135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

vátryggingarsamningar.

163. mál
[13:32]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004. Frumvarpið er á þskj. 175 og er 163. mál þessa þings.

Frumvarp til laga um vátryggingarsamninga var samþykkt á 130. löggjafarþingi og birt sem lög nr. 30/2004. Var vátryggingafélögum þar ætlaður rúmur tími til að undirbúa sig fyrir gildistöku og koma þeim til framkvæmda þann 1. janúar 2006. Eftir gildistöku þeirra laga hefur risið vafi og deilur og túlkunarefi um hvort unnt sé að svara spurningum um heilsufar skyldmenna án þess að í því felist miðlun upplýsinga um erfðaeiginleika og þar af leiðandi hvort í bannreglu þeirri sem fram er sett í 82. gr. laganna felist að ekki megi óska upplýsinga um heilsufar náinna skyldmenna.

Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 30/2004 er tilgangur bannákvæðisins ekki sá að banna notkun upplýsinga, heldur var ákvæðinu ætlað að ákveða mörk upplýsingaskyldunnar og heimildar vátryggingafélaga til að nýta sér slíkar upplýsingar. Er reyndar mikilvægt að það liggi skýrt fyrir hvar þessi mörk liggja. Nú er staðan sú að sumir túlka sem það séu engin mörk og þeir megi óska eftir hvaða upplýsingum sem er, aðrir túlka að þeir hafi ekki heimild til að afla upplýsinga. Efinn er út í öfgarnar í báðar áttir. Okkar verkefni er að skilyrða, takmarka og skýra hvaða heimildir félögin hafa til að óska eftir upplýsingum þannig að gætt sé jöfnum höndum að persónuvernd og ýtrustu hagsmunum þannig að sanngirnissjónarmið á báða bóga nái fram að ganga.

Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á 82. gr. laganna sem fjallar um upplýsingaöflun við töku persónutrygginga. Tilgangurinn er sá að eyða vafa um hversu ríkar heimildir vátryggingafélög hafi til öflunar persónuupplýsinga þegar þau meta vátryggingaráhættu. Það er þar sem túlkunarvafinn liggur núna og um það er sem sagt deilt, vafinn er um það hversu ríkar heimildirnar eru og hvort þær séu almennt til staðar. Þetta er túlkað algjörlega í báðar áttir, annars vegar að félögin hafi ekki heimildir til að afla neinna upplýsinga sem hefur orðið til þess að einhver þeirra erlendu félaga sem bjóða upp á þessa samninga sem mikilvæga samkeppnisbót á íslenskum neytendamarkaði hvað varðar slíkar tryggingar hafa farið af markaði. Önnur hafa ekki talið sig geta fengið endurtryggingar á tryggingar sínar út af því að félögin hafa ekki heimildir til að leita eftir þessum upplýsingum. Svo er hin túlkunin sú að það séu engin takmörk á heimildum félaganna til upplýsingar. Það á tæpast við rök að styðjast en verkefni okkar núna er að skera úr um það í eitt skipti fyrir öll hvar þessi mörk eigi að liggja, með hvaða hætti eigi að fara með málið og við hvað eigi að skilyrða upplýsingagjöf vátryggingartaka um þriðja aðila ef þær upplýsingar eru á annað borð veittar.

