135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

efling rafrænnar sjúkraskrár.

29. mál
[19:20]
Hlusta

Flm. (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður en nokkuð er um úrtölur hjá hv. þm. Dögg Pálsdóttur. Henni finnst málið erfitt og vandasamt og stuttur tími til aðgerða. Hún telur mig treysta heilbrigðisráðherranum ákaflega vel en sú er nú ekki raunin. Ég á ekki annarra kosta völ en að beina málinu til hans og trúi því að hann muni beita sér í því enda ákvað hann að skipa nefnd 4. október um leið og málið kom fram á þinginu. Mér finnst ánægjulegt að ráðherrann ætli að taka á málinu og vinna hratt því að nefndin á að skila ákveðnum tillögum 15. febrúar.

Það kom hvergi fram í máli mínu það væri sérstaklega einfalt. Ég geri mér grein fyrir að svo er ekki og þess vegna þarf að huga að mörgu og eru persónuverndarmálin hluti af því. Vitnað var til hitamáls sem rætt var í þessum þingsal fyrir nokkrum árum, þ.e. frumvarps um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Málið kom mjög skyndilega inn í þingið og var unnið hratt að því. Frumvarpið var gert að lögum á tiltölulega skömmum tíma þannig að ýmislegt er hægt á hv. Alþingi ef vilji er fyrir hendi. Ekki efast ég um að svo sé hjá Sjálfstæðisflokknum í þessu máli eins og þá.

Það er hálfbroslegt, hæstv. forseti, að ef við framsóknarmenn flytjum mál í þinginu eru stjórnarsinnar með hálfgerðan hundshaus gagnvart því. Mikið er rætt um að við séum búin að vera í ríkisstjórn í tólf ár og spurt hvers vegna við leyfum okkur að flytja mál í þinginu. Ég tek það fram að við framsóknarmenn höfum aldrei verið ein í ríkisstjórn þannig að stefna Framsóknarflokksins hefur ekki komið fram tær og ómenguð í stefnu ríkisstjórnar fram til þessa dags. Við höfum þurft að ná samkomulagi við samstarfsflokk í tólf ár. Dögg Pálsdóttir hefur ákveðið að ganga til liðs við þann flokk og er komin í þingsali fyrir hans hönd. Hrein stefna Framsóknarflokksins hefur ekki skilað sér nákvæmlega í gegnum stjórnarsáttmála þessara tveggja flokka á síðustu tólf árum þótt vissulega hafi Framsóknarflokkurinn haft þar gríðarlega mikil áhrif. Það sést í samfélaginu í bættum kjörum og miklum framförum á öllum sviðum.

Ég mun nú lesa tillöguna sjálfa, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að sjá til þess að á kjörtímabilinu verði lokið við innleiðingu rafrænnar sjúkraskrár fyrir alla heilbrigðisþjónustu, jafnt á sjúkrastofnunum sem á heilsugæslustöðvum og hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum.“

Hér er átt við allt kjörtímabilið og það eru fjögur ár ef að líkum lætur. Við getum lokið við að innleiða rafræna sjúkraskrá á þessum tíma ef vilji er fyrir hendi. Eins og hv. þm. Dögg Pálsdóttir sagði hefur heilbrigðisráðherra þegar skipað nefnd til að vinna að málinu. Ég er því bjartsýnni á að þetta takist en áður en ég gekk í þennan stól.