135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

lagarammi í orkumálum.

[15:34]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt, m.a. vegna þess sem ráðherrann sagði áðan um landsskipulag, að það komi skýrt fram að ákvæði um landsskipulag eru í gildandi skipulagslögum. Það þarf ekki að breyta skipulagslögum sérstaklega til þess. Það er ákvæði í skipulagslögum um landsskipulag og það er hægt að setja svokallaðar landsskipulagsáætlanir, landnýtingaráætlanir o.s.frv. á grundvelli gildandi skipulagslaga. Það ætti hæstv. umhverfisráðherra að vita.

Varðandi þær hugmyndir sem nú liggja fyrir eru þær eftir því sem ég þekki þær best þess eðlis að það er full ástæða til að gera athugasemdir við þær varðandi sjálfsstjórn sveitarfélaganna. En það er hægt að gera sérstakar landsskipulagsáætlanir á grundvelli gildandi skipulagslaga.

Síðan vil ég ítreka það að tækin sem ég hef rakið eru til staðar og það er alvarlegt mál þegar það er sagt að nú standi yfir vinna við mótun rammaáætlunar sem á að vera lokið 2009 — hvað á að gera þangað til? Af hverju eru gefnar út einhvers konar yfirlýsingar um að ekki sé hægt að hafa áhrif á þróun mála fyrr en þá hugsanlega árið 2009? Það er það sem stendur upp úr (Forseti hringir.) í málflutningi hæstv. iðnaðarráðherra og Samfylkingin ber ábyrgð á.