135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

stjórn fiskveiða.

25. mál
[20:27]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er í annað skipti í dag sem ég heyri það frá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar að ég fari með brandara og gamanmál og stóryrði og þar fram eftir götunum. Nú er mér líkt við brandara úr þáttum Auðuns Blöndals. Mér er full alvara með þessu máli, mér er full alvara. Ég velti upp hugtakinu samsæriskenning og ég flutti rök að því. Eftir sem áður, hv. þm. Róbert Marshall, er þetta samsæriskenning meðan ég get ekki fært rök að henni. Þess vegna nota ég orðið. Líkur benda til þess.

Á meðan staðan er sú í þessu fiskveiðistjórnarkerfi að markmiðin nást ekki — það vatnar undan allri byggð í landinu, það er fólksflótti, nytjastofnarnir eru að hrynja eftir kerfið sem átti að byggja þá upp — erum við að tala af alvöru, við höfum þetta mál ekki í flimtingum. Ég vona að hv. þingmaður skilji það.