135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

tekjuskattur.

36. mál
[19:01]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fulltrúar Stasi sem voru að rannsaka og skoða nágranna sína gerðu það í samræmi við gildandi lög í því ágæta landi, voru sem sagt að fullnægja réttlætinu og fylgjast með að lögum væri framfylgt, nákvæmlega eins og þeir sem eru að lesa skattskrá í dag og eru að fylgjast með meðbræðrum sínum.

Varðandi kjör æðstu stjórnenda hlutafélaga, sérstaklega almenningshlutafélaga, þá er það skylda þeirra að skila upplýsingum um kjör sín gagnvart hluthöfum. Stjórninni ber að upplýsa hluthafa um kjör þessara manna vegna þess að þeir vinna hjá hluthöfunum og ef þetta eru almenningshlutafélög þá hljóta menn að upplýsa þau út um víðan völl því að þetta eru jú almenningshlutafélög.