Á 133. löggjafarþingi var lagt fram frumvarp um sama efni. Vegna þess hve skammur tími gafst til þingstarfa vegna kosninga og fleiri atriða í vor náðist ekki að afgreiða frumvarpið og í rauninni komst engin niðurstaða í málið þó að þingmenn hafi nálgast lausn í málinu í gegnum t.d. nefndarálit þáverandi minni hluta sem var býsna skynsamlegt og liggur þessu máli að hluta til grundvallar. Frumvarpið byggir að meginefni á því auk þess sem nokkrar breytingar eru gerðar í þá átt að afmarka eða skilgreina enn frekar heimildir til upplýsingaöflunar við töku persónutrygginga. Það er von mín, virðulegi forseti, að með þessu frumvarpi takist að eyða vafanum sem er uppi um túlkun á 82. gr. laganna og sætta þau ólíku sjónarmið sem þá tókust á um túlkunina og hversu langt félögin megi ganga við öflun upplýsinga um væntanlega tryggingartaka. Ég er á þeirri skoðun að reisa eigi tryggingafélögunum verulegar skorður við slíkri upplýsingaöflun og það eigi t.d. að vera algjörlega ljóst að samþykki þriðja aðila liggi fyrir o.s.frv. Við eigum að þrengja að þessu leytinu umfangið til upplýsingaöflunar ef það er túlkunarefinn sem er þarna uppi og tryggja að það sé háð samþykki þeirra sem upplýsingarnar eru veittar um. Þetta eru grundvallaratriði.

Á hinn bóginn eru þau sjónarmið samkeppninnar og neytenda að þessar tryggingar standi þeim áfram til boða sem verulegur fjöldi hefur nýtt sér og ég mun fara nánar út í það í lokin sem viðbótarupplýsingar um þetta mál.

Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á greininni og mun ég fara yfir þær allra helstu. Persónutryggingar lúta að lífi og heilsu þess sem tryggir, hins vátryggða. Upplýsingagjöf vátryggingartaka hefur mikla þýðingu enda er það vátryggingartaki eða hinn vátryggði sem að jafnaði býr yfir þeim upplýsingum sem vátryggingafélag þarf á að halda til að meta vátryggingaráhættuna. Til að ná fram raunhæfu mati á vátryggingaráhættunni þarf að sjálfsögðu sá sem tekur tryggingarnar að geta og vilja gefa sem allra greinarbestar upplýsingar um heilsufar sitt og að sjálfsögðu líkur á því að hann fái þessa og hina sjúkdóma o.s.frv. Út á það ganga þessar tryggingar. Hér er lögð til breyting á 1. mgr. þannig að nýr málsliður, 2. málsliður, bætist við málsgreinina. Samkvæmt honum er vátryggingafélagi einungis heimilt að afla upplýsinga um þá sjúkdóma sem vátryggingartaki eða vátryggður, svo og foreldrar og systkini vátryggðs, eru haldin og félagið telur nauðsynlegt að fá vitneskju um til að geta lagt mat á hina væntanlegu vátryggðu áhættu gegn því skilyrði að það sé háð samþykki þriðja aðila.

Í gildandi lögum er vísað til heilsufars samanber lokamálslið 2. mgr. sem frumvarpið leggur til að verði felld brott en frumvarpið gerir ráð fyrir að umsækjandi gefi upplýsingar um tilgreinda sjúkdóma sem spurt kann að verða um. Breyting þessi er lögð til þar sem ekki er hægt að ætlast til þess að umsækjandi sem ekki býr yfir þekkingu á læknisfræði geti lagt almennt mat á sitt eigið heilsufar eða þeirra tilteknu ættingja sem hann veitir upplýsingar um með þeirra samþykki. Með sanngirni er hins vegar hægt að gera þá kröfu til viðkomandi að hann viti um þá sjúkdóma sem máli kunna að skipta við áhættumatið sjálft og þá afmarkar ákvæði hins nýja málsliðar þann hóp sem spyrja má um sem er líka mjög mikilvægt að liggi algerlega fyrir, þ.e. um hverja má spyrja. Það er háð samþykki þeirra. Nöfn þeirra sem spurt er um mega aldrei koma fram, enda ekki spurt um þau í dag heldur. Það er ekki eins og svo sé fyrirkomið. Það er verið að skilgreina þetta allt, þrengja og afmarka.

