135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

stjórn fiskveiða.

25. mál
[20:29]
Hlusta

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér er dauðans alvara í þessari umræðu. Ég held að enginn hafi getað skilið það þannig að ég væri að tala um þessi mál af einhverri léttúð, sérstaklega þegar víkur að því fiskveiðistjórnarkerfi sem hér hefur verið við lýði og ég þekki afskaplega vel úr minni heimabyggð, Vestmannaeyjum, kominn af sjómönnum og fiskvinnslufólki. Ég hef það ekki í flimtingum.

Það þykja mér hins vegar hv. þingmenn gera sem halda því fram að ákvörðun í þessum efnum sé byggð á því að fylla íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Þá finnst mér þeir vera að taka nokkuð léttvægt á þessu alvarlega máli. Ég hafna því að ég sé að fjalla um málið af einhverri léttúð þó að ég veki athygli á því að umræðan hafi villst út á mjög undarlegar brautir.