135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

tekjustofnar sveitarfélaga.

146. mál
[11:00]
Hlusta

Flm. (Erla Ósk Ásgeirsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Pétur H. Blöndal, Sigurður Kári Kristjánsson, Illugi Gunnarsson og Bjarni Benediktsson.

Í 23. gr. laga þessara kemur fram að útsvar skuli vera ákveðinn hundraðshluti af tekjum hvers almanaksárs en megi eigi vera hærri en 13,3% og eigi lægri en 11,24% af útsvarsstofni og skal sami hundraðshluti lagður á tekjur allra manna í hverju sveitarfélagi. Frumvarpið kveður á um afnám lágmarksútvars sveitarfélaga, þ.e. að brott falli „og eigi lægra en 11,24%“ í 1. mgr. 23. gr. laganna.

Sveitarfélögin hafa ákveðna tekjustofna, t.d. útsvar, framlög úr jöfnunarsjóði, fasteignaskatt og þjónustutekjur. Þau nýta þessa tekjustofna til að sinna lögbundnum hlutverkum sínum, svo sem rekstri grunnskóla, félagsþjónustu o.s.frv. Með þessu frumvarpi eru ekki lagðar til breytingar á lögbundnu hlutverki sveitarfélaga. Það er mitt mat að vilji sveitarfélög hins vegar lækka útsvar sitt eigi löggjafinn ekki að standa í vegi fyrir því.

Heildarlög um tekjustofna sveitarfélaga voru upphaflega sett árið 1989 og tóku gildi árið eftir. Í 25. gr. upphaflegu laganna segir að útsvar skuli vera ákveðinn hundraðshluti af tekjum hvers almanaksárs en þó eigi hærri en 7,5% af útsvarsstofni og skal sami hundraðshluti lagður á tekjur allra manna í hverju sveitarfélagi.

Í upphaflegu lögunum var ekki talin þörf á að setja ákveðinn lágmarksskatt eins og kveðið er á um í núverandi lögum, heldur var einungis um að ræða hámarksútsvar.

Árið 1993 skipaði þáverandi félagsmálaráðherra, sem er reyndar líka núverandi félagsmálaráðherra, nefnd sem koma átti með tillögur um tekjur til handa sveitarfélögum í stað aðstöðugjaldsins sem var afnumið í ársbyrjun 1993. Þegar lögum um tekjustofna sveitarfélaga var breytt í samræmi við tillögur nefndarinnar sama ár var gerð grundvallarbreyting á lögunum. Sett voru inn ný ákvæði um hámarksútsvar ásamt því að lágmarksútsvar var tekið upp í fyrsta sinn. Var lágmarksskattheimta sveitarfélaga þannig bundin við 8,4% útsvar óháð verkefnum og útgjaldaþörf þeim tengdum.

Rök nefndarinnar fyrir því að lögbinda lágmarksútsvarið var jöfnun útsvarsálagningar sveitarfélaganna þannig að útsvarsgreiðslur íbúa landsins yrðu jafnari. Í sömu lögum var gert ráð fyrir ákveðnu bili upp á tæpt prósentustig sem í dag eru tæp tvö prósentustig.

Ákvæðið um sérstakt lágmarksútsvar var mjög umdeilt, m.a. vegna þess að það leiddi til verulegrar hækkunar á útsvari ákveðinna sveitarfélaga á sínum tíma. Á þeim tíma þurftu ákveðin sveitarfélög að hækka útsvar sitt allverulega til að uppfylla lagabreytinguna sem varð til þess að sum sveitarfélög höfðu mun meiri fjármuni milli handanna sem þau þörfnuðust ekki til að uppfylla lögbundið hlutverk sitt. Við þetta fóru nokkur sveitarfélög út í ýmsar aðgerðir sem alla jafna heyra ekki undir sveitarfélög, svo sem að fjárfesta í fyrirtækjum fyrir skattpening íbúa sveitarfélaga sinna.

Lágmarksákvæðið var sett inn á þeim forsendum að jafna þyrfti útsvarsgreiðslur á íbúa landsins. Gera verður alvarlega athugasemd við það sjónarmið. Með því að taka frá sveitarfélögum ráðrúm til þess að haga skattheimtu sinni eftir aðstæðum er um leið dregið úr tækifæri þeirra til að bjóða íbúum upp á sem hagstæðust búsetuskilyrði. Ef horft er til annarra tekjustofna sveitarfélaga, t.d. fasteignaskatts, gilda ekki lög um ákveðið lágmark hans. Annað dæmi væri tekjuskattur en þar er ekki kveðið á um neitt lágmark.

Í 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að sveitarfélögin skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Hlýtur það að teljast eðlilegur skilningur á því ákvæði að haldgóð rök og verulegir hagsmunir þurfi að koma til þess að sá ákvörðunarréttur sé skertur. Bein íhlutun um lágmarksútsvar getur tæpast talist uppfylla það skilyrði.

Óeðlilegt er að bundið sé í lög að innheimta skuli að lágmarki tiltekinn skatt af íbúum, hvort sem þörf er á honum til að sinna lögbundnu hlutverki eða ekki. Sveitarfélag þarf að uppfylla lögbundið hlutverk sitt en óhófleg afskipti löggjafans af því hvernig slíkt er fjármagnað eru óþörf og draga úr ábyrgð kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnarmálum til að leita sem hagkvæmastra leiða til að uppfylla hlutverk sitt.

Lágmarksskattar tíðkast almennt ekki í íslensku skattkerfi enda eru þeir letjandi fyrir stjórnvöld sem vilja lækka skatta. Megintilgangur frumvarpsins er samræmi í skattalöggjöf og staðfesting á sjálfdæmi íslenskra sveitarfélaga. Ég legg því til að lágmarksútsvarið verði afnumið með samþykkt þessa frumvarps.