135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

barnalög.

149. mál
[11:39]
Hlusta

Flm. (Dögg Pálsdóttir) (S):

Herra forseti. Í gær ræddum við hér á hinu háa Alþingi jafnréttismál, árangur og árangursleysi á því sviði á síðustu áratugum. Af umræðunni mátti ráða óþolinmæði yfir því hversu hægt miðar í áttina að fullkomnu jafnrétti kynjanna hér á landi.

Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum. Ég fullyrði að þær breytingar sem ég legg til á barnalögum hér í dag eru nátengdar jafnréttismálum og órjúfanleg forsenda þess að frekari árangur náist á því sviði.

Áður en lengra er haldið í þessari framsögu vil ég undirstrika það að allt það sem ég segi hér um sem jafnasta foreldraábyrgð, sem jafnasta umgengni, tvöfalt lögheimili og sameiginlega forsjá samkvæmt dómi, á við um þau tilvik þar sem foreldrar eru bæði góðir og hæfir uppalendur og eiga ekki við nein sérstök vandamál að stríða. Sem betur fer eru það yfir 90% foreldra sem falla í þann hóp. Undantekningar eru vissulega til en við bregðumst við þeim með öðrum hætti en þeim sem hér er lagt til.

Í mínu aðalstarfi sem lögmaður fæst ég mikið við málefni foreldra sem standa á þeim krossgötum í lífinu að ætla að slíta sambúð sinni. Þau standa frammi fyrir erfiðum ákvörðunum í lífinu, ákvörðunum eins og þeim: Hvernig högum við umgengni okkar og barnanna? Hjá hvoru okkar verður lögheimili barnanna? Stundum stendur baráttan um það hvort foreldrið verður með forsjána þótt sameiginleg forsjá hafi verið lögleidd sem meginregla hér á landi á síðasta ári.

Í ljósi þessa tel ég mig hafa góða innsýn í stöðu foreldra og barna þegar að sambúðarslitum kemur. Ég fullyrði að þótt forsjárdeilum hafi kannski ekki fjölgað í umtalsverðum mæli á liðnum árum þá virðast þau forsjármál sem verða að forsjárdeilum vera að harðna. Og af hverju skyldi það vera? Ég tel að forsjárdeilur séu ein birtingarmynd árangurs af þeirri jafnréttisbaráttu sem konur með stuðningi karla hafa háð síðasta aldarfjórðunginn eða svo. Af þessari jafnréttisbaráttu leiddi m.a. að konur flykktust út á vinnumarkaðinn. Við kröfðumst jafnra launa og jafnra tækifæra til náms og starfs. Á kvennafrídaginn 1975 sögðum við: Já, ég þori, get og vil.

Í öllu þessu umróti hefur verkaskipting á heimilunum eðlilega breyst. Í vaxandi mæli eru konur farnar að átta sig á því að það er sjálfsagt og eðlilegt að gera kröfur til sambýlismanna sinna og eiginmanna um þátttöku í heimilisstörfum og öllu því sem lýtur að umönnun barna. Karlar sem áður höfðu í takmörkuðum mæli sinnt börnum sínum eru farnir að eyða með þeim meiri tíma og finna þannig hversu dýrmætt og mikilvægt það er að eiga þá samveru með börnum sínum.

Breytingar á fæðingarorlofsreglum, ekki síst þær stórstígu breytingar sem urðu frá 1. janúar 2001, hafa enn ýtt undir þessa þróun. Af þessum nýju orlofsreglum leiðir að nú eru feður heima með börnum sínum, líka á þeim tíma sem þau eru algerlega ósjálfbjarga og í öllu upp á umönnunaraðila sinn kominn. Mæður einoka ekki lengur þennan tíma eins og áður var.

Og hverjar eru afleiðingar þessa? Við skilnað eða sambúðarslit eru það æ oft karlarnir sem segja: Já, ég þori, get og vil, — þegar kemur að því að ræða hvor aðilinn á að vera meginumönnunaraðili barnanna eftir samvistarslitin.

Í þessu felst ein stærsta breytingin frá því sem áður var því nú gera karlar í æ ríkari mæli kröfur til virkrar þátttöku í lífi barna sinna eftir skilnað, eins og konurnar hafa krafist af þeim meðan allt lék í lyndi. Feður sætta sig ekki lengur við að vera óvirkir þátttakendur í lífi barna sinna þótt sambúð þeirra og mæðranna ljúki.

