135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:06]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Bráðabirgðalög er einungis heimilt að setja ef brýna nauðsyn ber til, það stendur í stjórnarskránni.

Varðandi tilefni þessa tiltekna máls, sem mér vannst ekki tími til að nefna í fyrra andsvari mínu, er ekki um að ræða tiltekið einkafyrirtæki eða þess háttar eins og skilja mátti á hv. þingmanni. Hér er um að ræða ríkisaðila sem starfar samkvæmt sérstökum lögum og hefur það hlutverk að koma þeim eignum sem ríkið hefur eignast á Miðnesheiði í kjölfar brottflutnings bandaríska varnarliðsins í arðbær borgaraleg not. Til þess að það gæti gengið eðlilega fyrir sig var talið brýnt að ljúka þessu máli, varðandi raflagnir og rafföng með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í bráðabirgðalögunum. Hvort tímaramminn í þeim hafi verði rýmri en ástæða var til gátu menn ekki vitað fyrir fram en það skipti nú ekki öllu máli varðandi innihald málsins hvort tímaramminn var tvö ár eða þrjú ár. Allir ættu að fagna því ef tekist hefur að vinna þetta flókna verk á styttri tíma en menn bjuggust við.

Aðalatriðið er að staðið var að þessu máli fullkomlega í samræmi við það sem lög og stjórnarskrá kveða á um og þær hefðir sem skapast hafa við setningu bráðabirgðalaga. Svo hljótum við náttúrlega öll að vera sammála um að jákvætt sé að bráðabirgðalögum hafi fækkað mikið frá árinu 1991. Við eigum að reyna að forðast að setja þau ef hægt er að komast hjá því.

Við settum bráðabirgðalög milli jóla og nýárs, að mig minnir 2002, út af sérstakri ábyrgð vegna flugreksturs í kjölfar ástandsins sem skapaðist í heiminum eftir árásirnar á New York og Washington. Það þurfti að framlengja með bráðabirgðalögum ábyrgð ríkisins á flugrekstri eða flugflota landsmanna (Forseti hringir.) og það sætti ekki gagnrýni svo ég muni.