135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

stjórn fiskveiða.

25. mál
[20:31]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mál og í tengslum við það. Ég tel að hún sé mjög þörf og það verði í raun og veru aldrei of oft vakið máls á því hvar við erum stödd í þessu mjög svo mikilvæga máli.

Þegar lögin um stjórn fiskveiða voru sett 1983 var það gert vegna þess að þá höfðu í fyrsta sinn komið upplýsingar frá Hafrannsóknastofnun um að líklegt væri að á árinu 1984 þyrfti að fara með þorskaflann niður fyrir 200 þús. tonn. Slíka tölu höfðu menn ekki heyrt á Íslandi í hálfa öld og þurfti að fara aftur í seinna stríð til að finna hana. Tímamótin sem við getum miðað þessa ákvörðun við, 130 þús. tonnin, eru þau að við þurfum að fara aftur í fyrra stríð, 1918, til að finna sambærilega tölu í þorskveiði og verið er að leggja til núna, 130 þús. tonn. Hvorki meira né minna en tæplega 90 ár aftur í tímann.

Menn byrjuðu að stjórna fiskveiðum hér á landi — ætli það sé ekki óhætt að segja að við höfum byrjað á því við útfærslu landhelginnar í 50 mílur — með því að setja á fót svokölluð friðunarsvæði, annars vegar stórt svæði fyrir Norðausturlandi, frá Melrakkasléttu í vestri og austur fyrir Langanes í austri, og hins vegar út af Vestfjörðum í svokölluðum Þverál norður af Horni og norður af Kögri, svæði út í 50 mílur. Þessum svæðum var lokað fyrir öllum togveiðum og einkanlega var þessum aðgerðum beint að Bretum, þá var ósamið við Breta. Þetta var talið nauðsynlegt vegna þess að þorskurinn á Íslandsmiðum stóð svo illa, það kom svört spá 1973 um stöðu fiskstofnanna og ákveðið var að færa út í 50 mílur og síðan út í 200 mílur, eins og menn þekkja. Þessar sérstöku friðanir voru m.a. byggðar á þeim rökum að ástæða væri til að vernda uppvaxandi fisk, sérstaklega þorskinn, fyrir þeim mikla ágangi sem stafaði af veiðum togveiðiskipa Breta og Þjóðverja þá og fleiri þjóða sem hér voru að veiðum. Síðar náðist samkomulag við Bretana.

Upp úr því, 1977, var ákveðið að fara að stjórna fiskveiðum með svokölluðu skrapdagakerfi sem byggðist á þeirri einföldu hugsun að þegar Þjóðverjar færu héðan af miðunum þyrfti að beina íslenskum togurum í veiðar á ýmsum fisktegundum sem Þjóðverjar höfðu nýtt í miklu meira mæli en Íslendingar, m.a. karfa, ufsa og grálúðu. Sett var á fót svokallað skrapdagakerfi sem kvað á um ákveðinn dagafjölda á ári, sem fór, held ég, mest upp í 150 daga, og þá skyldu íslenskir togarar landa afla sem hefði samsetninguna 5% þorskur, 10% þorskur og mest 25% þorskur.

Þetta kerfi var lagt af 1983 því að menn treystu sér ekki til að fara í skrapdagakerfið með svo lítinn þorskafla sem þá var boðaður og því fóru menn í kvótakerfið. En hver er svo árangurinn frá 1983, eftir 24 ár eins og hv. þm. Atli Gíslason vék hér að áðan? Hann er nákvæmlega sá að hvert einasta íslenskt fiskiskip er á stanslausum skrapveiðum allan ársins hring. Á fullri ferð að reyna að leita að einhverjum öðrum fisktegundum en þorski, einbeita sér að því að veiða aðrar fisktegundir, reyna að ná þeim upp með svo litlar þorskaflaheimildir að það er ekki framkvæmanlegt.

