135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

lyfjalög.

37. mál
[20:47]
Hlusta

Flm. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því mjög að fá hér tækifæri til að mæla fyrir þessu frumvarpi. Þetta er í þriðja sinn sem það er lagt fram og hef ég ekki fengið á fyrri þingum tækifæri til að mæla fyrir því og þannig ekki fengið tækifæri til að koma því inn í nefndir þingsins til efnislegrar umfjöllunar sem ég tel afar brýnt.

Með þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að þeir sem selja tóbak í smásölu fái heimild til að selja níkótínlyf sem ekki eru lyfseðilsskyld með sömu skilyrðum og þeir fá að selja tóbak. Við erum með mjög stranga löggjöf um smásölu tóbaks og þetta frumvarp gerir ráð fyrir því að heimild til sölu nikótínlyfja muni lúta nákvæmlega sömu reglum og tóbakið.

Markmiðið með frumvarpinu er að fjölga sölustöðum nikótínlyfja þannig að þau verði valkostur í stað tóbaks þar sem það er selt. Nikótínlyf sem seld eru í lausasölu eru í formi tyggigúmmís, plásturs, innsogs- og nefúðalyfs. Frumvarpið tekur einungis til nikótínlyfja sem ekki eru lyfseðilsskyld. Hins vegar eru til nikótíntöflur sem einungis fást gegn framvísun lyfseðils og verður ekki gerð breyting á sölu þeirra með þessu frumvarpi. Frumvarpið felur í sér að meðal annars verður unnt að kaupa nikótínlyf á bensínstöðvum og veitingahúsum, í stórmörkuðum og söluturnum. Verði frumvarpið að lögum má búast við að samkeppni aukist og að verð slíkra lyfja lækki. Í þessu samhengi bendi ég á að Neytendasamtökin gáfu út yfirlýsingu á vefsíðu sinni þann 26. september sl. þar sem þau nefna einmitt þetta sama, þ.e. Neytendasamtökin hafa hvatt til þess að verslunum sem er heimilt að selja tóbak verði einnig heimilt að selja nikótínlyf vegna þess að samtökin telja að samkeppni með þessar vörur leiði til verðlækkunar á þeim. Nikótínlyf eru mun dýrari hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum.

Þá verð ég einnig að segja alveg eins og er að ég hef undrast það og tel það mjög merkilega þversögn að ef einstaklingur vill byrja að reykja eða viðhalda fíkn sinni með sígarettum getur hann gengið inn í næstu sjoppu, matvöruverslun eða bensínstöð hvenær sem er sólarhringsins og keypt tóbakið og tjöruna. Vilji sá hinn sami hins vegar láta af ósiðnum, berjast við fíknina og styðjast í þeirri baráttu við nikótín án tjörunnar þarf sá hinn sami að leita að næsta apóteki sem hefur takmarkaðan afgreiðslutíma og þar á er líka mjög mikill munur eftir landshlutum. Á höfuðborgarsvæðinu er hægt að finna apótek sem eru opin til miðnættis en annars staðar um landið er slíkt ekki hægt.

Nýverið var samþykkt að fara þessa leið í Svíþjóð, þ.e. að heimila sölu á nikótínlyfjum í almennum verslunum. Þessi samþykkt hjá vinum okkar í Svíþjóð og nágrönnum hefur fengið afar vandaða umfjöllun þar í landi og fátt kom upp á þar sem mælti á móti því að opna fyrir þessa heimild. Þess vegna hlakka ég til að fá umsagnir um þetta mál þegar það fer til umfjöllunar í hv. heilbrigðisnefnd vegna þess að ég tel þessa umræðu hér mjög mikilvæga. Þá vil ég geta þess að eftir að ég hafði lagt þetta frumvarp fram fyrir rúmu ári fór ég í viðtal þar sem hringt var til íslensks læknis sem starfar í Svíþjóð sem hvatti mjög til þess að sú leið yrði farin í tóbaksvörnum til að gera reykingamönnum kleift að hætta þannig að þeir féllu ekki í freistni fyrir sígarettunum þegar það er opið allan sólarhringinn fyrir sölu á þeim. Hins vegar ætti aðgengi að lyfjunum, aðstoðinni eða hækjunum til að komast yfir sígarettulöngunina ekki að vera eins erfið og raun ber vitni.

Það má ætla að með því að bæta aðgengi reykingamanna að nikótínlyfjum sjái fleiri lyfin sem valkost auk þess sem aukið aðgengi er mjög mikilvægur stuðningur við þá sem standa í stríði við tóbakið. Ég tel svo sannarlega að með því að veita þessa heimild sé stigið mjög mikilvægt skref í tóbaksvörnum hér á landi.

