135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

aðgerðaáætlun um íslenskukennslu fyrir innflytjendur.

28. mál
[18:27]
Hlusta

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Staða íslenskrar tungu var til umræðu í þessum sal fyrir ekki svo löngu þegar hv. þm. Ólöf Nordal lagði fram fyrirspurn um hvort til stæði að tryggja stöðu íslenskrar tungu í lögum eða stjórnarskrá. Þá vakti athygli mína hversu margir þingmenn kvöddu sér hljóðs um þetta mál og þó að ræðutími hvers og eins væri stuttur dró ég þá ályktun að þetta mál brenni á mörgum enda kannski engin furða þar sem íslensk tunga skipar mjög stóran sess í sjálfsmynd þessarar þjóðar, kannski stærri en hjá mörgum öðrum þjóðum. Ég ætla ekki að rekja sögu tungunnar hér og nú að öðru leyti en því að hún er auðvitað samofin sögu okkar sem þjóðar allt frá því að hér námu norrænir og keltneskir menn land á níundu og tíundu öld og hin fornnorræna tunga varð hér ráðandi tungumál. Á því tungumáli voru ort kvæði og ritaðar sögur á og þegar Íslendingar háðu sjálfstæðisbaráttu sína á 19. öld vísuðu menn einmitt til þessara fornu tíma og það má segja að þá hafi íslensk tunga orðið órjúfanlegur þáttur í sjálfsmynd okkar sem þjóðar. Æ síðan hafa Íslendingar skilgreint sig að hluta til út frá því tungumáli sem þeir tala, sú sjálfsmynd er líklega best staðfest með orðum Snorra Hjartarsonar þegar hann talaði um land, þjóð og tungu sem þrenningu eina og sanna.

Fólk hefur áhyggjur af stöðu tungunnar, klassískar áhyggjur eða sígildar, en kannski er meiri ástæða til nú en oft áður. Tungan hefur að sjálfsögðu þróast hér á landi eins og annars staðar, þ.e. íslensk tunga hefur tekið breytingum eins og önnur tungumál og aðstæður hennar eru í rauninni allt aðrar nú en fyrir nokkrum áratugum. Samfélagið hefur tekið stórstígum breytingum á skömmum tíma, tækniframfarir hafa verið mjög örar, samfélagið hefur breyst úr sveitasamfélagi í nútímalegt borgarsamfélag þar sem sveitir landsins hafa átt undir högg að sækja og sú þróun hefur verið mjög hröð, það dugir í raun að skoða bókmenntir fjórða og fimmta áratugar þessarar aldar til að sjá þær stórfenglegu breytingar sem hafa orðið á samfélagsháttum.

Þessu hefur auðvitað fylgt aukið framboð af afþreyingu, það má segja að það hafi margfaldast, og yfirgnæfandi meiri hluti þeirrar afþreyingar sem við njótum og neytum er á öðru tungumáli en íslensku og þá ekki síst á ensku. Íslendingar telja sig bókaþjóð en rannsóknir sýna að bóklestur barna og unglinga hefur farið ört minnkandi. Hjá fullorðnu fólki er ekki óalgengur skammtur ein bók á ári og kannski ekkert skrýtið þegar framboð annarrar afþreyingar er jafnmikið og raun ber vitni. Þetta hefur hins vegar valdið áhugamönnum um tunguna nokkrum áhyggjum því að lestur er líklega ein besta aðferð sem þekkist til að vanda mál sitt. Það er þó ekki allt svart og sumir hafa bent á að líklega hafi aldrei jafnmikið verið ritað og lesið á íslenskri tungu á netinu og ég vísa þá í bloggið, tjáningu 21. aldarinnar. Íslendingar hafa verið sjálfum sér líkir, þeir blogga af sama krafti og þeir taka upp allar nýjungar en bloggheimurinn sýnir ótvírætt að íslenskunotkun hefur breyst mjög. Fólk er óhrætt að tjá sig, sem er afar jákvætt, vandar sig að sama skapi mjög lítið þannig að málvöndun er á undanhaldi og tengist því kannski að fólk er mjög vant að skrifa og lesa mjög hráan texta. Þetta hef ég kannski ekki talið ástæðu til að óttast, þó að menn skrifi misgott blogg eða málnotkun sé mismunandi milli miðla, en ég held að þetta sýni okkur að það eru mjög breyttar aðstæður sem tungan býr við núna og allt aðrar en bara fyrir nokkrum árum og áratugum.

