135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[18:23]
Hlusta

Frsm. meiri hluta viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur margítrekað komið fram í þessari umræðu í allan dag að þegar þetta mál kom á borð hæstv. viðskiptaráðherra var sumarþingi lokið. Það hefur sömuleiðis komið margítrekað fram hjá þeim sem hér stendur og hjá ráðherranum að við teljum að það hefði verið ámælisvert af hálfu þeirra aðila sem stóðu að baki þessu máli að koma því ekki fyrr til stjórnvalda. Ég hef líka ítrekað að bráðabirgðaheimild á að nota sparlega, gætilega. Hins vegar geta verið þær aðstæður að við þurfum að nota hana. Við notuðum hana í sumar og núna erum við að fara fram á samþykki þingsins til að samþykkja þessi lög sem eigi að vernda þá hagsmuni sem ég gat um áðan.

Í fyrri ræðum mínum hef ég vitnað til fræðimanna og Hæstaréttar Íslands sem hafa metið það svo, ef menn vilja fara í lögfræðina, að það séu rúmar heimildir hjá löggjafanum til að beita þessu valdi, þannig að efist menn um lagalegu hliðina get ég vísað í lögfræðileg rök máli mínu til stuðnings. Ég get líka vísað í pólitísk rök sem ég hef líka gert.

Mig langar að enda á jákvæðum nótum. Ég veit að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er glöggur maður og það sem hann opnaði á í ræðu sinni áðan um að yfirskrift bráðabirgðalaganna væri eitthvað sérkennileg, þá get ég upplýst hv. þingmann og þingheim um að það er rétt hjá hv. þingmanni. Þar voru mistök, handvömm sem nú þegar hefur verið leiðrétt í Stjórnartíðindum, þ.e. nú er komin leiðrétting og orðin „Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég hef staðfest þau með samþykki mínu“ eru fallin á brott. Þarna voru á ferðinni mistök sem hafa verið leiðrétt í Stjórnartíðindum og vil ég nota þetta tækifæri til að koma því áleiðis og þakka sömuleiðis fyrir ábendingu þingmannsins.