135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

tekjustofnar sveitarfélaga.

146. mál
[11:24]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Það eru tvö stjórnsýslustig í þessu þjóðfélagi. Við stöndum frammi fyrir því að annað, þ.e. sveitarstjórnarstigið, á alltaf undir högg að sækja. Sveitarfélögin í landinu eru mjög skuldsett en ríkissjóður er að verða skuldlaus, skuldar a.m.k. ekki orðið mikið.

Það er spurning hvort ekki þurfi að taka á þessum vanda í alvöru, leiðrétta þetta og breyta þessu með þeim hætti að bæði þessi stig standi jafnfætis. Auðvitað er það frumvarp sem lagt er fram hér ákveðin breyting á frelsi sveitarfélaganna. Það gengur hins vegar bara út á það að lækka, taka lágmarkið af sem er kannski allt í lagi. Ég þekki reyndar ekki þau sveitarfélög sem óska eftir því að fá að lækka prósentuna á útsvarinu niður fyrir það sem hún er núna. Það getur vel verið að einhver sveitarfélög geti það en þau eru ekki mörg í þessu ágæta landi. Flest sveitarfélög skulda mikla peninga og sérstaklega þau á landsbyggðinni. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu standa kannski ágætlega, og þó ekki því að mörg þeirra skulda mikið og standa í miklum framkvæmdum. Þau eru að byggja upp skóla, dagheimili, götur og önnur samfélagsleg mannvirki af ýmsum toga.

Það er auðvitað fagnaðarefni að fá frumvarp sem gefur okkur tækifæri til að ræða þessi mál. Ég held að það þurfi að taka umræðu um skiptingu á milli þessara stjórnstiga, sveitarstjórnarstigsins og ríkisins, og stokka þetta hressilega upp.