135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[15:45]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mig langaði að beina fyrirspurn til nokkurra þingmanna og ráðherra sem komu að setningu bráðabirgðalaganna. Ég óska eftir því að þeir verði viðstaddir til svara eftir því sem þeir hafa tök á. Ég sé hæstv. viðskiptaráðherra ekki í salnum og ég spyr hvort von sé á honum til að hlýða á þessa umræðu og taka þátt í henni eftir atvikum.

(Forseti (StB): Forseti mun gera ráðstafanir til þess að kanna hvort hæstv. viðskiptaráðherra er í húsinu eða getur verið við umræðuna.)

Ég mun þá beina fyrirspurnum að öðrum áður en hann er kominn til fundarins.

Ég vil fyrst spyrjast fyrir um stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi notkun á bráðabirgðalagaheimildinni, hver hún er eða hvort bráðabirgðalögin nú í sumar lýsi afstöðu ríkisstjórnarinnar til bráðabirgðalagasetningar.

Það hefur verið litið svo á að bráðabirgðalög sé heimilt að nýta þegar brýn ástæða er til að mati þess ráðherra sem í hlut á. Það hefur komið fram í þessari umræðu, m.a. í framsöguræðu hæstv. viðskiptaráðherra, að ástæðan fyrir því að Alþingi var ekki kvatt saman til að leggja fyrir frumvarp um þetta efni var eins og hann segir í ræðu sinni, með leyfi forseta:

„Auðvitað hefði verið hægt að kalla þingið saman enda situr þingið allt árið, eins og þekkt er, en tilefnið var kannski ekki nógu brýnt til að gera það.“

Þá er komin upp ný staða og því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Er það afstaða ríkisstjórnarinnar til þessarar heimildar í stjórnarskránni að hana geti ríkisstjórnin, eða einstakir ráðherrar, nýtt af tilefni sem er afmarkað við hagsmuni eins fyrirtækis eins og er í þessu tilviki og kemur fram í bráðabirgðalögunum sjálfum. Í aðfaraorðum segir, með leyfi forseta: „Það sé viðamikið verkefni að skipta um allar raflagnir innan svæðisins og muni hafa mikinn kostnað í för með sér fyrir Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. sem ekki hafi yfir slíkum fjármunum að ráða að svo stöddu.“

Ber þá, að mati ríkisstjórnarinnar, að nýta þessa lagaheimild á þann veg að um sé að ræða afmarkað tilvik, hagsmuni eins fyrirtækis — tiltölulega litla fjárhagslega hagsmuni í heildina tekið þó að það geti varðað hagsmuni fyrirtækisins nokkuð. Ég spyr vegna þess að síðustu bráðabirgðalög á undan þessum, sem sett voru árið 2003, voru svipuð. Þar var lagaheimildin notuð til þess að bregðast við hagsmunum eins fyrirtækis og það var dregið fram í umræðunni þá að þeir fjárhagslegu hagsmunir væru tiltölulega litlir á þjóðhagslegan mælikvarða og reyndar örfáar milljónir. Er þá skilningur ríkisstjórnarinnar orðinn sá að bráðabirgðalög beri að setja þegar tilefnið er ekki brýnt?

Það finnst mér skjóta skökku við, virðulegi forseti, þegar forsendan fyrir því að beita megi þessu ákvæði er eins og hún er, samkvæmt stjórnarskránni og einnig samkvæmt þeim skilningi sem kom fram á Alþingi árið 1991, þegar þetta stjórnarskrárákvæði var rætt í þingsal — ég veit að hæstv. forsætisráðherra þekkir það vel. Þetta var rifjað upp við 2. umr. málsins þannig að ég ætla ekki að fara yfir það aftur. Þá var skilningurinn sá að brýnt tilefni yrði að vera fyrir hendi og miðað við almannahagsmuni. Mér finnst þetta veruleg breyting og mér finnst nauðsynlegt að fá þetta fram þannig að okkur sé ljóst hvort framvegis megi búast við því af hálfu ríkisstjórnarinnar að sett verði bráðabirgðalög fremur en kveðja þing saman eftir þingfrestun á vori í afmörkuðum og þröngum tilvikum. Ef það festist í sessi sem þróun í beitingu bráðabirgðalagaheimildarinnar er það slæm þróun. Ég tel að hún standist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar. Ég tel að dómstólar mundu dæma á þann veg að í þessu tilviki væri ekki tilefni til að beita bráðabirgðalagaheimildinni.

