135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[10:56]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tjáði mig nokkuð vel um þetta atriði í gær og taldi að hugsanlega hefði mátt nýta sér 13. gr. laga um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996, til að klára þetta mál. Einnig taldi ég mjög mikilvægt að umrædd lög næðu yfir allt svæðið á fyrrum varnarsvæði Keflavíkurflugvallar. Ég skýrði það út í gær að fjölmargar eignir eru atvinnu- og iðnaðarhúsnæði og er verið að nýta þær á þessu svæði og ég taldi ljóst að lögin ættu þar af leiðandi að ná til alls svæðisins en ekki hluta þess með að vísu tilvísun í það sem ég sagði hér áður varðandi 13. gr. fyrrnefndra laga.

Ég mun greiða fyrir áframhaldandi meðferð málsins enda sé ég fram á að þær upplýsingar liggi hér fyrir á milli atkvæðagreiðslna.