135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

stjórn fiskveiða.

25. mál
[20:06]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held reyndar að það hafi ekki verið hæstv. sjávarútvegsráðherra sem tók þessa ákvörðun í reynd, hann gerði það auðvitað formlega, en ég held að formenn stjórnarflokkanna hafi sammælst um þetta og einfaldlega stillt ráðherranum upp við vegg. Ég held að sjávarútvegsráðherra hafi ætlað sér að hafa þorskveiðarnar í um 150–160 þús. og fara að tillögu ASÍ og LÍÚ sem voru nokkuð samhljóða. Ég get auðvitað ekki sannað þessar hugmyndir en ég held að þetta hafi verið svona og segi það og hef sagt hæstv. sjávarútvegsráðherra það, þannig að hann veit af þessum sjónarmiðum mínum.

Ég held að það sé vegna þess að formenn stjórnarflokkanna eru báðir mjög hallir undir vísindamennina og hafa trú á óskeikulleik þeirra og finnst að þetta eigi að vera svona. Ég held að þannig sé málið vaxið. Ég held líka að ríkisstjórninni sé alveg ljóst að þessi ákvörðun er til langs tíma. Sjávarútvegsráðherra hefur ekki fengist til að upplýsa í hve langan tíma og ég held að það sé vegna þess að ákvörðunin er til margra ára. Ég held líka að stjórnarflokkunum sé ljóst hvað af þessu leiðir varðandi þróun í sjávarútvegi. Þess vegna held ég að sá hluti málsins sé meðvitaður.

Ég held því ekki fram að það að skera niður sé til þess að hjálpa bönkunum að selja íbúðir en ég bendi hins vegar á þá staðreynd sem er í þeim efnum og hefur komið fram opinberlega og það er a.m.k. heppileg tilviljun fyrir þá, (Forseti hringir.) að til þessara aðgerða er gripið.