135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

afkoma og fjárhagur sveitarfélaga.

[15:05]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, varðandi afkomu og fjárhag sveitarfélaganna.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að mörg sveitarfélög í landinu búa við óviðunandi afkomu og mikinn rekstrarvanda. Afkoma þeirra er vissulega misjöfn en að meðaltali er hún óviðunandi og hefur verið lengi og staðreyndin er sú að nánast án undantekninga stríða sveitarfélög á landsbyggðinni við mikla erfiðleika.

Engu að síður gerist það í morgun að fjármálaráðherra stígur í ræðustól á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna og heldur þar ræðu, væntanlega fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, og gefur þessari stöðu sveitarfélaganna ósköp einfaldlega, á manna máli sagt, langt nef. Gefur öllum hugmyndum sem uppi hafa verið um að sveitarfélögin fengju hlutdeild í nýjum og breiðari tekjustofnum langt nef og segir í raun og veru við sveitarfélögin að þau eigi ekki að þurfa að vera að kvarta, þau ættu bara að hætta þessu væli.

Félagsmálaráðherra sem enn fer með málefni sveitarfélaganna að því er ég best veit, annars er það allt mjög á floti innan Stjórnarráðsins, hefur talað í aðra veru svo ekki sé minnst á forsvarsmenn sveitarfélaganna sjálfra sem hafa verið með hugmyndir um að nú væri komið að ríkinu að ganga í lið með þeim að greiða upp skuldir o.s.frv. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Talar hæstv. fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar allrar þegar hann slær út af borðinu allar hugmyndir um að ríkið komi til móts við sveitarfélögin með rýmri tekjustofnum en þau hafa í höndum í dag? Hvar eru þessi mál á vegi stödd innan ríkisstjórnarinnar? Ætlar ríkisstjórnin að hafa þetta þannig áfram að skoðanir í málinu á hennar vettvangi séu jafnmargar og þeir sem tjá sig um málið? Er þess að vænta að ríkisstjórnin komi sér niður á einhverja línu í málinu?

Þetta mál á fullt erindi inn á Alþingi. Nóvembermánuður er genginn í garð og það styttist í að fjárlög fyrir komandi ár verði afgreidd. Í frumvarpinu eins og það lítur út í dag er að sjálfsögðu ekkert að hafa um þetta efni og engu lofað hvað varðar stöðu sveitarfélaganna af því að maður telur að sjálfsögðu ekki með það sem tengt er sérstaklega við svokallaðar mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar þorskveiðiheimilda o.s.frv. Ég held að nú sé réttast og eðlilegast að hæstv. forsætisráðherra geri grein fyrir stöðu þessa máls að svo miklu leyti sem það er hægt í stuttum fyrirspurnatíma. Seinna er svo örugglega ástæða til að ræða þetta ítarlegar, en við skulum fyrst heyra svör forsætisráðherra.