Í gildandi lögum er vísað til heilsufars mannsins, þ.e. vátryggingartaka eða vátryggðs, eða annarra einstaklinga. Frumvarpið afmarkar heimildir vátryggingafélaga til upplýsingaöflunar við foreldra og systkini auk upplýsinga um hann sjálfan, víðar um má ekki fara, og að því gefnu að samþykki þessara liggi fyrir. Heimild vátryggingafélags til upplýsingaöflunar er þó takmörkuð af bannreglu 2. mgr. sem ég mun víkja að síðar.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að ekki skipti máli við hvaða aðstæður sjúkdómsgreining hefur átt sér stað. Eftir sem áður hvílir sú skylda á herðum þess er óskar vátryggingar að veita tæmandi svör við spurningum vátryggingafélagsins. Hafi sjúkdómsgreiningin t.d. orðið til samhliða erfðafræðirannsókn sem vátryggingartaki tók þátt í ber honum að gefa upplýsingar um greininguna sjálfa enda hafi það spurt um þann tiltekna sjúkdóm sem þar var greindur. Að öðru leyti hefur vátryggingafélagið ekki rétt til að nýta sér aðrar þær upplýsingar sem kunna að hafa orðið til við erfðafræðirannsóknina. Þar er það skilgreint mjög nákvæmlega.

Frumvarpið leggur ekki til breytingar á 3. málsl. 1. mgr. sem er 2. málsl. í gildandi lögum en það er að orðunum „eftir bestu vitund“ er skeytt inn og er að sjálfsögðu mikilvægt fyrir vátryggingartakann og stöðu hans komi eitthvað upp að það sé inni að hann hafi veitt upplýsingarnar eftir sinni bestu vitund á þeim tíma.

Í ljósi þess að vátryggingartaki kann að hafa alist upp fjarri öðru hvoru eða báðum foreldrum, viti jafnvel ekki hver þau eru eða annað hvort eða bæði látin er ekki ætlast til þess að hann búi í öllum tilfellum yfir upplýsingum um sjúkdóma sem þau gætu hafa verið haldin. Það þarf að koma skýrt fram að svo óréttmætar kröfur séu ekki lagðar á herðar hans.

Auk þessa nýja 2. málsl. leggur frumvarpið til að nýr málsliður, sá fjórði, bætist við málsgreinina. Samkvæmt honum er gert ráð fyrir að vátryggingartaki, eftir atvikum vátryggður, staðfesti með umsókn um töku vátryggingar að hann hafi hlotið samþykki foreldra eða systkina fyrir því að hann megi gefa upplýsingarnar sem um er spurt. Það liggur því algerlega til grundvallar að það samþykki hafi verið fengið. Annars má hann ekki veita upplýsingarnar og tryggingafélagið getur þar með ekki fengið þær í hendurnar. Áfram er gert ráð fyrir að spurningar á umsóknareyðublaði séu með þeim hætti að tiltekinn sjúkdómur sé ekki tengdur einstaklingi. Það er líka mikilsvert persónuverndaratriði og samkvæmt því skal spyrja um foreldra eða systkini sem eina heild. Hefur foreldri eða systkini fengið þennan eða hinn sjúkdóminn?

Ákvæðið gerir jafnframt ráð fyrir að vátryggingartaka sé af vissum ástæðum ekki mögulegt að verða við þessum kröfum. Má þar taka sem dæmi að foreldrar eða systkini séu látin og vátryggingartaki þekki í raun ekki blóðforeldra eða að samband systkina hafi rofnað um svo langa hríð að vátryggingartaki hafi ekki tök á að afla samþykkis viðkomandi fyrir upplýsingagjöfinni. Frumvarpið tiltekur ekki hvernig vátryggingafélag skuli bregðast við ákvæðum þessa nýja málsliðar en gera má ráð fyrir að ákvæði hans kalli á endurskoðun á þeim umsóknareyðublöðum sem vátryggingartakar þurfa að útfylla.

