135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.

162. mál
[17:19]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 51/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta er lagt fram sem liður í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar sem ætlað er að koma til móts við ákvörðun stjórnvalda um samdrátt þorskveiðiheimilda. Lögin kveða á um rétt fyrirtækja sem starfrækja fiskvinnslu til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir hvern heilan dag sem fyrirtæki greiðir starfsfólki sínu föst laun fyrir dagvinnu í samræmi við ákvæði kjarasamninga meðan á tímabundinni vinnslustöðvun stendur samkvæmt nánar tilgreindum skilyrðum. Í því skyni að koma til móts við þessi fyrirtæki sem og fiskvinnslufólkið vegna framangreinds samdráttar þorskveiðiheimilda er í frumvarpinu lagt til að þeir greiðsludagar sem Atvinnuleysistryggingasjóði var heimilt að greiða fyrirtækjum verði færðir aftur til þess hámarks sem í gildi var fyrir síðustu breytingar á lögunum í desember árið 2003, með öðrum orðum er lagt til að Atvinnuleysistryggingasjóði verði heimilt að greiða fyrirtækjum fyrir allt að 30 daga í einni vinnslustöðvun í stað 20 daga samkvæmt gildandi lögum. Að því er varðar heildarfjölda greiðsludaga á ári hverju er jafnframt lagt til að sjóðnum verði heimilt að greiða fyrir allt að 60 daga til sama fyrirtækis vegna vinnslustöðvana í stað 45 daga áður.

Ef litið er til ársins 2006, sem er síðasta heila árið, virðist sem fjöldi greiðsludaga fyrir hvert fyrirtæki á árinu hafi verið um 16 dagar að meðaltali. Samtals sóttu 79 fyrirtæki um greiðslur fyrir einhverja daga og voru fjögur fyrirtæki sem nýttu sér allt að 45 daganna. Eru þetta svipaðar tölur og frá árinu á undan og virðist sem árið í ár ætli að verða sambærilegt enda þótt það eigi eftir að koma í ljós hvernig fiskvinnslufyrirtækin nýta sér þessar heimildir á síðustu mánuðum ársins. Það sem af er árinu hafa samtals 66 fyrirtæki þegar sótt um greiðslur í einhverja daga en ekkert þeirra hefur nýtt sér alla 45 dagana. Greiðsludagar fyrir hvert fyrirtæki það sem af er árinu 2007 hafa verið um 13 dagar að meðaltali.

Gera má ráð fyrir að veruleg breyting verði á þessu nú síðari hluta ársins. Viðbótarkostnaður vegna þessara aðgerða er áætlaður rúmlega 60 millj. kr. á ári en gert er ráð fyrir að kerfið, samkvæmt gildandi lögum, kosti um 200 millj. kr. í ár. Heildarfjárveiting fyrir árið 2008 er því áætluð um 260 millj. kr.

Virðulegi forseti. Þær breytingar á lögunum sem hér eru lagðar til eru gerðar að ósk Samtaka fiskvinnslustöðva en einnig var haft samráð við Starfsgreinasambandið. Má ætla að þessar breytingar á fjölda daga geti orðið liður í því að fyrirtæki nái að halda fólki sínu á launaskrá lengur en ella. Um er að ræða tímabundnar aðgerðir enda óljóst í dag hvaða ákvarðanir verða teknar í sambandi við fiskveiðiheimildir í framtíðinni. Ég legg jafnframt áherslu á að stjórnvöld fylgist mjög náið með þeim áhrifum sem þær ákvarðanir er þegar hafa verið teknar kunna að hafa á atvinnulíf í landinu og þá einkum á sjávarbyggðir.

Ég vil undirstrika það hér að frumvarpið er einungis einn liður í þeim mótvægisaðgerðum sem boðaðar hafa verið og þær gera ekki kraftaverk einar og sér. Við verðum að horfast í augu við erfiða tíma einkum í minni byggðunum og er engin ein lausn til á þeim vanda sem við blasir. Stjórnvöld munu að sjálfsögðu fylgjast vel með framvindu mála og munu óska eftir nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins í því efni. Var sérstök áhersla lögð á áframhaldandi samráð við verkalýðshreyfinguna í viðræðum félagsmálaráðuneytisins og Starfsgreinasambandsins um frumvarp þetta enda hætta á að samdráttur aflaheimilda komi niður á starfsöryggi fiskvinnslufólks. Mun ég tvímælalaust beita mér fyrir því að visst samráð verði haft við þessa aðila. Ég legg áherslu á að heimamenn séu hafðir með í ráðum um hvernig bregðast eigi við hugsanlegum áhrifum á atvinnulíf á hlutaðeigandi svæðum og koma fram með raunhæfar tillögur. Vinnumarkaðsráð hafa verið skipuð um allt land en þau voru einmitt hugsuð sem vettvangur slíks samráðs. Þar eiga verkalýðshreyfingin, atvinnurekendur og sveitarfélögin á hverju svæði fyrir sig fulltrúa. Vinnumarkaðsráðin munu koma saman til fundar í vikunni til að fara yfir þessi mál en ég legg mikla áherslu á að þau standi vaktina og fylgist vel með framvindu mála hvert á sínu svæði. Þeim er síðan ætlað að koma fram með tillögur að vinnumarkaðsúrræðum sem eru vænlegar til árangurs.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. félags- og tryggingamálanefndar.