135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[18:14]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson stillti hlutunum þannig upp að einhverjir óeðlilegir straumar væru á milli mín og hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar í þessu máli. Það er síður en svo. Ég spurði einfaldlega þeirrar spurningar hvort nauðsynlegt hefði verið að setja þessi lög á koppinn og það tengist þá væntanlega lögum um öryggi raforkuvirkja. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson svaraði því og vísaði til upplýsinga frá Neytendastofu þannig að það lá ljóst fyrir. Þótt ég þekki nokkuð til þessara mála spurði ég þessarar spurningar.

Í öðru lagi vorum við báðir félagarnir úr Samfylkingunni sammála því að túlka þetta með þeim hætti að umrætt þjónustu- og iðnaðarhúsnæði, sem hefði verið selt, mundi þá falla undir hin venjubundnu lög um 220 voltin og svo koll af kolli. Ég bendi hins vegar á að auðvitað á eftir að breyta dreifikerfinu upp frá og öllu því sem þar er þannig að það uppfylli slík ákvæði. Það á eftir að ná samningum á milli Hitaveitu Suðurnesja og Þróunarfélagsins varðandi þau mál.

Ég vísaði líka til þess fyrr að þegar utanríkisráðuneytið setti þessi mál í hendurnar á Þróunarfélaginu á sínum tíma hefðu menn hugsanlega átt að byrja fyrr og horfa til þess fyrr að fara í þessar framkvæmdir. En við skulum ekki gleyma því að ekki var ætlunin að taka allt þetta húsnæði í notkun með jafnskömmum hætti og raun bar vitni. Það er kannski vandamálið að þörfin varð meiri en búist hafði verið við og þar af leiðandi fór allt húsnæðið í notkun. Ég horfi einfaldlega fram á að þetta mál verði þannig að við getum verið sátt við það og að það uppfylli lögin.