En þá bregður svo við að þegar til skilnaðar kemur gleymist oft jafnréttisbaráttan og mikilvægi þess fyrir börnin að njóta beggja foreldra sinna í sem ríkustum mæli þótt foreldrarnir beri ekki gæfu til að halda áfram vegferð sinni. Ágreiningur kemur upp milli foreldranna. Feður sem á sambúðartíma hafa sinnt börnum sínum jafnt og móðirin, og stundum jafnvel í meira mæli, verða að vonum undrandi og skilja ekki hvaðan á sig stendur veðrið ef móðirin vill nú verða meginumönnunaraðili án tillits til þess hvernig verkaskiptingin var í sambúðinni.

En konum er að hluta til vorkunn í þessari afstöðu sinni. Af hverju segi ég það? Jú, því þrátt fyrir alla jafnréttisbaráttuna þá er hið ríkjandi viðhorf í þjóðfélaginu það að við skilnað foreldra eigi börn að fylgja mæðrum og að feður eigi að sætta sig við að vera helgarpabbar.

Konur sem fylgja jafnréttishugsjóninni alla leið og telja sjálfsagt og eðlilegt að feður komi til jafns við þær að umönnun barnanna þurfa oftar en ekki að þola aðfinnslur og jafnvel aðdróttanir um það hvort þær eigi við einhver persónuleg vandamál að stríða. Körlum sem axla eðlilega foreldraábyrgð við skilnað er á hinn bóginn hampað sem sérstaklega duglegum og aðdáunarverðum. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt dáðst að konum sem einar sjá um börn sín, stundum með litlum stuðningi feðra. Ég hef hins vegar mjög oft heyrt dáðst að körlum í þeim sporum, jafnvel þó að þeir geri ekkert meira en það að axla til jafns við móðurina ábyrgð á börnunum sem þeir eiga með henni. Hér endurspeglast ríkjandi viðhorf, hið raunverulega hugarfar í jafnréttismálum. Þetta viðhorf og hugarfar endurspeglast í svo mörgu öðru. Það endurspeglast meira að segja hjá hinu háa Alþingi sjálfu. Alþingi fellur í hefðbundnar kynjaklisjur og gerir það örugglega ekki af ásetningi.

Ég fékk afhenta þessa bók, Háttvirtur þingmaður, þegar ég tók við þingmannsstörfum hér í síðustu viku. Þar er fjallað um þingstörfin og ýmislegt gagnlegt fyrir nýjan þingmann. Handbókin er skemmtilega myndskreytt en ég hnaut um tvær myndanna. Á bls. 49 er grínug mynd af þingmanni sem er greinilega að vinna heima, sennilega við eldhúsborðið, í fartölvunni sinni. Heimiliskötturinn og börnin láta þingmanninn ekki í friði. Og hvors kyns er þingmaðurinn á myndinni? Jú, það er kona. Teiknaranum hefur greinilega ekki dottið í hug að karlþingmaður þurfi að búa við þau vinnuskilyrði heima að kötturinn og börnin láti hann ekki í friði meðan hann sinnir mikilvægum störfum fyrir land og þjóð.

Á næstu opnu, bls. 51, er talað um ræstingar. Þar er einnig grínug teikning af ræstitækninum sem fer eins og hvítur stormsveipur hér um sali að starfsdegi loknum. Hvors kyns er ræstitæknirinn? Það er kona. Þarna birtast, í þessum annars skemmtilegu skopmyndum, hin hefðbundnu viðhorf í þjóðfélaginu. Konur sjá um börn, ræstitæknar eru konur.

Víkjum þá aftur að barnalögunum sem hér eru til umfjöllunar. Þau hafa sætt breytingum frá þeim tíma sem þau voru fyrst lögfest á Alþingi í byrjun 9. áratugar. Það er merkilegt til þess að hugsa að það var fyrst með þeim lögum sem umgengnisréttur föður við óskilgetið barn sitt var lögfestur, það eru ekki nema 25 ár síðan.

