135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[10:57]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það liggur fyrir í þessu máli að setning bráðabirgðalaganna var óþörf. Í framsöguræðu með málinu kom fram hjá hæstv. viðskiptaráðherra að málið hefði ekki verið nógu brýnt til að kalla saman Alþingi. Ef málið var ekki nógu brýnt til að löggjafinn kæmi saman til að setja lög stenst það auðvitað enga skoðun að brýna nauðsyn hafi borið til þess að setja bráðabirgðalög. Þarna er um mótsögn að ræða.

Að mínu mati var engin ástæða til annars en að kalla saman Alþingi á sumardögum ef það þurfti að setja þessi lög. Á hinn bóginn hefur síðan komið fram hér í umræðunni að í raun er búið að uppfylla að mestu þá skilmála og þau skilyrði sem sett eru fyrir starfrækslu og notkun rafmagnsins á Keflavíkurflugvelli þannig að setning þessara laga er í raun og veru óþörf. Þau mega þess vegna daga uppi á þinginu og þurfa ekki frekari afgreiðslu.