135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:28]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta voru í sjálfu sér athyglisverðar ræður sem hér hafa verið fluttar um þetta tiltekna mál. Vissulega er hér um grundvallarspurningar að ræða, þ.e. hvenær ríkisstjórn hefur heimild til þess að setja bráðabirgðalög og hvenær ekki. Það er eðlilegt að slíkar grundvallarspurningar séu ræddar og séu þá líka ræddar á réttum forsendum.

Það sem hér liggur fyrir er spurningin um hvort brýn nauðsyn hafi verið á því eða ekki að setja bráðabirgðalög og málið snerist um það hvort hægt væri að nýta þessar eignir í haust eins og gert hefur verið. Það var mat bráðabirgðalöggjafans, þ.e. ríkisstjórnarinnar, og svo virðist sem þingið taki undir það, a.m.k. ef marka má þann mikla stuðning sem er við þetta mál. Ég held að það sé aðeins einn flokkur sem er heill og óstuddur á móti málinu, þ.e. Vinstri grænir, aðrir ýmist skipta sér upp eða styðja málið. Það liggur því fyrir að mikill stuðningur er við að fara þessa leið og mat bráðabirgðalöggjafans er að rétt sé að staðfesta þessi lög, þar liggur þetta mat a.m.k. Ef menn telja svo ekki vera geta þeir sem vilja látið á það reyna annars staðar, það mat er á hendi þessara aðila.

Hv. þingmenn Kristinn H. Gunnarsson og Atli Gíslason spurðu þann sem hér stendur hvort sú afstaða sem hann hefur til málsins nú sé önnur en var 2003. Ég tel svo ekki vera því að þeir sem til þekkja, sem er afar mikilvægt að menn þekki forsendur mála þegar eru að tjá sig, vita að það frumvarp sem var lagt fyrir 2003 var allt annars eðlis og hafði allt aðrar forsendur en hér eru á ferðinni. Í fyrsta lagi lagði hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir frumvarp á þinginu 2002/2003 sem ekki varð að lögum og í framhaldi af því lágu einnig fyrir ítrekaðar beiðnir um að lögum yrði breytt á tiltekinn hátt sem ekki var orðið við. Í því frumvarpi var m.a. gert ráð fyrir að þessi tilteknu lög tækju gildi seint á sama ári þannig að þar lá fyrir það mat að ekki væri nein brýn forsenda til staðar til að setja þessi lög.

Í öðru lagi lá einnig fyrir að þegar þing kom saman eftir kosningar það ár þótti heldur ekki ástæða til að taka þetta upp. Þessar forsendur lágu þá fyrir og ekki þótti ástæða til að keyra þetta í gegn. Í þriðja lagi voru hagsmunirnir í því tilviki, sem við bentum einnig á, u.þ.b. 4 eða 5 millj. kr. í útflutningsverðmætum og óvíst var hvernig til tækist með sölu. Það mál, borið saman við það að hægt væri að nýta þá aðstöðu sem er á Keflavíkurflugvelli í kjölfar skyndilegs brotthvarfs hersins geta menn vitaskuld haft mismunandi sjónarmið á hvort hafi verið gott eða slæmt. Þetta eru einfaldlega þær staðreyndir sem liggja fyrir þannig að forsendur þess máls voru allt aðrar en þær sem nú eru, því að ég veit ekki betur og ég held að allir hafi þann skilning að viðskiptaráðherra eða ríkisstjórnin hafi ekki verið upplýst um þá stöðu fyrr en síðastliðið sumar að gera yrði þessar breytingar til að nýta mætti umræddar fasteignir. Það eru allt aðrar forsendur en voru á árinu 2003 og ég held að það sé ágætt að gerð sé grein fyrir þessu.

Það vekur þá kannski ekki síður upp spurningu, úr því að sá sem hér stendur er beðinn um skýringar á því hvort um breytta afstöðu hafi verið að ræða, sem ég tel ekki vera — hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fór reyndar aðeins yfir hvað varð um þau lög en það er hins vegar allt annað mál — en ég held að rétt sé að rifja það upp að ég lít svo á að það sé talsverður eðlismunur á þessu máli og hinu og eins hitt að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson studdi þá breytingu á sínum tíma. Það er því athyglisvert að menn séu að vekja upp umræðu af þessum toga. En ég tel mikilvægt að menn þekki þær forsendur sem voru til staðar árið 2003 sem eru allt annars eðlis en þær sem hér eru til umræðu.

Ég vil einnig nefna það úr því að ég er kominn hingað upp til að ræða um þetta mál að ég er þeirrar skoðunar að það eigi að fara mjög varlega í beitingu bráðabirgðalaga og forsendur fyrir bráðabirgðalögum eru allt aðrar í dag en voru kannski fyrir 30, 50, 70 árum. Þó að ég muni ekki nákvæmlega hvenær þetta ákvæði kom fyrst inn í stjórnarskrána eru vissulega allt aðrar forsendur núna en voru áður og það á að fara mjög varlega í beitingu á þessu ákvæði. Hins vegar er matið á því hvort um brýna nauðsyn sé að ræða hjá bráðabirgðalöggjafanum, þ.e. ríkisstjórninni eða viðkomandi ráðherra, en þingið tekur svo endanlega afstöðu til málsins. Mér sýnist að það mat hafi verið rétt hvað þetta varðar, þingið styður málið, og það var brýn nauðsyn á að bregðast við ef nýta átti þessar eignir í haust eins og ætlunin var og raunin hefur orðið.