135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:42]
Hlusta

Frsm. minni hluta viðskn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara í neina lagakennslu hér gagnvart hv. alþingismanni og hæstaréttarlögmanni Jóni Magnússyni. Ég ætla mér ekki þá dul. Ég bendi samt hv. lögmanni á að lesa þessa grein úr Lögréttu um bráðabirgðalög. Þar er tilvitnun í þá virtu fræðimenn sem ég vísaði til, og stjórnmálamenn, Bjarna Benediktsson og Ólaf Jóhannesson. Reyndar las ég upp búta úr umfjöllun þeirra í minni fyrri ræðu hér. Þar er fræðileg umfjöllun í nákvæmlega þeim anda sem ég hef hér flutt. Að því er varðar fordæmi vísa ég hv. lögmanni á dóm Hæstaréttar. Ég nefndi hann reyndar líka hér áðan, þetta er mál nr. 129/1991, þar sem urðu vatnaskil. Það urðu líka vatnaskil hérna 1991 með stjórnlagabreytingunni.

Stjórnarskráin nýtur ekki vafans hér eins og hún á að gera. Því fer víðs fjarri. Það er engin nauðsyn á þessum breytingum. Skólastarf er hafið, þau mega renna út á gildistíma og þá verður þetta komið í lag. Það eru 6% eftir. Svo má fara í nýja lagasetningu.

Að lokum varðandi skjaldarmerki, hv. þingmaður, hins gamla, danska arfakóngs. Mér finnst það bara sóma sér ágætlega á húsinu undir þessari umræðu.