135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[17:59]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það má fagna því að hv. þm. Gunnar Svavarsson skuli velta vöngum yfir því hvernig tekst til með atvinnu- og iðnaðarhúsnæði á svæðinu. En það má líka nefna í þessu tilfelli að NATO á enn byggingar á svæðinu sem eru vaktaðar af Íslendingum. Síðan er hægt að minnast á að eftir á að fara í þann þátt sem snertir mengun á varnarsvæðinu og mun það hafa mikla atvinnustarfsemi í för með sér.

En frumvarpið snýst um bráðabirgðalög og kannski meira um það prinsipp að ríkisstjórnin sé ekki að setja bráðabirgðalög í tíma og ótíma þegar þess þarf ekki og þegar hægt er að kalla Alþingi saman og setja þau lög sem þarf að setja.