135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

tekjuskattur.

36. mál
[18:11]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég geng út frá því að öll viljum við náttúrlega að menn borgi eðlilega og með réttum hætti skatta, en við erum greinilega ósammála um hvaða aðferðir séu vænlegastar til að tryggja að svo verði og til að veita aðhald í því.

Svo ætla ég bara að svara þessu eina atriði varðandi stjórnarstefnuna. Ég tel að þetta frumvarp sé angi hugmyndafræði eða hugsunar sem sé í grundvallaratriðum gagnstæð þeirri sem örlar á í stjórnarsáttmálanum, að bestu tækin í þessum efnum, þegar við erum t.d. að stríða við hluti eins og kynbundinn launamun, séu upplýsingar, sé gagnsæi. Ég vil lesa þannig í stjórnarsáttmálann og þá finnst mér þetta vera frumvarp af allt öðru sauðahúsi, angi af hugmyndafræði sem er annars konar. Ég viðurkenni að frumvarpið stríðir ekki með beinum hætti móti neinum tilteknum ákvæðum stjórnarsáttmálans, ég var ekki að halda því fram. Ég var að vísa til hugmyndafræðinnar sem að baki liggur, til ólíkrar hugmyndafræði sem hér er greinilega að takast á. Um hana erum við, ég og hv. 1. flutningsmaður frumvarpsins, ákaflega ósammála að því er best verður séð og kemur svo sem ekkert sérstaklega á óvart, hefur gerst áður og mun örugglega gerast oftar.