135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

stjórn fiskveiða.

25. mál
[19:53]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Umhverfið í sjávarútveginum er sérstakt um þessar mundir, í kjölfar þeirrar ákvörðunar að skera þorskveiðar jafnmikið niður og raun ber vitni, alveg niður í 130 þús. tonn, sem er meiri niðurskurður en flestir vísindamenn lögðu til. Satt að segja er það einsdæmi í stjórnmálasögunni að stjórnmálamenn leitist við að ganga lengra í niðurskurði en vísindamenn gera tillögur um. Það er aðeins Hafrannsóknastofnun sem lagði til að farið yrði niður í 130 þús. tonn en aðrir að farið yrði ofar. Vísa ég sérstaklega til sérfræðinganna hjá Alþjóðahafrannsóknaráðinu, ICES, sem lögðu til að veiðarnar yrðu um 150–160 þús. tonn. Það er töluverður munur á þeim tölum og 130 þús.

Ég held að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna hafi ákveðið þetta, að þeir hafi þá skoðun að svona eigi þetta að vera. Ég held líka að niðurskurðurinn verði í mjög mörg ár. Ég held að hann verði mjög mikill í fimm til sex ár, og er ég ekki einn um það. Ég vitna í hagspá Landsbanka Íslands, sem kom út fyrir skömmu. Þar var bankinn að meta þróun efnahagsmála á næstu árum og gerir ráð fyrir því í spá sinni að kvótaskerðingin muni vara í fimm ár. Það er eðlilegt að gert sé ráð fyrir töluvert löngum tíma í skerðingu vegna þess rökstuðnings sem helstur er fyrir niðurskurðinum, að breyta þurfi aldurssamsetningu hrygningarstofnsins, að of lítið sé af gömlum fiski í hrygningarstofninum.

Það sjá allir að það gerist ekki á skemmri tíma en þremur til fjórum árum því að fiskur er orðinn fjögurra ára gamall þegar hann kemur inn í hrygningarstofn og mælist þar. Til að breyta aldurssamsetningu þarf langan tíma. Ég held reyndar að það þurfi allt upp undir tíu ára samfelldan niðurskurð til þess að ná því miðað við þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar varðandi aldurssamsetninguna.

Þannig held ég að málið standi. Ég held að stjórnarflokkarnir hafi tekið þessa pólitísku ákvörðun. Ég held líka að þeir viti hvað þetta þýðir. Þetta mun þýða feiknalega uppstokkun í sjávarútvegi, mikla hagræðingu fyrirtækja og samþjöppun. Í máli hæstv. sjávarútvegsráðherra á aðalfundi LÍÚ kom fram það mat hans að þetta mundi gerast. Það mun verða kallað eftir því að breyta ákvæðum gildandi laga um takmörkun á stærð einstakra sjávarútvegsfyrirtækja. Það mun verða kallað eftir því.

Menn vita að grundvallarbreyting verður í sjávarútvegi á næstu árum í þá veru að þeim fyrirtækjum sem eru sérstaklega í útgerð mun fækka verulega og þau munu stækka. Það mun líka þýða að störfum í sjávarplássum landsins mun fækka mjög mikið í mjög mörgum þeirra vegna tilflutningsins, samþjöppunarinnar og niðurskurðarins. Þetta held ég að sé allt meðvitað af hálfu stjórnarflokkanna. Þeim er ljós þessi framtíðarsýn og þeir taka þessa ákvörðun meðvitaðir um hana.

Gefum okkur að allar grunnforsendur Hafrannsóknastofnunar reynist réttar og þetta gangi allt eftir þannig að eftir fimm til tíu ár megi veiða um 200 þús. tonn á nýjan leik. Þá verður landsbyggðin ekki sú sama og hún er í dag. Það er þannig sem það verður. Miklu færra fólk verður í sjávarplássum landsins en nú er, fólkið verður flutt á höfuðborgarsvæðið. Þangað vantar 20 þús. manns til þess að fylla þær íbúðir sem eru í byggingu um þessar mundir.

Við í Frjálslynda flokknum höfum verið að reyna að bregðast við þessari fyrirsjáanlegu þróun, m.a. með tillöguflutningi um að leyfa meiri veiðar en 130 þús. tonn en líka með þessu frumvarpi um að opna kerfið, opna aðganginn að auðlindinni og gefa fólki færi á því að nýta auðlindina frá sínu byggðarlagi á litlum bátum, því að það verður ekki gert öðruvísi, í takmörkuðum mæli en samt mun sú opnun geta haft áhrif á að breyta þessari þróun, andæfa þessari fyrirsjáanlegu þróun næstu ára.

