135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[18:20]
Hlusta

Frsm. meiri hluta viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég biðst afsökunar á frammíkalli mínu til hv. þingmanns. Ég hélt að hann hefði verið titlaður varaþingmaður Samfylkingarinnar framan af sínum pólitíska ferli en það hefur verið misskilningur af minni hálfu þannig að ég dreg það til baka.

En ég furða mig á málflutningi fulltrúa vinstri grænna hér í dag. Þeir koma í ræðustól og segja að þeir styðji uppbygginguna á þessu svæði með þeim hætti sem hún á sér stað í dag, þ.e. uppbyggingu háskólasamfélags á svæðinu, en í næstu setningu, í næstu andrá tala þeir og boða, og hefðu boðað ef þeir hefðu stjórnað, aðgerðir sem hefðu komið í veg fyrir að þessi uppbygging hefði náð fram að ganga. Þetta tvennt fer ekki saman.

Það stóð þannig á og var mat þeirra sem til þekkja að ef við hefðum ekki beitt þessum bráðabirgðalögum hefði skólastarfið nú í haust, sem er hafið, verið sett allt í uppnám. Það hefði ekki náð því flugi sem það hefur náð. Það eru hagsmunirnir sem ríkisstjórnin lítur til. Það eru ekki hagsmunir einhverra fyrirtækja úti í bæ, það eru hagsmunir þessa svæðis og þeirra einstaklinga sem munu sækja sér menntun á þessu svæði og í þessum skóla. Það erum við að setja í öndvegi, það eru engir aðrir hagsmunir. Það er sú brýna nauðsyn sem við teljum að hafi verið uppfyllt þegar kom að notkun þessarar bráðabirgðalagaheimildar.

Varðandi atvinnuhúsnæðið eins og ég skil þetta frumvarp, ég spurði sérstaklega fulltrúa ráðuneytisins á fundi í viðskiptanefnd: Hvað með atvinnuhúsnæðið? Þá kom skýrt fram að þessi bráðabirgðalög lúta að afmörkuðum og skilyrtum fasteignum á því svæði. Ef eitthvert atvinnuhúsnæði hefur verið tekið til notkunar nú þegar hlýtur það að þurfa að vera í samræmi við lög. Ég ætla ekki að standa hér og segja að menn séu að brjóta lög. Það verða að koma frekari upplýsingar um það. En ef svo er eiga eftirlitsaðilarnir að láta vita af því, Neytendastofa og aðrir.

Þetta eru þær upplýsingar sem við höfum. Þetta eru þær upplýsingar sem við fengum í meðförum nefndarinnar, að ekki sé verið að brjóta lög eftir því sem við best vitum. Atvinnuhúsnæðið hlýtur að þurfa að uppfylla íslensk lög eins og (Forseti hringir.) íbúðarhúsnæðið og skólahúsnæðið. Mér finnst það liggja í augum uppi.