Frumvarpið leggur til breytingu á 2. mgr. sem felur í sér að vátryggingafélagi er óheimilt að nýta sér niðurstöður erfðarannsókna en gildandi lög vísa til upplýsinga um erfðaeiginleika manns. Með erfðarannsókn er einkum átt við DNA-rannsókn, RNA-greiningu og vefja- og blóðrannsókn sem gerð er í þeim tilgangi að meta áhættu einstaklings á því að verða veikur. Það er sem sagt alveg skýrt að félaginu er óheimilt að nýta sér niðurstöður slíkra rannsókna.

Það er mikilvægt að það komi fram að bannregla 2. mgr. er byggð á danskri fyrirmynd sem nánar er gerð grein fyrir í athugasemdum með frumvarpinu. Það er einnig ítarlega fjallað um tilefni breytinga þeirra sem hér eru lagðar til. Einnig er rétt að ítreka að með breytingartillögum frumvarpsins er leitast við að eyða vafa um hvers konar upplýsingar það eru sem vátryggingafélagi er óheimilt að nota í áhættumati sínu.

Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar. Fyrst ætla ég aðeins að koma að því sem ég nefndi áðan um stöðu þessara trygginga á íslenskum neytendamarkaði. Það er talið að í gildi séu rúmlega 200 þús. samningar um persónutryggingar. Af þeim má gera ráð fyrir að samningar við erlend persónutryggingafélög sem hafa selt í gegnum miðlara séu um þriðjungur á þeim markaði.

Samningar við innlend vátryggingafélög eru við 143 þús. einstaklinga þannig að þetta nær til helmings þjóðarinnar og stórs hluta landsmanna þegar allt er talið. Innlendu samningarnir skiptast í einstaklings- og hóplíftryggingar, söfnunarlíftryggingar og heilsutryggingar sem eru t.d. um 40 þús. talsins, hóplíftryggingar eru 94 þús. taldar með einstaklingstryggingum en ekki eru handbærar upplýsingar um hvernig erlendu samningarnir skiptast þarna á milli. Aukin samkeppni erlendis frá hreyfði mjög við innlendu vátryggingafélögunum á sínum tíma og jók verulega framboð á þessari vöru sem er vátryggingarsamningar, persónu-, líf- og heilsutryggingar, til að mæta þessari auknu samkeppni. Tilkoma þeirra inn á markaðinn á sínum tíma skipti mjög miklu máli þannig að það væri stórmál ef þau færu af markaði.

Tvö erlend félög hafa verið stærst, Sun Life og French Provident. Þegar ágreiningur reis haustið 2005 um túlkun ákvæða 82. gr. fór Sun Life af markaði og French Provident hefur skriflega lýst því yfir að félagið muni hætta viðskiptum verði lagaóvissunni ekki eytt með einum eða öðrum hætti eins og við erum að reyna að gera hér. Óvissan hefur áhrif á möguleika þeirra til að fá viðhlítandi endurtryggingavernd eins og við segjum. Íslensku persónutryggingafélögin tóku þá afstöðu haustið 2005 að fara að túlkun Fjármálaeftirlitsins og hafa haldið sínu striki. Það er mikilvægt að þetta nái fram að ganga og helstu breytingarnar, verði frumvarpið að lögum, eru að þarna er komin frekari takmörkun á heimildum tryggingafélaganna til upplýsingaöflunar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að sú takmörkun liggi alveg skýrt fyrir, að um það sé ekki í neinu deilt hvað þeir megi ganga langt og að ekki verði lengur hægt að spyrja um heilsufar, heldur einungis um tiltekna sjúkdóma. Það er einnig skýr afmörkun sem þessu fylgir á hópnum sem þetta nær til. Það er alveg skýrt um hverja má spyrja, hvernig, að nöfn þeirra komi ekki fram og þeir hafi samþykkt með einhverjum hætti að þessar upplýsingar komi fram. Aðeins verður spurt um hópinn sem slíkan en ekki einstaka aðila í hópnum.

Þetta eru helstu breytingarnar og örfáar upplýsingar um stöðu þessara trygginga á íslenskum tryggingamarkaði sem er samkvæmt þessu mjög mikil.