Það má með sanni segja að við höfum verið mjög varkár með allar nýjungar varðandi þann lagaramma sem við sníðum börnum og foreldrum. Það var t.d. ekki fyrr en 1992 sem við treystum okkur til að leyfa foreldrum að semja um sameiginlega forsjá. Þá hafði sú skipan viðgengist alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum um margra ára skeið, síðast verið tekin upp í Danmörku 1985. Í frumvarpi því sem varð að barnalögum 1992 er vikið að þessu atriði og nefnt að síðast hafi sem sé sameiginlega forsjáin verið lögfest í Danmörku sjö árum áður. Það er líka vikið að því að í sumum löndum sé meira að segja dómstólum heimilt að dæma sameiginlega forsjá. En það var ekki talin ástæða til að stíga svo stórstíg skref þannig að strax árið 1992, þegar við lögfestum sameiginlega forsjá sem heimildarákvæði, voru öll okkar nágrannalönd komin miklu lengra á þessu sviði. Það var ekki fyrr en á síðasta ári sem við treystum okkur til að gera sameiginlega forsjá að meginreglu. Enn höfum við ekki treyst okkur til þess að lögfesta heimild til dómstóla til að dæma megi sameiginlega forsjá. Danir hafa verið síðastir í þessari þróun og það er svo sem ekki langt síðan þeir lögfestu breytingar, það var gert núna frá og með 1. október sl. Svíar hafa hins vegar lengi haft í sinni löggjöf slíkar reglur.

Það má því með sanni segja að við höfum hér á landi stigið afar varlega til jarðar og ekki rasað um ráð fram þótt fyrir liggi að þessi atriði séu mikilvæg tæki í allri jafnréttisbaráttu. Það er nefnilega að mínu mati ekki fyrr en jöfn foreldraábyrgð næst fram sem fullt jafnrétti næst.

Það eru liðin fimm ár frá því að síðasta endurskoðun á barnalögunum var gerð. En þá var ekki stigið skref sambærilegt við það sem gert hafði verið á Norðurlöndum og eins og ég vék að áðan var það ekki fyrr en í fyrra sem sameiginlega forsjáin var lögfest. Þær breytingar á barnalögunum sem hér eru lagðar til með því frumvarpi sem ég mæli fyrir hníga flestar í þá átt að gera foreldrum betur kleift en nú er að axla sem jafnasta foreldraábyrgð við skilnað eða sambúðarslit. Ég mun nú, herra forseti, víkja að helstu breytingunum sem frumvarpið felur í sér.

Staðreyndin er sú að í vaxandi mæli semja foreldrar um það að börnin dvelji sem jafnast hjá þeim báðum. Slíkt fyrirkomulag tryggir að börnin njóti sem mest beggja foreldra sinna. Þegar foreldrar semja um slíkt fyrirkomulag er nauðsynlegt og eðlilegt að lögheimilið geti verið hjá þeim báðum. Slíkt er ekki hægt nú lögum samkvæmt. Þess vegna er í 4. gr. frumvarpsins lagt til að foreldrar geti við sambúðarslit ákveðið að lögheimili barnsins eða barnanna verði hjá þeim báðum. Samhliða er í 11. gr. frumvarpsins lögð til breyting á lögheimilislögum annars vegar og skattalögum hins vegar til að þessi breyting verði möguleg. Af þessari breytingu mun leiða að foreldrar sem deila foreldraábyrgð sinni sem jafnast geta samið um að lögheimili barnsins verði hjá þeim báðum og þau munu þannig bæði njóta þess opinbera stuðnings sem einstæðir foreldrar njóta. Sá stuðningur er nefnilega bundinn við lögheimilið.

Ýmislegt annað hangir við lögheimilið, svo sem möguleiki foreldra til að tryggja börn sín með frístundatryggingum. Afleiðing af þessu hlýtur að verða sú að meðlagsgreiðslur falla niður í þessum tilvikum enda gert ráð fyrir því að þegar foreldrar haga málum með þessum hætti axli þau einnig að jöfnu allar framfærsluskyldur með barninu.

Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting á 28. gr. barnalaga að skýrt komi fram í nýrri málsgrein að þegar svo háttar til að forsjá sé sameiginleg en lögheimili einvörðungu hjá öðru foreldrinu geti lögheimilisforeldrið ekki flutt lögheimili nema með samþykki hins. Í raun ætti þessi breyting að verða ónauðsynleg því að það kemur skýrt fram í 4. mgr. 28. gr. barnalaga að forsjá feli í sér rétt og skyldur fyrir foreldri til að ákveða búsetustað þess. Þjóðskrá hefur hins vegar í framkvæmd túlkað þetta lagaákvæði þannig að lögheimilisforeldrið eitt hafi þennan rétt, líka þegar forsjáin er sameiginleg.