Ég vænti þess að hv. þingmann hafi séð grein nýverið eða viðtal við fiskvinnslumann í Grindavík, Gunnar Tómasson, þar sem hann benti á að þessi breyting, þessi mikli niðurskurður á þorskaflanum þýddi að línubátarnir sem áður stunduðu veiðar á djúpslóð og voru að veiða stóran þorsk og lögðu síðan til hlýra o.s.frv. verða núna að beita sér eingöngu í ýsu. Þeir sækja á grunnslóðina og hvað gerist þá? Þeir fá meira af smáum fiski. Gunnar sagði í þessari grein, hæstv. forseti, ef ég má vitna eftir minni í það sem þar var skrifað að samkvæmt afladagbókum og skráningu línuveiðibátanna séum við í núverandi fiskveiðikerfi á þessu fiskveiðiári að drepa fleiri þorska í hverri einustu veiðiferð en við gerðum áður þegar þorskaflinn var það mikill að við gátum einbeitt okkur að honum.

Sem sagt, þegar menn sækja inn á grunnslóðina til að reyna að leggja sig eftir ýsu, lenda menn í því að fá þorsk með og hann er smærri. Það segir okkur hins vegar að þorskur er að vaxa upp á grunnslóðinni og það er út af fyrir sig ánægjulegt en það breytir ekki því að árangurinn sem menn ætluðu að ná með niðurskurðinum, með því að skera niður tonnin til að fækka þeim þorskum sem við drápum, hefur snúist við. Við drepum fleiri þorska í þessu stanslausa skrapi fiskveiðiflotans í núverandi kerfi en við gerðum áður. Þar til viðbótar kemur svo ekki allur aflinn að landi.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að það er mikið í húfi. Það er ofboðslega mikið í húfi fyrir byggðir landsins hvernig tekst til. Því úr hvaða upplýsingum vinna hafrannsóknamenn að mestu leyti? Úr skráðum heimildum um landaðan afla. Ef aflasamsetningin sem á land kemur er röng vegna þess að menn sjá sér ekki hag í því að hirða smáfiskinn verður skráningin röng. Það versta sem vísindamenn geta unnið með eru rangar upplýsingar. Hins vegar er sú staðreynd enn verri að úr fullt af upplýsingum sem skráðar eru á hverjum einasta fiskibát, smáum sem stórum, er ekkert endilega lesið, eins og hér var réttilega vikið að úr þessum ræðustól áðan. Ég hlustaði einnig á dæmið sem hv. þm. Atli Gíslason nefndi.

Það liggur því fyrir að við erum komin í mjög vond mál með þeirri útfærslu sem við erum í, afar erfið mál. Þessu til viðbótar færði ég rök fyrir því fyrr í máli mínu að ég teldi að ástandið væri kannski ekki eins rosalega slæmt og Hafrannsóknastofnun vill leggja út af. Það er margt sem mælir með þeirri skoðun. Hlýnandi sjór við landið gerir það að verkum að þorskurinn fer meira til norðurs en hann gerði áður en þá gerir hins vegar kvótastaðan það að verkum að menn geta ekki fylgt honum eftir því það er engin ýsa í djúpkötlum norðan lands. Þar er hins vegar þorskur og grálúða og e.t.v. einhver karfi en ekki ýsa. Þannig að menn ná ekki upp ýsukvótanum sínum með því að einbeita sér að djúpslóðinni og lítill þorskafli gerir það að verkum að menn geta ekki einbeitt sér að djúpslóðinni. Menn eru komnir í algeran vítahring í þessu kerfi. Allt kerfið vegur síðan beint að hagsmunum landsbyggðarinnar, sérstaklega þeim byggðum sem eiga allt sitt undir sjávarútvegi og byggja á honum í sínu atvinnumunstri. Þessi atvinnuþróun ýtir síðan undir það að fólk færir sig til á landsbyggðinni. Og hvert fer fólk? Hvert hefur sá fjöldi Vestfirðinga farið sem hefur flutt af Vestfjörðum undanfarna áratugi? Hvert hafa þeir farið? Ég þekki þá marga, þeir búa á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þeir búa hér.

Menn fara eðlilega þangað sem atvinna er í boði ef menn þurfa að fara frá svæðum þar sem hún er ekki í boði. Þannig má auðvitað segja að á Vestfjörðum hafi menn flutt út atvinnuleysið og fólkinu hefur fækkað. Ég segi það alveg hiklaust að tillaga eins og við erum að ræða í dag getur skipt miklu fyrir hinar dreifðu byggðir landsins þó hún sé með jafnmiklum takmörkunum og frumvarpstextinn ber með sér.

