135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:44]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom ekki með mat á fjárhagslegu hagsmunina til að bera þá saman við þá hagsmuni sem fyrir lá að væru fyrir hendi árið 2003 og voru þá að hans mati of litlir. Ég fæ ekki séð að þeir séu neinir sem máli skiptir vegna þess að þeir leigjendur sem fóru í íbúðirnar, og væntanlega eitthvað fyrr en ella hefði verið, bjuggu einhvers staðar og hefðu leyst húsnæðismál sín. Það var engin neyð uppi sem réttlætti það að setja bráðabirgðalög, enda er í aðfaraorðum laganna kveðið á um að þau séu sett vegna þess að Þróunarfélag Keflavíkur hafði ekki fjármuni til að leggja út fyrir endurbótum á rafkerfinu. Þeir fjármunir komu ekki með bráðabirgðalögunum, það varð að leggja þá út eftir sem áður. Það kemur í ljós núna að félagið er búið að leggja þá út að mestu leyti á nokkrum mánuðum án þess að fá nokkurn fjárhagslegan stuðning. Hver var þá hin brýna fjárhagslega þörf á að setja bráðabirgðalögin?

Ég get ekki fallist á það sem hv. þingmaður segir núna, að upplýsingar hafi legið of seint fyrir í þessu tilviki en lengri tími í fyrirvara fyrir fjórum árum, vegna þess að upplýsingarnar varðandi Keflavíkuríbúðirnar lágu fyrir í nóvember 2006 þannig að menn höfðu nógan tíma til að bregðast við. Varðandi afstöðu mína þá er hún sú sama núna og hún var fyrir fjórum árum. Ég gagnrýndi opinberlega setningu bráðabirgðalaganna. Hefur einhver gert það hér úr stjórnarliðinu, virðulegi forseti? Ég skrifaði grein í Morgunblaðið og rökstuddi hvers vegna ég teldi að farið hefði verið út fyrir þá heimild sem menn hafa við setningu bráðabirgðalaga. Bráðabirgðalögin voru ekki samþykkt á Alþingi, þeim var breytt í grundvallaratriðum, virðulegi forseti.