Á sama tíma er skýrt tekið fram í lögunum að lögheimili barns megi ekki flytja til útlanda nema með samþykki hins foreldrisins sem fer sameiginlega með forsjána. Engu að síður getur háttað svo til að það sé meira vandamál fyrir foreldri að barnið flytji t.d. til Vopnafjarðar eða Þórshafnar en til Kaupmannahafnar því að samgöngur við Kaupmannahöfn eru mun auðveldari en við Vopnafjörð eða Þórshöfn, og miklu kostnaðarminni.

Með 5. og 6. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 34. og 35. gr. barnalaga. Hér eru lagðar til nauðsynlegar breytingar til að stuðla að því að dómari geti í forsjármáli annaðhvort breytt forsjá annars foreldrisins yfir í sameiginlega forsjá eða, þegar krafist er slita á forsjá, neitað að fallast á kröfuna og dæmt forsjána sameiginlega áfram. Jafnframt eru í ákvæðinu fyrirmæli um að sameiginlegri forsjá megi ekki slíta nema til þess séu ríkar ástæður og að slík tilhögun sé barninu fyrir bestu. Jafnframt er í ákvæðinu lögð sú lína að dómari geti ákveðið foreldrinu sem ekki fær lögheimilið umgengni í allt að sjö daga af hverjum 14. Með þessu er í lagatexta verið að sýna að sem jöfnust umgengni er sjálfsögð og eðlileg.

Eftir þessa breytingu, ef hún nær fram að ganga, erum við að feta í fótspor frændþjóða okkar, Svía og Dana, og fleiri eins og ég hef áður vikið að. Ef þessi tillaga nær fram að ganga er nauðsynlegt að gera tæknilegar breytingar á 35. gr. barnalaga og þær breytingar eru lagðar til í 6. gr. frumvarpsins. Ég tel ekki ástæðu til að rekja þær sérstaklega því að þær eru meira tæknilegs eðlis en stuðla að því að tryggja að í forsjármálinu sjálfu standi foreldrarnir jafnfætis þannig að í bráðabirgðaforsjármáli séu ekki teknar ákvarðanir sem erfitt verður að snúa við.

Herra forseti. Breytingarnar sem ég hef hér rakið eru þær breytingar sem ég tel vera mikilvægastar með tilliti til þróunar kynjajafnréttis hér á landi. Í frumvarpinu eru þó fleiri breytingartillögur. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að karlmaður sem telur sig föður barns geti höfðað barnsfaðernismál. Sifjalaganefnd gerði ráð fyrir þessum möguleika í frumvarpi til barnalaga 2003 en þá kaus hið háa Alþingi sjálft að fella þá heimild niður í þeim tilvikum sem barn er feðrað svokallaðri pater est reglu vegna áhyggna af tilefnislausum málshöfðunum, eins og það er orðað í nefndarálitinu hjá allsherjarnefnd.

Ég tel nýlega reynslu fullorðins manns sem reyndi að fá staðfest faðerni sitt sýna að dómstólar gæta ýtrustu varúðar af þessum tilefnum og því er ástæðulaust að treysta ekki dómstólum í þessum efnum. Ég tel að það sé alvarlegt brot á karlmanni sem er í þessari stöðu að geta ekki leitað til dómstóla og legg því til þessa breytingu. Ég hef hins vegar velt því fyrir mér hvort eðlilegri staðsetning á þessari heimild væri í III. kafla laganna þar sem fjallað er um ógildingar- og vefengingarmál en í II. kaflanum þar sem fjallað er um barnsfaðernismál. Sifjalaganefnd gerði ráð fyrir því að heimildin væri staðfest á þessum stað í lögunum en ég legg til að hv. allsherjarnefnd hugi sérstaklega að þessu atriði þegar hún fjallar um frumvarpið.

