135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

tekjuskattur.

36. mál
[18:44]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var merkileg ræða, hún var afar merkileg. Hún leiddi í ljós að hv. þm. Bjarni Harðarson kann ekki að skammast sín. Hann upplýsti þingheim um að hann hefur tekjur af því að birta upplýsingar um laun fólks í sinni sókn og er bara stoltur af því. Það sýnir í mínum huga að hv. þingmaður kann ekki að skammast sín vegna þess að þetta er nú lífsviðurværi sem mér finnst ekki sérstaklega virðingarvert.

Hv. þingmaður talaði um að með því að birta þessar upplýsingar væri mönnum veitt aðhald sem hefði raunverulega þýðingu. Ég leyfi mér að efast um að hið svokallaða aðhald hafi einhverja þýðingu. Ef það gerir það eigum við þá ekki bara að eftirláta þar til bærum stjórnvöldum að hafa slíkt aðhald, ekki skattstjóranum Bjarna Harðarsyni, hv. þingmanni og blaðaútgefanda, sem hefur ekkert slíkt vald og á ekki að hafa?

Úr því að hv. þingmaður talaði hér um gægjuþörf sýnist mér að hv. þingmaður sé haldinn ákveðinni sýniþörf. En það versta við þá sýniþörf er það að hún er á kostnað annarra, ekki á kostnað hans sjálfs heldur á kostnað annarra, og það sem verst er að hann hefur tekjur af því að láta hana í ljós.

Hv. þm. Bjarni Harðarson spurði hvort ekki ætti að vera hverjum manni feimnislaust að upplýsa um laun sín. Það má vel vera að svo eigi að vera. En eigum við ekki að leyfa því fólki sem um ræðir að ákveða það sjálft hvort það upplýsir um það hvað það er með í laun í stað þess að láta hv. þm. (Forseti hringir.) Bjarna Harðarson, merkan blaðaútgefanda, gera það fyrir það?