135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

tekjuskattur.

36. mál
[18:51]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega ósammála hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni um að eftirlit með skattamálum megi ekki vera í höndum annarra en þar til skipaðra embættismanna. Um þetta gildir eins og allt annað í þessu samfélagi, að eftirlit með því að samfélagið sé í lagi á ekki bara að vera í höndum uppáklæddra embættismanna. Það er í höndum okkar allra. Í siðlegu samfélagi skiptir miklu máli að við gætum hvert að öðru. Okkur ber skylda til þess.

Mér kemur það í raun mjög á óvart að heyra frá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, að eftirlit megi bara vera í höndum þar til skipaðra embættismanna. Ég velti fyrir mér hvort það eigi þá líka við um öll önnur hegðunarfrávik, hvort það sé skoðun hans að menn eigi ævinlega að láta allt sem þeim þykir úrskeiðis fara afskiptalaust. Að samfélag firringar sé best allra samfélaga. Menn skulu keyra fram hjá samborgurum í neyð. Menn skuli horfa upp á alls konar óhæfu og vitleysu vegna þess að til séu aðrir, lögreglumenn í landinu og dómarar, og ekki skuli neinn Bjarni Harðarson þá skipta sér af því.

Varðandi það hvort ég telji mig skattstjóra í þessu landi þá er það af og frá. Ég tel það í raun ekki svara vert. Ég tel mig aftur á móti sem blaðaútgefanda fyrr og nú, hafa það hlutverk að upplýsa um eitt og annað. Þar á meðal eru launakjör í landinu, eftir því sem tilefni er til. Eitt af þeim tilefnum er framlagning skattskrár á hverju ári (Forseti hringir.) og ég er stoltur af því að sinna því hlutverki mínu.