135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

hækkun stýrivaxta.

[10:34]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ákvörðun Seðlabankans í gær um að hækka stýrivexti um 0,45% var óvænt og kom okkur, flestum að ég hygg, nokkuð að óvörum. Seðlabankinn hefur sjálfstæðar ákvörðunarheimildir í þessum efnum og hlítir hvorki boðvaldi Alþingis né ríkisstjórnar að óbreyttum lögum. Ég ætla ekki að gera það að mínu hlutskipti hér í þessari umræðu að rökræða við hv. þingmann eða óbeint við Seðlabankann um þá ákvörðun sem tekin var í gær eða hagfræðilegar forsendur hennar. Ég tel hins vegar að þessi ákvörðun sé ekki heppileg inn í það sem fram undan er, sérstaklega í kjaramálum á næstunni. Það eru kjarasamningar fram undan eins og við vitum og ákvörðun af þessu tagi getur eðli málsins samkvæmt gert samningsaðilum erfiðara fyrir að ná skynsamlegri niðurstöðu.

Yfirlýsingin sem hv. þingmaður vitnaði til frá því í mars árið 2001 stendur óbreytt. Engin sérstök áform hafa verið uppi um að breyta henni og engin ákvörðun tekin um það. Ef menn vilja breyta fyrirkomulagi peningamálastjórnunar á Íslandi er það miklu stærra mál en svo að það tengist einni tiltekinni vaxtaákvörðun bankans og þá þurfa menn að skoða allt kerfið frá grunni. Ég vænti þess ekki að hv. þingmaður hafi endilega verið að leggja það til en auðvitað er hlustað á allar góðar hugmyndir í því efni sama hvaðan þær koma ef hv. þingmaður vill leggja eitthvað í það púkk.