135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

hækkun stýrivaxta.

[10:43]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það þarf engan að undra þó að hér fari fram umræða um vaxtahækkun Seðlabankans frá í gær vegna þess að hún felur auðvitað í sér alvarleg tíðindi fyrir þá sem þurfa að taka lán á þeim háu vöxtum sem nú eru í boði í bankakerfinu og eru kannski annars vegar mjög skuldsett heimili sem reka sig á yfirdrætti og hins vegar smá fyrirtæki sem ekki eiga í önnur hús að venda með sín lán en í bankakerfið á þessum háu vöxtum. Ég hefði hins vegar talið að kannski þyrfti að fara fram lengri og ítarlegri umræða um þessi mál en getur átt sér stað hér á þeim tveimur mínútum sem okkur eru skammtaðar.

Það sem vakti hins vegar athygli mína við ákvörðun Seðlabankans frá í gær er að mér finnst rökstuðningurinn vera þess eðlis að það sé horft í baksýnisspegilinn, þ.e. það eru færð rök fyrir vaxtahækkuninni með tilvísun til þenslu vegna aðgerða sem áttu sér stað í kerfinu fyrir margt löngu. Það er ekki mikil tilvísun í framtíðina hvað þessa hluti varðar, hvað er það við sjóndeildarhringinn sem rökstyður það að fara í þessa vaxtahækkun?

Ég tel að í rauninni megi halda því fram að fram undan sé ekki sama þensla og verið hefur hér í hagkerfinu á undanförnum árum og fyrir því má færa mörg rök. Þess vegna kemur, held ég, okkur öllum dálítið mikið á óvart að núna skuli gripið til þessarar vaxtahækkunar. Eðli málsins samkvæmt er þetta stýritæki bankans hugsað til þess að hafa áhrif á framtíðina, ekki til þess að stjórna því sem þegar er liðið (Forseti hringir.) og þegar er gert.