Við stöndum frammi fyrir því, hæstv. forseti, að hafa reynt nákvæmlega sömu aðferðina í 23 ár, þegar menn telja að þorskstofninn sé í einhverri lægð þá er ævinlega ein tillaga alltaf uppi á borðinu, að skera niður, skera niður kvótann. Þetta höfum við gert í 24 ár. Við gerum það alveg vísvitandi þó að við höfum miklu skýrari vísbendingar um hvað gæti rétt þorskinn við. Við sjáum það þegar við tökum þorsk úr náttúrunni, veiðum hann kannski eitt kíló að þyngd og setjum hann í eldiskvíar, að með því að gefa honum nægjanlegt að éta þyngist hann kannski um þrjú kíló fram í endaðan desember. Það er ekki spurning að fiskurinn þyngist ef hann hefur nægilegt æti. Við sjáum líka að það er beint samhengi á milli þess ef loðnustofninn er lítill og þorskstofninn léttur, þ.e. einstaklingarnir í stofninum. Það er hægt að sjá það.

Það kann því að vera margt sem menn þurfa að horfa öðruvísi á við stjórn fiskveiða ef menn ætla að ná þeim árangri að byggja upp þorskstofninn en að skera endalaust niður kvótana og búa jafnvel til öðruvísi nýtingu á stofninum en menn vildu ná fram með kvótakerfinu, allt öðruvísi nýtingu og verðmyndun.

Hæstv. forseti. Þetta vildi ég láta koma fram. Ég tel að umræðan hafi verið ákaflega góð og þörf um þetta mál sem snýr að því að leyfa mönnum í hinum dreifðu byggðum að stunda fiskveiðar frá sinni heimabyggð á veiðislóðum sem næst liggja og með þeim veiðarfærum sem hér er lagt til, þ.e. handfærum sem allir eru væntanlega sammála um að raska ekki lífríkinu á neinn þann hátt sem mörg önnur veiðarfæri gera. Það er óumdeilanlegt að trollið hefur breytt veiðislóð, ég hef sjálfur tekið þátt í því og kann þá sögu alla. Það fer ekkert á milli mála að togveiðarfæri hafa önnur áhrif á lífríki sjávar en krókar og því þurfum við að horfa á það munstur samhliða því hvernig við nýtum veiðislóðina og miðin.

Ég vil aðeins rétt í lokin víkja að spurningunni um það hvort að fólk muni flytja inn í íbúðir fyrir 20 þús. manns sem eru tómar á höfuðborgarsvæðinu. Svarið er já, fólk flytur á höfuðborgarsvæðið og flytur inn í þessar íbúðir. Hvort það er beinlínis vilji stjórnvalda skal ég ekki fullyrða en það er örugglega afleiðing af því sem við erum að gera. Fólk flytur á þetta svæði og bankarnir sem lána fé til íbúðamarkaðarins vita að ef fólk sækir inn á þetta svæði muni íbúðir seljast. Þetta er bara lögmál um framboð og eftirspurn.

Með núverandi harðri stefnu um að skera niður þorskkvótann og stjórna veiðunum eins og hefur verið gert er fólkinu ýtt af landsbyggðinni og til höfuðborgarsvæðisins. Og allir sem versla með vöru vita að það er betra að vera með vöruna á því svæði sem fólkið sækir inn á en á því svæði sem fólk flytur frá. Það liggur í hlutarins eðli, hvort sem það er sjoppueigandinn, stórmarkaðseigandinn, fasteignaeigandinn eða bankarnir sem lýstu því yfir nýlega að þeir ættu svo mikið lausafé að þeir þyrftu ekki að taka ný lán í heilt ár. Þeir hljóta að ætla að koma fé sínu út í ávöxtun, það er eðli bankastarfsemi. Menn þurfa ekki að deila um þetta munu verða afleiðingarnar og við sitjum því miður uppi með það, hæstv. forseti, hvort sem okkur líkar betur eða verr.