135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[17:53]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir ábendingarnar. Ég ætla þá að vera sammála hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, mínum ágæta félaga. Er það ekki sameiginlegur skilningur okkar að ekki sé heimilt að taka í notkun umrætt þjónustuhúsnæði, vöruskemmur og annað atvinnu- og iðnaðarhúsnæði, sem hefur verið selt, enda falli það ekki undir ákvæði umræddra laga sem hér eru til umræðu?

Ég hlýt að skilja það sem svo að lögin nái, líkt og hv. þingmaður sagði, til afmarkaðra fasteigna á svæðinu og þar af leiðandi hlýtur það að vera þannig að ekki sé heimilt, samkvæmt íslenskum lögum um raforkuvirki, að nota þau tugþúsund fermetra af fasteignum sem hafa verið seld á undanförnum mánuðum og vikum, eða rafvirkin í þeim, út af því að umrædd lög, bráðabirgðalög frá því í sumar og umrætt lagafrumvarp, ná ekki til þeirra. Ég held að það sé skilningur okkar og ljóst að fyrir 3. umr. þarf það að liggja algjörlega ljóst fyrir áður en ég tek afstöðu til frumvarpsins.