135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

tekjustofnar sveitarfélaga.

146. mál
[11:11]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska frummælanda hér, hv. þm. Erlu Ósk Ásgeirsdóttur, til hamingju með jómfrúrræðu sína og í sjálfu sér einnig fyrir að taka þetta mál hér upp og flytja með öðrum hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Ástæðan fyrir því er sú að ég hef lengi talið mjög mikilvægt að í þingheimi yrði fjallað um tekjustofna sveitarfélaga. Þetta gefur vissulega tilefni til þess.

Þar af leiðandi er ég fylgjandi því að málið sé hér komið fram og fái efnislega umræðu. Ég vona að hún verði sem mest þótt hún verði með minna mæli hér í dag sökum þess hve mörg mál eru á dagskrá. Eins og menn þekkja get ég auðvitað haldið langar ræður um þessi mál en mun ekki gera það vegna þeirrar dagskrár sem liggur fyrir í dag.

Ég get tekið undir málflutning hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar varðandi hámark og lágmark. Það er sú umræða sem sveitarfélögin hafa talað fyrir og þegar menn velta upp tekjuhliðum sveitarfélaganna spyrja þeir sig: Af hverju er verið að setja inn hámark og lágmark? Af hverju hafa ekki sveitarfélögin, líkt og í svo mörgu öðru varðandi þjónustugjöld og annað, tækifæri til að taka ákvarðanir um tekjur sínar? Eins og menn vita eru tvenns konar skatttekjur bundnar hjá sveitarfélögum, annars vegar útsvarið og hins vegar fasteignaskattarnir. Hinar tekjurnar eru allar þjónustugjöld. Að vísu eru gatnagerðargjöldin orðin skatttekjur með nýjum lögum sem voru samþykkt á þingi á vormánuðum og sveitarfélögin hafa verið að bregðast við því.

Á umliðnum árum höfum við séð gríðarlega breytingu á umhverfi sveitarfélaganna. Í sjálfu sér væri fróðlegt, eins og hv. þm. Erla Ósk Ásgeirsdóttir bendir á, að skoða söguna allt frá 1993. Við sem störfum að sveitarstjórnarmálum vitum að frá þeim tíma, á þessum 14 árum sem liðin eru, hafa orðið gríðarlegar breytingar. Til að mynda hafa orðið gríðarlegar breytingar varðandi fasteignaskattana og það umhverfi. Ég þekki þetta svo vel þar sem ég sit með nokkrum hv. þingmönnum í endurskoðunarnefnd um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga þar sem við erum að fjalla um tekjuhliðar sveitarfélaganna. Sú þróun sem hefur orðið á annars vegar tekjuhliðinni og hins vegar útgjaldahliðinni er í raun og veru mjög mikil ár frá ári. Við þekkjum þetta sem horfum á landið okkar núna í 79 sveitarfélögum að víða eru til sveitarfélög sem hafa vart til hnífs og skeiðar. Það er einfaldlega þannig.

Það má kannski segja að miðað við þá umræðu sem hefur verið í sveitarfélögunum áttu sveitarstjórnarmenn síst von á því að sú umræða yrði hafin upp á Alþingi að heimila sveitarfélögum að taka burtu lágmarksútsvarið. Síst áttu sveitarstjórnarmenn von á því.

Ég hvet hv. þingmenn til að gefa sér tækifæri og tíma, ekki hvað síst hv. þm. Erlu Ósk Ásgeirsdóttur, til að mæta á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna sem haldin verður á mánudag og þriðjudag í næstu viku til að eiga orðaskipti við allan þann fjölda sveitarstjórnarmanna og embættismanna sveitarfélaganna sem hafa hugsað um önnur mál en það að fara inn með breytingu á lágmarksútsvarinu. Menn eru að hugsa um allt annað í sveitarfélögunum. Menn eru að hugsa um að tekjustofnar sveitarfélaganna eru ekki til staðar í jafnríkum mæli og sveitarfélögin þurfa á að halda.

Það er alveg sama hvert við förum, hringinn í kringum landið, og þá er ég að tala um svæðið utan Hvítár, frá Hvítá að Hvítá má segja, öfugan hring. Það er alveg sama hvert við færum þar, þar eru ekki aðilar sem tala fyrir því í dag, sama í hvaða flokki þeir standa, að lágmarksútsvarið detti í burtu.

Hins vegar vil ég segja að lokum, til þess að vera ekki bara svartsýnn á þetta — og ég sé að hv. þm. Illugi Gunnarsson er sammála mér í því — að það er jákvætt að þetta mál skuli hér tekið upp því að það gefur vissulega sóknarfæri til að taka upp umræðu um lög um tekjustofna sveitarfélaga. Það er umræða sem við hefðum átt að skoða. Bara þær breytingar sem hafa orðið á fasteignaskattaumhverfinu og sú breyting sem var tekin hér upp í lagaumhverfinu í kringum aldamótin síðustu varðandi það að færa fjármuni frá ríki til sveitarfélaga í gegnum jöfnunarsjóðinn vegna fasteignaskattahliðrunar gefa tilefni til að taka það upp.

Við erum farin að sjá hér varðandi þau prómill sem menn leggja út með fasteignaskattana að auðvitað er orðin rík samkeppni á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Menn bíða fram í lengstu lög með að ákveða hvert fasteignaskattaprómillið á að vera enda eru menn að bíða allt fram yfir jól eftir að heyra hver fasteignaskattsstofninn er, útlagður af Fasteignamati ríkisins. Um þetta hafa sveitarstjórnarmenn rætt. Þetta er auðvitað ekki eins og það á að vera.

Hins vegar verð ég að segja að það sem sveitarfélögin náðu þó fram á þessu ári með ríkisvaldinu er að eignir fara í rauntímaálagningu í fasteignamati. Það hefur gefið, sérstaklega þeim sveitarfélögum sem eru að vaxa, á svæðinu innan Hvítársvæðanna, að menn fá í dag álagt í rauntíma. Það hefur gefið þeim meiri tekjur og menn sjá það þegar líður á þetta ár að tekjurnar eru meiri en þeir bjuggust við.

Þetta er auðvitað um margt flókið og tengist um leið Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Ég ítreka að þrátt fyrir að ég sé kannski ekki algjörlega sammála því að menn hefðu átt að leggja upp með þetta mál er ég þó ánægður með það því það vekur upp hugmyndir og umræðu um tekjustofna sveitarfélaga sem er ekki vanþörf á. Við þekkjum það, fjölmargir hv. þingmenn sem annaðhvort erum í sveitarstjórnarmálum eða höfum tekið þátt í þeim.