135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[17:21]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að ríkisstjórnin heldur því fram að um brýna nauðsyn hafi verið að ræða og það stendur í aðfaraorðum bráðabirgðalaganna. En viðskiptaráðherra sjálfur sagði einfaldlega í framsöguræðu sinni fyrir málinu, með leyfi forseta:

„Auðvitað hefði verið hægt að kalla þingið saman, enda situr þingið allt árið eins og þekkt er, en tilefnið var kannski ekki nógu brýnt til að gera það.“

Þessi eina setning fellir algerlega um koll allan rökstuðning um að brýna nauðsyn hafi borið til að setja lög. Það þarf ekki að ræða málið frekar eftir þessa yfirlýsingu ráðherrans sem gefin var úr þessum ræðustól í byrjun október. Það var ekki nógu brýnt.

Þá hlýt ég að velta upp sjónarmiði sem blasir við. Á það að vera mat ráðherra hvort hann telur ástæðu til að leggja mál fyrir Alþingi eða ekki? Svör fyrir fjórum árum, m.a. frá hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni og fleirum, voru á þann veg að svo ætti ekki að vera, að þingið ætti að koma saman. Þingið á að setja lögin, hvort sem þau eru talin brýn eða ekki brýn, stór eða smá. Það er þingið sem fer með löggjafarvaldið. Og málið snýst um það.

Ætla menn að una því, koma því á og festa það í sessi að einstaka ráðherrar geti framvegis, eins og þeir hafa gert 2003 og 2007, sett bráðabirgðalög af tilefni sem þeir telja ekki nógu brýn fyrir þingið til að fjalla um?