135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

lagarammi í orkumálum.

[15:32]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég fæ ekki betur heyrt en að Samfylkingin ætli að hörfa í gömlu framsóknarlínuna frá því fyrir kosningar. Nú segir hún að engin tæki séu til. Hvaða tæki hafði Samfylkingin hugsað sér að nota þegar hún lofaði því fyrir kosningar að standa að stóriðjustoppi? Var henni ekki kunnugt um það á þeim tímapunkti að þessi tæki væru ekki til, eða vildi hún ekki af þeim vita?

Sannleikurinn er auðvitað sá að þessi tæki eru til. Það er bara spurning um hvort menn vilja nýta þau og það er bara gaspur að segja að ekki sé hægt að grípa til ráðstafana. Lærdómurinn sem við getum dregið af nýlegri þróun mála í borgarstjórn Reykjavíkur er m.a. sá að það er hægt að taka í bremsurnar, það er hægt að taka nýjar pólitískar ákvarðanir og það er hægt að vinda ofan af vitleysunni ef raunverulegur vilji er til staðar.