Þetta er eitt af þeim frumvörpum sem við leggjum fram. Við getum kallað það mótvægisaðgerð. Handfæraveiðar eru mótvægisaðgerð, virðulegi forseti. Mótvægisaðgerð við fyrirsjáanlegri samþjöppun í sjávarútvegi. Þar sem, eins og hér kemur fram í mati formanns Samtaka fiskvinnslustöðva, að störfum í fiskvinnslunni gæti fækkað um 10–12% eða um 500 manns, þá á eftir að gera ráð fyrir fækkun í útgerðinni sjálfri og svo er hægt að gera ráð fyrir annarri afleiddri fækkun, 1.000–2.000 störf munu þetta vera. Það mun nánast eingöngu verða tekið af landsbyggðinni. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur ásamt Byggðastofnun metið hagvöxt svæða frá 1998 og þar kemur fram að hann er lítill utan höfuðborgarsvæðisins, feiknalega mikill á höfuðborgarsvæðinu. Hann er neikvæður á þeim svæðum sem standa verst, Norðurlandi vestra og Vestfjörðum. Og einmitt þau svæði sem standa verst verða fyrir mestum niðurskurði og áhrifum af niðurskurði í þorski. Þannig að veikustu svæðin munu verða verst úti á næstu árum í kjölfar þess sem fyrirsjáanlegt er að öllu óbreyttu.

Landsbankinn staðfestir þetta líka með því að láta það koma fram í mati sínu að afleiðingin af kvótaskerðingu og hagræðingu í sjávarútvegi, sem af því mun leiða, verði fyrst og fremst á landsbyggðinni. Á sama tíma verði stærstu fjárfestingar næstu ára á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem það er í íbúðarbyggingum, opinberum framkvæmdum eða álverum.

Við sjáum hvað er að gerast. Landsbankinn sér það líka. Mér finnst nauðsynlegt að hv. þingmenn séu meðvitaðir um þessa framtíðarsýn sem er ekki bara mín spá heldur Landsbankans og ég hugsa að ég megi segja Byggðastofnunar. Stjórnarflokkarnir hafa tekið þessar afdrifaríku ákvarðanir í góðri trú, ég ætla mönnum það ekki að taka svona ákvarðanir í því skyni beinlínis að skaða fólk. Ég held að það hljóti að vera meginsjónarmið þeirra að vernda fiskinn. En ég held að menn eigi að bregðast við þessari stöðu, þessari fyrirsjáanlegu þróun. Að sumu leyti má segja að ríkisstjórnin hafi viðurkennt það með því að efna til mótvægisaðgerða, sem eru út af fyrir sig mikilvæg viðurkenning. Hingað til hefur aldrei verið viðurkennt að tilflutningur aflaheimilda frá einhverri verstöð gefi tilefni til viðbragða af hálfu stjórnvalda. En niðurskurður aflaheimilda er það sama og brottflutningur þeirra.

Þegar viðurkennt hefur verið að bregðast þurfi við, og það sé á ábyrgð opinberra aðila, skulum við ekki gera lítið úr því. Það er ávinningur. Það skilar okkur fram veginn. En mótvægisaðgerðirnar sem ríkisstjórnin hefur boðað eru hins vegar dropi í hafið. Þær vega lítið á móti samdrættinum í mörgum plássum. Það þarf að gera meira. Við ætlum okkur að sannfæra stjórnvöld um að niðurskurðurinn sé röng ákvörðun. Hann eigi ekki að vera svona mikill og eigi ekki að vara svona langan tíma. Við erum búin að taka þá umræðu hér fyrr í vetur og óþarfi að endurtaka það.

En við ætlum að halda áfram að tala við stjórnarflokkana og sannfæra þá um að þeir hafi ekki gert nóg. Alvarlegt ástand sé fram undan ef ekki verður meira að gert. Ein af tillögum okkar til úrbóta er þessi tillaga um opnun fyrir handfæraveiðar. Ég held að hún muni reynast notadrjúg, hún muni hjálpa mikið til. Hún mun ein og sér ekki vega á móti niðurskurðinum en hún mun verða mjög gagnleg og þarft innlegg í mótvægisaðgerðirnar.

En fyrst og fremst mun hún undirstrika þá grundvallarafstöðu að fólkið sem býr við fiskimiðin eigi fyrst og fremst að nýta þau. Það væri þá nýjung sem frumvarpið mundi leiða af sér því að öll löggjöf í stjórn fiskveiða á undanförnum árum hefur þróast í hina áttina að aftengja byggðarlög og fiskimið. Það er auðvitað röng þróun og er ein aðalástæðan fyrir því hvernig hlutirnir hafa þróast í mörgum byggðarlögum landsins. Fleira ætla ég nú ekki að segja um þetta mál, virðulegi forseti, að svo stöddu. Gæti sagt meira ef sérstaklega væri óskað eftir því en læt þetta duga.