135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

barnalög.

149. mál
[12:02]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil óska hv. þm. Dögg Pálsdóttur til hamingju með jómfrúrræðuna og vel unnið frumvarp. Það er gott að slíkt frumvarp skuli vera komið fram en í því er mælt fyrir um að stigið sé ákveðið skref til aukins kynjajafnréttis. Ég er sammála frumvarpinu og mun greiða því atkvæði og veita því fyrirgreiðslu eftir því sem ég best get.

Ég velti þó fyrir mér einu atriði í frumvarpinu og það er hið sameiginlega lögheimili. Ég get ekki séð annað en að það valdi töluvert miklu raski og þar sé verið að leggja til atriði sem miðað við ýmis önnur lög getur valdið erfiðleikum í framkvæmd. Yfirleitt er það þannig, eins og hv. þm. Dögg Pálsdóttir þekkir sjálfsagt sem lögmaður, að sameiginlega lögheimilið er ekki vandamál þegar sameiginleg forsjá gengur upp á annað borð. Mér finnst þetta þurfa frekari skoðunar við.

En ákvæði eins og t.d. það sem kemur fram í 3. gr. frumvarpsins, um að forsjá fari til kynforeldris sem ekki er forsjárforeldri, er sjálfsögð mannréttindi. Þetta er eðlileg breyting og alveg furðulegt að hún skuli ekki hafa verið gerð þegar barnalögin voru síðast endurskoðuð.

Ég óska hv. þingmanni til hamingju með frumvarpið og glæsilega jómfrúrræðu. Ég vænti þess, tek undir það með henni, að meginefni þessara laga verði lögfest.