135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

Háskóli á Ísafirði.

30. mál
[16:26]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langaði bara til að koma hér örstutt upp og lýsa ánægju minni og eindregnum stuðningi við þetta mál. Það er nefnilega mikilvægt það sem 1. flutningsmaður, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sagði hér í upphafi, að þetta er mál sem styrkir ekki bara Vestfirði heldur líka þjóðina í heild. Það er mikilvægt að við sem búum í 101 Reykjavík styðjum og höfum skilning á mikilvægi þess að landsbyggðin lifi og blómstri og menntun og tækifæri þeirra sem þar búa aukist með vaxandi velsæld. Því markviss menningar- og menntauppbygging í dreifbýlinu er jú eitt dýrmætasta byggðamál okkar tíma. Það er fjárfesting og áætlanagerð sem getur ekki farið úrskeiðis og mun alltaf gefa meira af sér í framtíðinni heldur en hún tekur af í nútíðinni.

Það er líka þannig að á Vestfjörðum eru einmitt svo spennandi möguleikar til sérhæfingar eins og komið hefur fram í ræðum sem hér hafa verið fluttar. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson talaði um lífríki hafsins og hvernig einn fjörður af 49 er mikilvægur og býr til gnótt rannsóknartækifæra og aukinnar þekkingar. Sjávarútvegurinn, auðlinda- og umhverfisrannsóknir eru augljós tækifæri á Vestfjörðum. Og þá er það sannarlega grundvallaratriði að þetta sé sjálfstæð stofnun, sjálfstæður skóli.

Það er nefnilega svo merkilegt að margir þeirra sem tala einna helst fyrir frelsi og sjálfstæði standa um leið fyrir öflugu kerfi miðstýringar og forræðishyggju, þ.e. miðstýringar sunnanmanna yfir hinu stóra landsvæði Íslands.

Þá er ekki úr vegi að nefna fjarskiptamálin því við Íslendingar erum ekki öll svo heppin að búa við þau góðu fjarskipti sem við finnum innan þessara veggja á þessu svæði. Víða um landið eru fjarskipti óboðleg þannig að meira að segja tækifæri til fjarnáms eru ekki eins góð og þau ættu að vera. Menntamál snerta jú ekki síst konur á landsbyggðinni en þær eru meiri hluti þeirra sem sækjast eftir áframhaldandi námi og vilja styrkja stöðu sína í heimabyggð með slíkum menntunartækifærum.

Ég var í háskólasetrinu fyrir ekki svo löngu síðan og var mjög hrifin af því starfi sem þar er unnið. Það er mjög merkilegt starf sem er búið að vinna þar og byggja upp undir mjög framtaksamri og færri forustu. Þetta er kannski eðlilegt framhald af þeim sprotum sem þar hefur verið til sáð. Þá er nefnilega líka gott að hugsa til þess sem ég held að hv. þm. Jón Bjarnason, hafi bent hér á, og það er að allir háskólar á Íslandi og allt á Íslandi er lítið í samanburði við hið stóra alþjóðlega samhengi. Ef við Íslendingar gætum sent öll okkar ungmenni utan til náms til að fá bestu fáanlegu menntun sem til er þá kemur að því að það besta er afstætt, þ.e. það er mismunandi hvað er best fyrir hvert land, hvert svæði og hvern einstakling.

Það sem Háskóli Íslands, þegar hann var stofnaður á sínum tíma, gerði kannski öðru fremur var að byggja með þjóðinni bjartsýni á eigið framtak og eigin mannauð og eigin framtakssemi og eigin framtíð og það sem í okkar fólki bjó. Það er með því hugarfari sem við eigum að líta á uppbyggingu menningar og mennta á landsbyggðinni. Að það er eitthvað ákveðið sem hver og einn getur tekið að sér með framúrskarandi hætti og þannig verið akkúrat það allra besta sem þörf er á á hverjum stað. Þetta hangir allt saman, svæðisbundin nýsköpun og svæðisbundin menntun, endurnýjun, rannsóknir og þar með sjálfstraust og framtakssemi. Ég vil því taka undir þau orð að hver og einn fjörður af 49 skiptir máli og ég vona svo sannarlega eins og sagt hefur verið að þetta fari ekki í svæfingu heldur til framkvæmda.