135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

hækkun stýrivaxta.

[10:51]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert við þjóðhagsspá Seðlabankans frá í gær að hún er nokkuð frábrugðin öðrum sambærilegum spám sem aðrir aðilar hafa gert í þjóðfélaginu. Eins og við vitum eru margir sem fást við að búa til efnahagsspár um þessar mundir, fjármálaráðuneytið, greiningardeildir bankanna, aðilar vinnumarkaðarins, háskólarnir og jafnvel fleiri. Það að þessar spár skuli vera svona breytilegar segir kannski mest um það hversu mikil óvissan er í þessum málum öllum.

Það sem er jákvætt við það sem Seðlabankinn kynnti í gær er þó það að hann gerir ráð fyrir að vextir muni lækka hér frá því um u.þ.b. mitt næsta ár og að þeir verði orðnir mjög lágir á árinu 2009. Ef það gengur eftir verða umræður af því tagi sem hér hafa farið fram í dag óþarfar þegar þar verður komið sögu. (Gripið fram í: Verður verðbólgan þá …?)