135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

umferð um Reykjavíkurflugvöll.

[15:37]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. samgönguráðherra um afstöðu hans til flugs og lendingar einkaþotna á Reykjavíkurflugvelli. Við höfum séð það á undanförnum missirum að flugi og lendingum einkaþotna hefur heldur fjölgað á Reykjavíkurflugvelli með tilheyrandi mengun og auknum hávaða og nú er svo komið að þeir sem búa í næsta nágrenni við flugvallarstæðið í Reykjavík hafa af þessu mikinn ama, hafa haft samband og lýst yfir áhyggjum sínum af tíðum lendingum og þeim auknu ferðum sem þarna eru.

Þróunin á undanförnum árum í umferð á Reykjavíkurflugvelli hefur líka heldur verið í þá áttina að draga úr umferð, a.m.k. stærri þotna, og því skýtur nokkuð skökku við að sjá þessa aukningu í umferð og lendingu einkaþotna. Því vil ég nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann deili ekki þeirri framtíðarsýn með þeirri sem hér stendur um það að í framtíðinni eigi þessi umferð og þessar lendingar frekar heima á Keflavíkurflugvelli en á Reykjavíkurflugvelli.