Ég vildi gjarnan bera þessa spurningu upp til hæstv. forsætisráðherra og biðja hann um að gera grein fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu efni, m.a. vegna þess að á þessu hausti velti hæstv. umhverfisráðherra því fyrir sér hvort setja ætti bráðabirgðalög til að breyta lögum um úthlutun gróðurhúsalofttegunda á þann veg að sú úthlutun yrði ekki endurgjaldslaus heldur yrði tekið gjald fyrir. Ráðherrann komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri rétt að beita bráðabirgðalagavaldinu til að setja slík lög. Mér finnst sú túlkun benda til annars en kemur fram í bráðabirgðalögunum frá því í júlí og í bráðabirgðalögunum frá 2003 þannig að það er ljóst að nauðsynlegt er að fá yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um það hver stefna hennar er varðandi bráðabirgðalagavaldið.

Bráðabirgðalög eru lög sem Alþingi þarf að staðfesta, þau geta ekki staðið í tómarúmi. Það verður að liggja fyrir þegar lögin eru sett að fyrir þeim sé þingmeirihluti. Forsætisráðherra, eða sá ráðherra sem setur bráðabirgðalög, verður að geta fullvissað forseta Íslands um að fyrir þeim lögum sem farið er fram á að forsetinn setji sé þingmeirihluti. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Var vilji þingmanna stjórnarflokkanna kannaður áður en lögin voru sett þannig að vissa væri fyrir því að þeir mundu styðja þessa löggjöf? Lá það fyrir áður en viðkomandi ráðherra gekk á fund forseta Íslands?

Í öðru lagi vil ég spyrja forseta Alþingis hvort það hafi verið kannað hjá honum hvort einhver tormerki væru á því að Alþingi yrði kvatt saman til að leggja fyrir umrætt frumvarp í þeirri von að Alþingi afgreiddi það með skjótum hætti. Kom einhver athugun á því til hæstv. forseta hvort gerlegt væri að kveðja þing saman? Ef svo er, hver voru svör forseta Alþingis við þeirri málaleitan?

Ég vil líka spyrja þingflokksformenn stjórnarflokkanna: Var bráðabirgðalagasetningin borin undir þá áður en hún fór fram? Kölluðu þeir á fund í þingflokkunum til að kanna vilja þingmanna sinna eða könnuðu þeir vilja þingmanna með öðrum hætti þannig að það lægi fyrir að þingmeirihluti væri fyrir málinu? Það hljóta allir að sjá að bráðabirgðalagasetning er mjög óeðlileg ef ekki fer fram nein athugun eða könnun á vilja stjórnarþingmanna. Ég held að ekki þurfi að rökstyðja það. Þetta gerðist árið 2003, bráðabirgðalögin þá voru sett án þess að vilji stjórnarþingmanna væri kannaður, og niðurstaðan varð sú, sem menn ættu kannski að rifja upp, og mér finnst að hafi vakið minni athygli en verðskuldi, að bráðabirgðalögin árið 2003 voru ekki samþykkt. Alþingi hafnaði þeim lögum með því að gera á þeim feiknalega miklar breytingar, bæði í 2. umr. og 3. umr.

Menn skyldu aðeins velta því fyrir sér hvers vegna þingið vildi ekki samþykkja bráðabirgðalögin 2003 óbreytt og hvað í því felst. Svarið er augljóst. Það felst í því að bráðabirgðalögin 2003 höfðu ekki þingmeirihluta eins og þau voru sett. Það hélt ég, virðulegi forseti, að hefði orðið mönnum nægilegt umhugsunarefni til að fara ekki aftur með bráðabirgðalagavaldið með sama hætti og mér virðist að hafi verið gert árið 2007.

Ég held það sé nauðsynlegt að fá það fram hvaða athugun fór fram áður en bráðabirgðalögin voru sett til að kanna hvort þingmeirihluti væri fyrir þeim og hvaða athugun fór fram til að kanna hjá forseta Alþingis hvort þing gæti komið saman. Voru einhver tormerki á því að þing kæmi saman? Það er grundvallaratriðið, sem menn mega ekki gleyma, að stjórnarskrárbreytingin 1991 varð til þess að þingið afgreiddi eftir það löggjöf að öllu jöfnu nema þegar brýn ástæða þótti til eins og segir í stjórnarskránni. Mér finnst ekki rétt að þingheimur láti í tvígang fara hér í gegn bráðabirgðalög sem eru sértæk og afmörkuð um litla fjárhagslega hagsmuni án þess að gera alvarlegar athugasemdir við þá ráðherra sem nýta lagaheimildina með þessum hætti. Ég held og vona að þingheimur sé sammála því mati að leggja eigi mál fyrir Alþingi sé þess nokkur kostur. Ég hef ekki séð nein tormerki á því að leggja þetta mál fyrir Alþingi og grípa til bráðabirgðalagasetningar eins og gert var.

