135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

tekjuskattur.

36. mál
[18:08]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kom mér nú á óvart að hv. þingmaður skyldi segja að í frumvarpinu sem hér liggur fyrir, og við erum að ræða, birtist eitthvert gamalt frjálshyggjubergmál sem frjálshyggjudeildin í Sjálfstæðisflokknum væri að bera hér fram. Ég verð að segja það fyrir mína parta að þrátt fyrir slík uppnefni á þessu ágæta frumvarpi má hv. þingmaður kalla þetta gamalt bergmál. En ef menn eru með tillöguflutningi hér á Alþingi að reyna að berjast fyrir aukinni friðhelgi einkalífsins þá held ég að þeir séu á réttri leið, og það er auðvitað það sem við erum að gera.

Það kom mér líka á óvart að hv. þingmaður skyldi í ræðu sinni reyna að gera lítið úr öðru frumvarpi mínu um að heimila sölu á léttvíni og bjór í búðum, matvöruverslunum, maður sem hefur lagt sig mjög fram um að reyna að efla og styrkja bjórframleiðslu á Árskógsströnd. Er það ekki rétt að hv. þingmaður hafi gert það?

Ég kem hingað upp til þess að mótmæla því að þetta frumvarp sé á einhvern hátt á móti stefnu ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálunum. Í stjórnarsáttmálanum er talað um að menn eigi að hafa rétt til þess að skýra frá launakjörum sínum og það finnst mér alveg sjálfsagt. En að setja í lög ákvæði sem skyldar alla skattstjóra landsins til að leggja fram upplýsingar um tekjur hvers og eins, það er allt annar hlutur.

Ég hlýt líka að mótmæla því að við sem stöndum að frumvarpinu séum að standa vörð um hagsmuni auðmanna eða þeirra sem greiða ekki skattana sína. Ég sagði þvert á móti að við ættum að veita skattyfirvöldum þau úrræði sem þau þurfa til að rannsaka skattamál og taka á þeim (Forseti hringir.) sem greiða ekki skattana sína. Við viljum (Forseti hringir.) ekki veita þeim neitt (Forseti hringir.) sérstakt skálkaskjól með þessu frumvarpi enda gengur það ekki út á það.