit meiri hlutans í viðskiptanefnd eru röksemdir fyrir því að stjórnarskráin hafi verið brotin, hann staðfestir það sem ég hef hér sagt. Munum það að stjórnarskráin á að njóta vafans en ekki Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, munum það. Munum þessa skyldu sem við þingmenn eigum að rækja við stjórnarskrána og munum líka það heit sem við höfum unnið.

Það sem ég er hér að segja hef ég ekki fundið upp hjá sjálfum mér heldur er þetta lærdómur sem ég hef dregið af kennurum mínum í lagadeildinni og ég hef öðlast í starfi sem lögmaður. Ég dreg þessi orð mín af færustu stjórnlagaspekingum þjóðarinnar, m.a. Bjarna Benediktssyni og Ólafi Jóhannessyni. Ég dreg líka þessar ályktanir af stjórnlagabreytingu sem gerð var á Íslandi 1991, að menn vildu hverfa frá því að framkvæmdarvaldið gæti notað bráðabirgðalög eins og því sýndist. Frá 1991 hefur þróunin orðið allt önnur og mjög í þeim anda sem hinir fróðu stjórnlagaprófessorar fjölluðu um og töldu að væri réttur skilningur á stjórnarskránni. Það má segja að túlkun þeirra, sem ég er sammála í einu og öllu, hafi orðið ofan á 1991. Ég hygg að það séu 8 eða 9 tilvik frá 1991 um bráðabirgðalög en þau skipta oft tugum á áratugunum á undan og öll þeirra nema eitt eða tvö, sem eru kannski undantekningar sem sanna regluna, lúta að fræðaviðhorfum þessara merku fræðimanna.

Ég er með fyrir framan mig gagnmerka grein úr tímaritinu Lögréttu sem er tímarit sem Félag laganema við Háskóla Íslands gefur út. Greinin heitir Bráðabirgðalög sem réttarheimild og er eftir Ólaf F. Friðriksson, nemanda í lagadeild Háskólans í Reykjavík. Þar fjallar hann um bráðabirgðalög og segir eins og skýrt er að bráðabirgðalög séu stjórnvaldsákvarðanir, ekki lagaákvarðanir. Þetta er inngrip í löggjafarvaldið og verður ekki beitt nema brýna nauðsyn beri til. Hann vísar í þá fræðimenn sem ég hef nefnt á nafn. Ég leyfi mér, með leyfi herra forseta, að lesa stutta tilvitnun þar. Hún er svohljóðandi:

„Bjarni Benediktsson segir að þegar Alþingi ekki situr kunni einhver þau atvik að bera að höndum sem geri löggjöf óumflýjanlega og tilgreinir tilefni bráðabirgðalöggjafar nánar þannig: ófriður kann að brjótast út, pest í mönnum eða skepnum að koma upp, skyndilegir örðugleikar í atvinnulífi að rísa o.s.frv. Fram úr þessu verði ekki ráðið nema eldri lögum verði breytt eða alveg ný lög sett. Ólafur Jóhannesson nefnir sem dæmi um aðstæður af þessu tagi: erfiðleika í atvinnulífi, svo sem vorharðindi, óþurrkatíð, aflabrest, styrjöld sem vofir yfir eða er byrjuð, drepsótt í mönnum eða fénaði o.s.frv. Hér gera þessir tveir menn, sem báðir voru prófessorar í stjórnskipunarrétti, síðar forsætisráðherrar, ráð fyrir að miklir þjóðarhagsmunir séu í húfi.“

Svo mörg voru þau orð. Þá spyr maður sig út frá orðum þessara virtu fræðimanna og stjórnmálaskörunga: Er það brýn nauðsyn ef skortir iðnaðarmenn? Er það brýn nauðsyn ef Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar skortir fé? Er það brýn nauðsyn að rétta við það sleifarlag að klára þetta ekki frá því í nóvember 2006 til júní 2007 eða fá sérstök lög á vorþingi eða sumarþingi? Auðvitað ekki. Því fer víðs fjarri. Og ég minni enn og aftur á skyldur okkar.

Ég legg til að þetta frumvarp verði fellt. Bráðabirgðalögin daga uppi núna um miðjan nóvember, Þróunarfélagið getur drifið sig í að klára þessi 6% sem standa út af og engin hætta er á ferð. Með því að samþykkja bráðabirgðalögin eru þingmenn að leggja blessun sína yfir það sem ég tel vera stjórnarskrárbrot.

Ég gerði það að umtalsefni áðan að stjórnlagabreyting varð 1991 sem var beinlínis samkvæmt tilgangi laganna og markmiðum ætlað að draga úr þessu og það hefur tekist. Talið er að það hafi samrýmst hugmyndum manna um þingræði og lýðræði. Bráðabirgðalögin sem við erum með til umfjöllunar, eða frumvarpið, samrýmast því ekki. Það er mín skoðun.

Í afstöðu dómstóla til bráðabirgðalaga hafa líka orðið vatnaskil frá því að þessi stjórnlagabreyting var gerð 1991. Vatnaskilin eru fólgin í því að Hæstiréttur telur sig nú til þess bæran að dæma um það hvort brýn nauðsyn hafi verið fyrir hendi. Og það er skýr breyting. Það er ekki á valdi löggjafans eins að ákvarða það heldur sætir það mat endurskoðun dómstóla. Þetta er gagnmerkur dómur Hæstaréttar sem ég er að vísa til í máli nr. 129/1991.

Ég vil líka nefna það hér og halda því til haga að slíkt inngrip framkvæmdarvaldsins í störf Alþingis, sem er nú nóg fyrir að öðru leyti, með lagaframfærslu framkvæmdarvaldsins, það er nóg fyrir en þetta inngrip er sýnu alvarlegra. Þetta þekkist ekki í þeim löndum sem við berum okkur saman við á Norðurlöndum og við vorum búnir að snúa af braut þessarar ósvinnu 1991. En hér er allt í einu kominn upp bastarður úr fortíðinni, bastarður úr fortíðinni segi ég vegna þess að ég hygg að ekkert af þeim 8 dæmum frá 1991 komist með tærnar þar sem þetta bráðabirgðafrumvarp hefur hælana í vitleysu og rangri túlkun á 28. gr. stjórnarskrárinnar um brýna nauðsyn.

Höfundur greinarinnar, sem ég hef gert að umtalsefni, er þeirrar skoðunar að þegar menn ræða um brýna nauðsyn þá verðum við að meta hana út frá sömu sjónarmiðum og Bjarni Benediktsson og Ólafur Jóhannesson lögðu í þá grein og út frá sömu forsendum og stjórnarskrárgjafinn hafði við setningu stjórnarskrárinnar á sínum tíma þó framkvæmdin hafi breytt því í áranna rás. Frá þessari frjálslegu framkvæmd var, eins og ég sagði áðan, snúið á árinu 1991. Ég leggst alfarið gegn því að sitja á Alþingi og setja bráðabirgðalög og staðfesta þau til að berja í bresti sleifarlags hjá framkvæmdarvaldinu. Ég leggst algerlega gegn því og ég hef skömm á því. Ég hef skömm á því að það skuli stutt þeim rökum að fé skorti til framkvæmdanna og því eigi framkvæmdarvaldið að setja lög. Það er einnig ámælisvert að rökstyðja þetta með skorti á iðnaðarmönnum.

Ég vænti þess að hér séu þingmenn sem standi í fæturnar og felli frumvarpið, gefi framkvæmdarvaldinu gula spjaldið í þessu máli og segi: Svona stjórnsýslu viljum við enga á Íslandi og svona bráðabirgðalöggjöf viljum við ekki sjá.