135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

155. mál
[13:11]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski er litlu við þetta að bæta nema hvað hv. þingmaður vísar til þess að horfa þurfi til einhverra sem að þessu stóðu í þeirri umræðu sem fram fór. Því miður var hún ekki upplýsandi og ekki merkileg. En alla tíð var um það deilt hverjir stóðu að þessu, hverjir komu að þessu og hvernig tilurðin varð. Því miður fór umræðan fram um þetta. Þetta var grundvallarumræðan sem fram fór í stað þess að fram færi efnisleg umræða um málið, um forsendurnar og þær grundvallarspurningar sem eðlilega hefði verið ástæða til þess að spyrja og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir og fleiri hafa dregið fram í þessari umræðu. Lykilatriðið er að allir séu jafnir og það sé eitt lífeyrissjóðakerfi fyrir alla landsmenn. Um það snýst þetta mál.

Enginn hefur talað meira um þetta í gegnum tíðina en hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, bæði í ræðu og riti. Hún kemur á þing og fylgir þessu máli eftir. Eðlilegt er að málið komi fram og miðað við þau viðbrögð sem hv. þingmenn hafa sýnt í dag hef ég trú á að þingið muni rétta sinn hag frá þessum hörmungardögum á haustinu 2003.