135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[17:49]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég biðst innilegrar afsökunar á því að hafa gripið fram í fyrir forseta. Ég passa að þetta komi ekki fyrir aftur alla vega ekki meðan þú ert í forsetastól.

En ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni kærlega fyrir svör hans. Það sem ég dró út úr andsvari hans var í fyrsta lagi þetta: Að það væri ljóst að fram hefði þurft að fara lagabreyting. Ég mun nú einfaldlega kynna mér það hjá fulltrúum Neytendastofu hvaða lög það eru sem verið er að höfða til í þessu tilliti, og í sjálfu sér dreg ég ekkert í efa varðandi það mál.

Í 2. gr. umræddra laga segir að Þróunarfélagið skuli tilnefna umsjónarmann öryggismála á svæðinu sem starfi í samvinnu við Neytendastofu og hann starfi í samræmi við reglugerð um raforkuvirki. Hér er sagt að viðkomandi umsjónarmaður eigi líka að sjá um atvinnuhúsnæðið.

Ég vil einfaldlega spyrja: Er það rétt skilið, eins og ég heyrði í andsvari hv. þingmanns, að ekki sé heimilt að taka það iðnaðar- og atvinnuhúsnæði, þúsundir fermetra, sem hefur verið selt fyrr en búið er að fara yfir 220 voltin, skipta út dreifikerfinu og skipta út spennunni og setja það í samræmi við lög um íslensk raforkuvirki?