Aðaláhyggjuefnið tel ég vera í fyrsta lagi hvort íslenskan sé að hverfa af einhverjum sviðum samfélagsins, t.d. hvort það sé hætt að tala eða hugsa á íslensku í tilteknum atvinnugreinum. Það varð uppi mikið fár hér fyrr í haust þegar fólk ræddi að það gæti ekki farið í bakarí og keypt hjónabandssælu og ástarpunga heldur bara bent á mismunandi lagaðar kökur. Menn hafa líka nefnt bankana sem ekki aðeins vilja taka upp erlenda gjaldmiðla heldur tala um þá á ensku og það er kannski áhyggjuefni því að ef viðskipti hér á landi eiga öll að fara fram á ensku er hætt við því að við hættum að tala um þau á íslensku, að tungumálið á þessu sviði staðni og hverfi, því tungumál lifir á notkun. Tungumál eru ólík dauðum hlutum, það fer ekki vel með þau að nota þau ekki, það er best að nota þau sem mest undir sem flestum kringumstæðum um allt mögulegt og ómögulegt milli himins og jarðar, þau veðrast ekki af notkun heldur þróast, og því er áhyggjuefni ef tungumálið hverfur af tilteknum sviðum samfélagsins. Það held ég að við þurfum að ræða hér betur við annað tilefni, t.d. ef við tökum upp umræðu um móðurmálskennslu á mismunandi skólastigum, t.d. í tengslum við þau frumvörp sem boðuð hafa verið um skólastigin því ég tel að það skipti miklu máli að efla móðurmálskennslu á öllum skólastigum og horfi þá jafnt til leikskóla sem háskóla.

Hitt áhyggjuefnið sem ég vil nefna er það sem þingsályktunartillaga mín snýst um og það er sú staðreynd að íslenskur vinnumarkaður hefur gerbreyst á undanförnum árum. Miðað við hagtölur 2006 voru 18 þúsund erlendir ríkisborgarar hér á landi og ljóst er að þeir sem eru á vinnumarkaði þurfa allir að eiga veruleg samskipti við Íslendinga í störfum sínum og það er alveg sama hvort það er byggingarvinna, strætóakstur eða vinna á leikskóla eða elliheimili eða afgreiðsla. Þeir sem til þekkja telja að erlendum ríkisborgurum hafi fjölgað fremur en hitt og erlent fólk á vinnumarkaði sé langt yfir 20 þúsundum. Tæplega 35% félagsmanna Eflingar eru nú erlendir, bara svo dæmi sé tekið. Við þekkjum alveg þau störf sem þar eru unnin og nú svo komið að íslenska heyrist jafnvel sjaldan á sumum vinnustöðum, ekki síst í byggingargeiranum og umönnunarstörfum.

Hvað hefur komið í staðinn? Jú, allsherjarútlenska, þ.e. bágborin enska sem enginn á staðnum á að móðurmáli kemur í staðinn, hindrar eðlileg samskipti og kemur í raun í staðinn fyrir eðlileg samskipti. Þetta tel ég áhyggjuefni og miklu skipta að við bregðumst við.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir til þingsályktunar snýst um aðgerðaáætlun um íslenskukennslu fyrir innflytjendur og við teljum ljóst að þar þurfi bæði atvinnurekendur og stjórnvöld að taka höndum saman. Við leggjum til að gerð verði áætlun um að efla íslenskukennslu fyrir innflytjendur hér á landi til fimm ára, efnt verði til samráðs við fulltrúa allra skólastiga, verkalýðshreyfinguna, atvinnurekendur og símenntunarmiðstöðvar um land allt og að þeirri vinnu skuli lokið 1. mars 2008.

Við setjum hér upp fimm markmið:

1. Að efla símenntunarmiðstöðvar til að kenna innflytjendum íslensku og jafnframt að miðstöðvunum verði gert kleift að halda námskeið um íslenska menningu og fjölmenningu.