Í frétt á vefsíðu vísir.is voru í gær framkvæmdastjórar lyfsöluverslana beðnir um að gefa álit sitt á þessu máli og þótti mér dálítið merkileg fullyrðing sem kom frá öðrum þeirra. Framkvæmdastjóri Lyfju sagði, með leyfi forseta:

„Nikótín er fyrst og fremst eitur sem þarf að umgangast varlega.“

Virðulegi forseti. Þessu er ég hjartanlega sammála. Engu að síður tel ég að tóbakið og tjaran sem er seld allan sólarhringinn, hvar sem er, í öllum sjoppum og bensínstöðvum, sé miklu alvarlegra mál, miklu alvarlegra og hættulegra form af nikótíni en nokkurn tíma lyfin sem hjálpa þeim sem eru háðir tjörunni við að losa sig við þá fíkn, fíknina í tjöruna. Á meðan heimilt er að selja nikótínið í sígarettuformi í almennri sölu tel ég það þess vegna mjög skynsamlega ráðstöfun að selja hjálpartækin við hliðina, þ.e. selja nikótínlyfin við hliðina á tóbakinu.

Ég vil líka benda á það sem kemur fram í greinargerðinni, að danska lyfjaeftirlitið sendi frá sér skýrslu í september 2005 þar sem fjallað var um reynslu af frjálsari verslun með lyf. Danir leyfðu frjálsari verslun með lyf fyrir nokkrum árum, þ.e. fleiri lyf sem ekki eru lyfseðilsskyld. Vert er að taka fram að það er alls ekki ætlun flutningsmanna þessa frumvarps að fara að opna fyrir almenna sölu á fleiri lyfjum sem ekki eru lyfseðilsskyld, heldur er eingöngu horft hér einangrað í tóbaksvarnaskyni á nikótínlyfin. Í skýrslunni kemur fram að nikótínlyf geti hjálpað reykingamönnum að hætta að reykja og því megi færa fyrir því rök að slík lyf skuli vera jafnaðgengileg og tóbak. Þá kemur líka fram í þessari skýrslu að rannsóknir sýni fram á að a.m.k. 10% fyrrverandi reykingamanna sem notað hafa nikótínlyf í því skyni að hætta reykingum noti slík lyf ekki lengur en í eitt ár. Án þess að ég fari nánar út í þessa skýrslu núna vil ég þó nefna að þarna koma fram mjög skýrar vísbendingar um að nikótínlyfin — og menn hafa svo sem vitað það — hjálpa mönnum sannarlega að hætta að reykja. Sömuleiðis er sú tröllasaga ekki endilega rétt að menn skipti bara yfir í nikótínlyfin og haldi sig síðan við þau það sem eftir er. Það þarf ekki að vera rétt, rétt eins og kemur fram í þessari dönsku skýrslu.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég nefna hér að þann 17. október sl. birtist frétt í 24 stundum um að Ísland væri í 2. sæti af 30 löndum sem tóbaksvarnir voru kannaðar hjá á vegum Evrópusambandsins. Viðar Jensson, verkefnisstjóri í tóbaksvörnum hjá Lýðheilsustöð, lýsir því að við könnunina hafi verið stuðst við sex þætti sem Alþjóðabankinn telur vænlega til árangurs. Það er í fyrsta lagi verðlagning á tóbaki, í öðru lagi bann við auglýsingum á tóbaki, fjárveitingar til tóbaksvarna í þriðja lagi, í fjórða lagi viðvörunarmerkingar, í fimmta lagi reglur um reykingar á opinberum stöðum og í sjötta lagi aðstoð við að hætta að reykja. Vitið þið af hverju við vorum ekki í 1. sæti í þessari könnun? Það var vegna þess, eins og Viðar segir í fréttinni, að í síðasta atriðinu skoruðum við ekki nógu hátt, þ.e. í liðnum „aðstoð við að hætta að reykja“.

Ég tel að það að stíga þetta skref, gera eins og Svíarnir, bjóða upp á nikótínlyfin sem valkost við hliðina á tóbakinu, sé svo sannarlega liður í tóbaksvörnum, liður í því að gera vöruna aðgengilegri, liður í því að aðstoða fólk við að hætta að reykja. Vonandi verður það þá liður í því að koma okkur í 1. sæti í næstu könnun um tóbaksvarnir í Evrópu, þeirri sem ég var að nefna