Í 3. gr. er lögð til sú breyting að forsjá við andlát falli alltaf í skaut hinu kynforeldrinu, sú verði meginreglan. Nú eru reglur þannig að stjúpforeldri gengur framar kynforeldri ef foreldri er eitt með forsjána. Þetta veit ég að mjög margir forsjárlausir foreldrar, konur jafnt sem karlar, eru óánægð með. Ég legg þó til enga breytingu á því ákvæði sem þegar er í lögunum, að forsjárforeldri geti í þessum kringumstæðum gefið yfirlýsingu með fyrirmælum um hvert forsjáin skuli fara að því látnu. Ef slík yfirlýsing liggur fyrir verður það dómstóla að meta hvar hagsmunum barnsins verði best borgið, hjá stjúpforeldrinu eða kynforeldrinu.

Í 7. gr. frumvarpsins eru lagðar til tvær breytingar á 30. gr. barnalaga sem miða að því annars vegar að láta það koma skýrt fram í lagatextanum að sýslumenn geti úrskurðað um sem jafnasta umgengni. Þessi hefðbundna helgarumgengni, frá föstudegi til sunnudags eða mánudags, verði ekki það viðmið sem haft er að leiðarljósi, það megi úrskurða umgengni í allt að sjö daga af hverjum 14. Hins vegar er í 7. gr. lögð til sú breyting að meginreglan verði sú við umgengni að kostnaður vegna hennar skiptist milli foreldranna í stað þess að nú er hann eingöngu á herðum þess foreldris sem sinnir umgengninni.

Síðasta breytingin sem ég ætla að víkja hér að er lögð til í 9. gr. Þar er lagt til að lítils háttar breyting verði gerð á 52. gr. barnalaga. Þessi breyting lætur líka lítið yfir sér en er afskaplega mikilvæg fyrir forsjárlaust foreldri. Nú er litið svo á að forsjárlaust foreldri eigi ekki rétt á nema munnlegum upplýsingum um barn sitt frá ýmsum aðilum, eins og leikskóla, skóla, barnaverndaryfirvöldum, heilbrigðisstofnunum. Þessi túlkun byggir ekki á neinu skýru orðalagi í lögum, heldur skýringarreglu í greinargerð sem fylgdi breytingu sem gerð var á barnalögunum 1995. Það er sjálfsagt og eðlilegt að forsjárlaust foreldri eigi fortakslausan rétt á því að fá skriflegar jafnt sem munnlegar upplýsingar um barn sitt og þessi breyting lýtur að því að tryggja þann rétt.

Herra forseti. Ég vék að því í upphafi máls míns að við hefðum í gær rætt á hinu háa Alþingi jafnréttismál vegna nýs frumvarps hæstv. félagsmálaráðherra á því sviði. Mér fannst einn rauður þráður í umræðunni vera sá að jafnrétti náum við ekki til fulls nema með hugarfarsbreytingu. Við erum öll afsprengi þess samfélags sem við ólumst upp í. Ég rakti áðan dæmi um hefðbundin kynjaviðhorf sem endurspeglast meira að segja í útgefnu efni frá Alþingi. Það gerði ég ekki til að vera leiðinleg, heldur fyrst og fremst til að benda okkur á hvað við sjálf þurfum endalaust að vera vakandi fyrir því að falla ekki í hinar hefðbundnu klisjur um hlutverk kynjanna. Við þurfum daglega og oft á dag að minna okkur á það að við verðum að hugsa út fyrir þann kassa sem uppeldið hefur sett okkur. Við erum öll afsprengi þess uppeldis sem við fengum, ef einhverju á að breyta verðum við að byrja á því að breyta okkur sjálfum, konur jafnt sem karlar.

Herra forseti. Það er einlæg sannfæring mín að til að kynjajafnrétti náist þurfi löggjöf sem endurspeglar slík viðhorf á öllum sviðum. Það duga ekki einvörðungu metnaðarfull lög um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Löggjöfin á öllum sviðum þarf að hafa kynjajafnrétti að leiðarljósi. Þær breytingar sem ég hef hér mælt fyrir og legg til eru af þeim toga.

Ég veit að það er sjaldgæft að þingmannafrumvörp séu samþykkt á hinu háa Alþingi. Ég el þó þá von í brjósti að þetta frumvarp geti orðið mikilvæg undantekning frá þeirri reglu og að hv. allsherjarnefnd afgreiði frumvarpið úr nefndinni. Börnin okkar eiga það einfaldlega inni hjá okkur að við stígum þau skref sem þarf í löggjöf til að tryggja að þau njóti alla daga sem mestra og bestra samvista við báða foreldra sína, hvort sem foreldrar þeirra búa saman eða ekki.