2. Að íslenskukennsla á vinnumarkaði verði efld í því augnamiði að tryggja lágmarkskunnáttu erlendra starfsmanna í tungumálinu með áherslu á það mál sem talað er í starfsumhverfi þeirra. Þetta er í raun sú aðferð sem talin er hafa gefist hvað best, þ.e. að atvinnurekendur hafa staðið fyrir íslenskukennslu inni á sínum vinnustöðum innan vinnutíma og gert fólki kleift að tala um starf sitt á íslensku, sem er auðvitað fyrsta skrefið.

3. Að tryggt verði að börn innflytjenda og foreldrar þeirra fái allar nauðsynlegar upplýsingar um réttindi sín og skyldur um leið og skólaganga hefst og slíkt gildi um öll skólastig. Þar nefnum við sérstaklega ungmenni á aldrinum 16–18 ára sem hingað flytjast því það er kannski sá hópur sem hefur orðið út undan. Hér eru reknar ágætar móttökudeildir fyrir börn sem eru að hefja nám í grunnskólum en þegar komið er á hærri skólastig myndast ákveðið gap í kerfinu. Mun ég nefna það nánar á eftir.

4. Að efla kennslu í íslensku sem öðru máli í íslensku- og kennslufræðideildum háskóla landsins.

5. Að grunnmarkmið íslenskunáms fyrir innflytjendur verði vel skilgreind og tryggt að allir innflytjendur eigi rétt á gjaldfrjálsri íslenskukennslu í samræmi við þau grunnmarkmið, þ.e. að við setjum ákveðin grunnviðmið um þá þekkingu eða kunnáttu sem innflytjendur þurfi að hafa á málinu og þeir geti þá sótt sér þá kennslu gjaldfrjálst og svo bætt við sig að eigin ósk.

Það er ljóst að menntamálaráðuneytið og stjórnvöld tóku við sér á síðasta ári eða á þessu ári þegar stjórnvöld veittu sl. vor 100 millj. kr. til íslenskukennslu fyrir innflytjendur og þá kom í ljós að ásóknin í námið var miklu meiri en búist hafði verið við. Menn höfðu óljósar hugmyndir um að um þúsund manns mundu sækja námskeiðin en raunin varð sú að 70 umsóknir bárust um styrki að upphæð 144 millj. kr. fyrir tæplega 5 þúsund nemendur. Alls voru tæplega 4.200 nemendur skráðir á námskeiðin og í margs konar kennslu, það er náttúrlega það sem skiptir máli að ákveðin fjölbreytni sé í þessu kennsluformi. Ég nefndi hér áðan kennslu úti á vinnustöðum, kennslu í símenntunarmiðstöðvum sem fólk getur sótt sér sjálft og annað slíkt.

Nemendur dreifðust þannig að um helmingur var á höfuðborgarsvæðinu og um helmingur á landsbyggðinni. Þegar ljóst var hversu mikil þörfin var í raun veittu stjórnvöld að nýju 100 millj. kr. í verkefnið í ágústmánuði 2007 og var það kynnt 7. ágúst sl.

Ég tel að þetta hafi auðvitað verið afar gott framtak en nú þurfum við að horfa fram á veginn því að ég held að þetta sé ekki átaksverkefni. Fjöldi innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði er viðvarandi og þar af leiðandi skiptir máli að við höfum langtímasýn og út á það gengur þessi aðgerðaáætlun. Það liggja fyrir miklar upplýsingar sem unnar hafa verið á vegum stjórnvalda og annarra aðila um greiningar á ástandinu og hvað hentar hverjum og annað slíkt og tel ég í rauninni ekki þörf á mikilli undirbúningsvinnu heldur í rauninni bara að ákveða þær aðgerðir sem við teljum að skipti mestu fyrir þá sem hingað koma og starfa og lifa.