Þá er ég kominn að því sem ég ætlaði að beina til hæstv. viðskiptaráðherra og þykir verra ef hann getur ekki verið við umræðuna vegna þess að hann var ekki við 2. umræðu málsins.

(Forseti (StB): Forseti vill gera athugasemd en svo háttar til að hæstv. viðskiptaráðherra hefur varamann í þinginu og er fjarri við störf. Ekki er hægt að ná í hann til að mæta til þingfundar enda situr varamaður fyrir hann.)

Ég þakka forseta fyrir þessar upplýsingar en varamaðurinn, svo ágætur sem hann nú er, er ekki varamaður hans í ráðherrastóli. Ráðherrann situr áfram sem ráðherra og gegnir því væntanlega þeim skyldum að svara fyrir störf sín og embætti þó hann hafi annan fyrir sig sem þingmann. Mér þykir verra að hann geti ekki verið við þessa umræðu, mér finnst það ekki rétt að viðskiptaráðherra sé fjarverandi bæði við 2. og 3. umr. þessa máls, sem er bráðabirgðalagasetning hans. En kannski geta einhverjir aðrir svarað þeim spurningum sem ég ætla að bera fram til hans. Það verður bara að koma í ljós.

Mér finnst þurfa að skýra betur aðdragandann að bráðabirgðalagasetningunni. Í nefndaráliti meiri hlutans er gagnrýnt að mál þetta hafi ekki komið inn til viðskiptaráðuneytisins fyrr en í óefni var komið. Mig langar að spyrja: Hvernig stendur á því að það kemur viðskiptaráðuneytinu á óvart í júlí 2007 að það brjóti í bága við íslensk lög að íbúðirnar á Keflavíkurflugvelli séu opnaðar fyrir búsetu að óbreyttu rafkerfi í þeim. Neytendastofa, sem ég tel að heyri undir viðskiptaráðuneytið, sendi frá sér bréf í nóvember eða desember 2006, sex eða sjö mánuðum fyrir útgáfu bráðabirgðalaganna, og vakti athygli á þessu. Hún sagði beinlínis í því bréfi að óheimilt væri að heimila búsetu í þessum íbúðum að óbreyttum raflögnum. Það sem stofnun viðskiptaráðuneytisins veit það veit ráðuneytið. Ég spyr: Hvernig getur það verið rétt að viðskiptaráðuneytið hafi ekki vitað af þessu máli eins og haldið er fram í nefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar? Hvaða upplýsingar eru það sem gera það að verkum að þetta er fullyrt? Mér finnst að skýringar verði að koma á því.

Í öðru lagi: Er talið nauðsynlegt að víkja frá íslenskum lögum í heil þrjú ár eða rúmlega það, til 1. október 2010, og gefa Þróunarfélaginu þennan tíma til að koma íbúðunum í rétt horf. Nú er upplýst í nefndaráliti meiri hlutans að búið sé að breyta raflögnum í 318 íbúðum af 340 sem átti að taka í notkun í 1. áfanga eða 94%. Því er lokið í októbermánuði sem er um fjórum mánuðum eftir útgáfu bráðabirgðalaganna? Hver er þá þörfin fyrir undanþágu í rúm þrjú ár ef þessu verki er lokið á svo skömmum tíma og hvaða upplýsingar hafði ráðuneytið um verkhraða fyrst reyndin er svona fjarri því sem ráðherra setur í bráðabirgðalögin? Voru upplýsingarnar sem ráðuneytið studdist við rangar eða hver er skýringin á því að búið er að uppfylla 94% á örfáum mánuðum? Hver er þá skýringin á að undanþágu þurfi í rúm þrjú ár? Mér finnst að viðskiptaráðuneytið þurfi að upplýsa þetta, það sem ég vil meina að sé misræmi í forsendum bráðabirgðalaganna og því sem kemur á daginn.

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að hafa lengra mál um þetta en ég vildi koma þessum spurningum að til að upplýsa þennan þátt málsins. Ég hef spurt sérstaklega um þetta því að ekki komu fram við 2. umr. málsins nægilegar upplýsingar um það. Ég spurði þá sérstaklega um afstöðu þingflokkanna, stjórnarflokkanna, hvernig vilji þeirra hefði verið kannaður. Ekki kom svar við þeirri spurningu þá þannig að ég endurtek hana hér ásamt því að bæta við spurningum til forsætisráðherra og forseta.