135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

tekjutap hafnarsjóða.

39. mál
[13:49]
Hlusta

Flm. (Bjarni Harðarson) (F):

Frú forseti. Tillaga til þingsályktunar sem hér liggur fyrir mælir fyrir um mótvægisaðgerðir vegna tekjutaps hafnarsjóða í kjölfar niðurskurðar þorskkvóta og er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að verja hluta þess fjár sem ætlað er til mótvægisaðgerða vegna niðurskurðar þorskkvóta til fullrar greiðslu á tapi á löndunargjöldum hafnarsjóða sökum lækkandi tekna í kjölfar samdráttar í útgerð og vinnslu.

Í tillögum þingflokks framsóknarmanna sem kynntar voru 28. september síðastliðinn var lagt til að ríkissjóður mætti með beinum fjárframlögum því tekjutapi hafnarsjóða og sveitarsjóða sem stafar af aflasamdrætti og verði til þeirra mála allt að 1 milljarði kr. Þannig verði allt að 200 millj. kr. varið til framlaga til hafnarsjóða til að mæta þar samdrætti í tekjum hafnanna og 800 millj. kr. varið í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til þess að bæta sveitarfélögum útsvarstap vegna minnkandi þorskveiða.

Enn ríkir mikil óvissa um hvar niðurskurður aflaheimilda kemur harðast niður. Mögulegt er að stærri útgerðarfyrirtæki fari þá leið að loka ákveðnum starfsstöðvum sínum en auki heldur umsvif á öðrum. Þá getur komið til þess að einstakar útgerðir hætti rekstri. Vandi einstakra byggðarlaga getur því verið mjög mismunandi og brýnt að aðstoð stjórnvalda taki mið af því. Skilvirkasta leiðin til þess er að stjórnvöld greiði beint tekjutap sem stafar af aflasamdrætti.

Um þetta mál þarf svo sem ekki að hafa neitt mjög mörg orð í viðbót við það sem hér segir í greinargerð. Mér þykir þó rétt að það komi fram, frú forseti, að tillögugerð þessari er engan veginn stefnt gegn þeim mótvægisaðgerðum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram heldur kemur hún fram sem eðlilegt aðhald. Í fréttum um mótvægisaðgerðir hafa komið fram yfirlýsingar í þá veru að ríkisstjórnin hyggist greiða að einhverju leyti þetta tekjutap til baka. Við framsóknarmenn teljum að það eigi að kveða þar skýrar að orði og höfum raunar gagnrýnt að margt sé enn óljóst í mótvægisaðgerðunum og erum hér að gegna því sjálfsagða og eðlilega hlutverki að brýna stjórnvöld til þess að vinna þetta verk sem allra best.

Af öðrum aðgerðum sem við höfum lagt til vegna niðurskurðar í þorskkvóta má nefna að við höfum gert það að tillögu okkar að ríkisstjórnin greiði beint framlag til þeirra sem missa vinnu tímabundið eða alveg vegna þessa niðurskurðar, greiði beint framlag til menntunar þessa fólks þannig að það geti hvort heldur það vill farið í endurmenntun í sínu fagi eða menntað sig til nýrra starfa í samfélaginu.

Við höfum einnig lagt til ákveðna endurskoðun á vissum þáttum í kvótakerfinu og að síðustu vil ég taka fram, án þess að ég ætli að rekja þessa tillögur hér í smáatriðum, að við höfum lagt til og erum þar nokkuð samhljóða tillögum ríkisstjórnarinnar, en eins og áður kveðum skýrar að, að þorskeldi í landinu verði stóreflt enda er það mjög brýnt hagsmunamál fyrir sjávarbyggðirnar í landinu og fyrir þá markaði sem við Íslendingar eigum fyrir þorskafurðir, að við töpum ekki niður þorskvinnslu í landinu og raunar er engin leið raunhæfari til þess en að auka til muna þorskeldi.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Þetta er fyrsta mál sem ég flyt hér formlega á þinginu sem 1. flutningsmaður og ég vil beina því vinsamlega til stjórnarmeirihlutans að hann taki þetta til jákvæðrar skoðunar og að þessi tillaga verði samþykkt.