Ég vil nefna sérstaklega fræðslusjóði verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda, eins og Landsmennt og Starfsafl, þau hafa veitt verulegan hluta styrkja sinna í íslenskukennslu, 46% árið 2006. Þetta eru auðvitað þeir starfsmenntasjóðir sem eiga að sjá um alla símenntun þeirra starfsmanna sem greiða í þá þannig að þetta hefur auðvitað tekið fé frá öðrum verkefnum. Ég tel því mjög mikilvægt að stjórnvöld taki aukna ábyrgð á sínar herðar í þessum efnum til frambúðar og hafi þar langtímasýn að leiðarljósi. Skipuleggja þarf starfið svo að fjármunirnir nýtist líka sem best því að þegar við erum að veita 100 milljónir hér og 100 milljónir þar þá nýtast fjármunirnir eðlilega verr en ef við erum með skipulagða áætlun fram í tímann. Það þarf líka að skilgreina hvernig samstarfi hins opinbera við fulltrúa verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda og ólíkra skólastiga verður háttað.

Ég tel einnig mikilvægt að áætlanir feli í sér leiðir til að auðvelda börnum svokallað menningarlæsi til að auðvelda þeim að aðlagast samfélaginu. Við heyrum það talsvert frá þeim innflytjendum sem hingað hafa komið að það er ekki bara tungumálið, það er menningin, t.d. hvað er fyndið er mjög ólíkt milli menningarheima og það skiptir miklu máli ef við ætlumst til þess að innflytjendur aðlagist samfélaginu og að við lögum okkur að þeim að við komum til móts við það t.d. með slíkri kynningu á innlendri menningu og að sama skapi auðvitað að við kynnum okkur hugmyndir um fjölmenningu. Þetta þarf að fara saman.

Ég nefndi áðan ungmenni á aldrinum 16–18 ára. Við þekkjum dæmi þess að hingað komi börn á þessum aldri frá svæðum þar sem hefðbundin menntun er mjög ólík því sem gerist í íslensku skólakerfi. Þau eiga mjög erfitt með að fóta sig í íslensku samfélagi, koma t.d. frá málsvæðum þar sem tungumálin eru af allt öðrum rótum, hafa ekki lært ensku. Hvernig förum við með það þegar hingað kemur drengur á 18. aldursári sem hefur verið alinn upp í tíbetsku búddaklaustri með alla þá menntun sem hann hefur og hún nýtist honum ekki neitt? Þetta er bara eitt dæmi um fólk sem hefur hingað komið og upplifir það í rauninni að lenda milli skips og bryggju.

Ég nefni það líka í aðgerðaáætluninni að það að kenna íslensku sem móðurmál fólks er allt annað en að kenna íslensku sem annað mál. Það þekki ég af eigin reynslu sem íslenskukennari að slík kennsla krefst gerólíkrar nálgunar. Hér á landi er farið að kenna kennslufræði í íslensku sem annars máls, það er ekki lengra síðan en u.þ.b. tíu ár eða eitthvað slíkt, og ég tel að þá kennslu þurfi að efla sérstaklega í kennslufræðideildum allra þeirra háskóla sem bjóða upp á nám í kennslufræðum og í íslenskunámi á háskólastigi.

Að lokum teljum við að það skipti máli að þessi grunnmarkmið verði skilgreind en við teljum eðlilegan grunn að innflytjendur njóti gjaldfrjálsrar íslenskukennslu í samræmi við þau til að tryggja jafna stöðu og jafnt aðgengi að þessari bráðnauðsynlegu menntun sem er auðvitað ekki bara mikilvæg fyrir innflytjendur heldur allt samfélagið. Það er von mín að þessi tillaga hljóti góðan hljómgrunn því að hún er mjög mikilvægur liður í því að við getum haldið áfram að tala mál forfeðranna, að við getum áfram notið bókmennta okkar og sögu milliliðalaust og við búum hér áfram í einu samfélagi, sama af hvaða rótum við erum komin. Ég held að það sé ljóst að tungumálið skiptir svo miklu fyrir þessa þjóð, fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar, og það kostar að tala tungumál á litlu málsvæði, við vitum að það kostar. Spurningin er bara: Erum við reiðubúin að leggja út í þann kostnað? Ég vona í ljósi þeirra umræðna sem hér urðu um daginn að þessi tillaga hljóti góðan hljómgrunn og fái afgreiðslu áfram til umsagnar.